Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2005 Innviðaráðuneytið

Reykhólahreppur - Vanhæfur sveitarstjórnarmaður leggur fram tillögu um málsmeðferð, fundarstjórn oddvita

Björn Samúelsson
19. janúar 2005
FEL04120030/1000

Reykjabraut 5

380 Króksfjarðarnesi

Vísað er til stjórnsýslukæru yðar til félagsmálaráðuneytisins, dags. 10. desember 2004, f.h.,

móður yðar, Theódóru Guðnadóttur, varðandi það hvort sveitarstjórnarfulltrúa, sem telur sig

vanhæfan í ákveðnu máli, sé heimilt að bera fram tillögu á fundi sveitarstjórnar í því máli áður en

hann víkur af fundi.

Í kærunni kemur fram að hreppsnefndarmaðurinn Egill Sigurgeirsson, sem áleit sig vanhæfan til

að taka þátt í afgreiðslu hreppsnefndar á erindi Theódóru Guðnadóttur, bar fram tillögu um

meðferð málsins á fundi hreppsnefndar Reykhólahrepps þann 9. desember 2004 sem var

samþykkt eftir að hann vék af fundi. Þetta sé að yðar áliti gróft stjórnsýslubrot.

Ráðuneytið óskaði umsagnar Gústafs Jökuls Ólafssonar, oddvita Reykhólahrepps, um erindi yðar

með bréfi dags. 15. desember 2004. Umsögn oddvita er dagsett 5. janúar 2005. Þann 10. janúar

2005 barst ráðuneytinu nýtt gagn í málinu frá oddvita Reykhólahrepps, þ.e. afrit af bréfi

sveitarstjóra Reykhólahrepps til landbúnaðarráðuneytis, dags. 17. desember 2004.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. janúar 2005, var yður gefinn kostur á andsvörum. Svar yðar

barst ráðuneytinu með tölvupósti, dags. 19. janúar 2005. Þar kemur fram að þér kannist ekki við

það að oddviti hafi minnst á það í samtali við yður að "hann væri ákveðinn í að leggja fram

tillögu sem hann mundi bera fram á fundinum.", eins og segir í umsögn oddvitans.

I. Um kæruheimild til ráðuneytisins.

Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, hefur ráðuneytið úrskurðarvald um

ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Úrskurðarvald

ráðuneytis takmarkast við að staðfesta ákvörðun sveitarstjórnar, ógilda hana eða vísa máli heim

til nýrrar meðferðar. Við vinnslu erindis yðar í ráðuneytinu var í upphafi litið svo á að málið yrði

tekið fyrir á grundvelli 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga og var oddvita Reykhólahrepps

tilkynnt það, sbr. bréf ráðuneytisins til hans, dags. 15. desember 2004. Við nánari vinnslu

málsins í ráðuneytinu, og einkum þó eftir að afrit af bréfi sveitarstjóra Reykhólahrepps til

landbúnaðarráðuneytis, dags. 17. desember 2004, barst ráðuneytinu þann 10. janúar 2005, varð

ljóst að efni tillögu þeirrar sem hinn vanhæfi sveitarstjórnarmaður lagði fram á fundi

sveitarstjórnar 9. desember 2004 varðaði einungis málsmeðferð og fól hún ekki í sér endanlega

afgreiðslu málsins. Jafnframt er upplýst að tillagan var efnislega samhljóða tillögu þeirri sem

oddviti hugðist leggja fram. Af þessum sökum mun ráðuneytið ekki fella úrskurð í máli þessu

skv. 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem sá úrskurður hefði engin áhrif að lögum.

Ráðuneytið mun því veita álit í málinu, sbr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga, svo og leiðbeiningar.

Nánar um þetta efni vísast til kafla III. í bréfi þessu.

II. Málavextir og málsrök aðila.

 

Á fundi hreppsnefndar Reykhólahrepps þann 9. desember 2004 var tekið fyrir erindi frá

Theódóru Guðnadóttur þar sem óskað var eftir að Reykhólahreppur keypti landspildu af

landbúnaðarráðuneyti og endurseldi hana Theódóru. Á fundinum sat hreppsnefndarmaðurinn

Egill Sigurgeirsson sem áleit sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu málsins. Áður en hann vék

af fundi bar hann fram tillögu um málið sem var samþykkt eftir að hann vék af fundi.

Í erindi yðar segir svo um þetta atriði:

„Á fundinum sat hreppsnefndarmaður Egill að nafni og er hann bróðir ábúanda á ríkisjörð sem

liggur að þessu landi sem Theódóra vill kaupa. Áður en hann vék af fundi, bar hann fram

tillögu sem var samþykkt eftir að hann vék af fundi. ? Þannig hafði hann áhrif á afgreiðslu

málsins sem sagt tillaga hans var samþykkt eftir að hann vék af fundi. Þetta tel ég vera gróft

stjórnsýslubrot, og furðulegt að stjórnandi fundarins Gústaf Jökull Ólafsson oddviti gerði enga

tilraun til að stoppa þann sem bar fram tillöguna.“

Í umsögn oddvita hreppsins, Gústafs Jökuls Ólafssonar, dags. 5. janúar 2005, segir svo um erindi

yðar.

„Fyrir fundinn var ég búinn að ákveða að leggja sjálfur fram tillögu um að málinu yrði vísað til

landbúnaðarráðuneytis og hafði ég tjáð Birni það í símtali sem hann hafði átt við mig daginn

áður um þetta mál. Á fundinum gerðist það hins vegar, að einn hreppsnefndarmanna, Egill

Sigurgeirsson, lýsti því yfir að hann teldi sig vanhæfan í málinu og óskaði eftir að víkja af fundi.

Var það samþykkt. Áður en Egill vék af fundi lagði hann fram rökstudda tillögu um að málinu

yrði vísað til landbúnaðarráðuneytis. Egill vék síðan af fundi og varamaður kom inn á fundinn í

hans stað. Nokkrar umræður urðu um málið. Að lokum var síðan tillaga Egils samþykkt með

þremur atkvæðum.“

Oddvitinn bendir á að tillaga Egils hafi verið algerlega samhljóða þeirri tillögu sem hann sjálfur

hugðist leggja fram „og fannst mér því varla taka því að leggjast gegn því að hún yrði lögð fram“

eins og segir orðrétt í umsögninni. Í öðru lagi bendir oddvitinn á að ekki verði séð af 19. gr.

sveitarstjórnarlaga, að sá framgangsmáti sem viðhafður var á fundinum væri beinlínis andstæður

6. mgr. 19. gr. laganna. Þar sé einungis sagt að sveitarstjórnarmaður sem vanhæfur er við úrlausn

máls „skuli yfirgefa fundarsal sveitarstjórnar við meðferð og afgreiðslu þess“. Oddvitinn sé því á

þeirri skoðun að sá sem leggur fram tillögu og víkur síðan af fundi taki hvorki þátt í meðferð né

afgreiðslu málsins í skilningi 19. gr. sveitarstjórnarlaga. Þá bendir oddvitinn á að skv. 5. mgr. 19.

gr. sveitarstjórnarlaga sé sveitarstjórnarmanni, sem veit hæfi sitt orka tvímælis, heimilt að gera

grein fyrir afstöðu sinni til hlutaðeigandi máls, en það sé einungis stigsmunur en ekki eðlismunur

á því að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni án þess að leggja fram tillögu annars vegar og

hins vegar því að gera grein fyrir afstöðu sinni með því að leggja fram tillögu.

III. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Um framgangsmáta á fundi sveitarstjórnar, þegar sveitarstjórnarmaður veit hæfi sitt orka

tvímælis, segir svo í 5. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga:

„Sveitarstjórnarmanni sem veit hæfi sitt orka tvímælis ber að vekja athygli á því.

Sveitarstjórnarmanni er heimilt við meðferð máls sem hann er vanhæfur að afgreiða að gera

stuttlega grein fyrir afstöðu sinni. Sveitarstjórn sker umræðulaust úr um hvort mál er svo vaxið

að einhver sveitarstjórnarmanna sé vanhæfur. Sveitarstjórnarmaður sem hlut á að máli má taka

þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt.“

Í handbók Sambands íslenskra sveitarfélaga „Sveitarstjórnarlög ásamt skýringum og

athugasemdum“ segir svo í skýringum Sesselju Árnadóttur um 5. mgr. 19. gr.:

„Í 5. mgr. er lögð sú skylda á herðar sveitarstjórnarmanns sem veit hæfi sitt orka tvímælis að

vekja athygli á því annað hvort á sveitarstjórnarfundi eða fyrir hann. Sveitarstjórnarmanni er þó

heimilt við meðferð máls sem hann er vanhæfur að afgreiða að gera stuttlega grein fyrir afstöðu

sinni. Er hér ekki átt við þátttöku í almennum umræðum um málið, heldur er

sveitarstjórnarmanninum heimilt, eins og segir í greininni að gera stuttlega grein fyrir afstöðu

sinni til málsins áður en hann víkur sæti og hin almenna umfjöllun hefst í sveitarstjórninni.“

Ráðuneytið telur að bæði orðalag ákvæðis 5. mgr. 19. gr. laganna, svo og skýringar á því ákvæði,

feli í sér tæmandi lýsingu á því hvernig málum skuli háttað á fundi sveitarstjórnar þegar

sveitarstjórnarmaður veit hæfi sitt orka tvímælis. Samkvæmt ákvæðinu er sveitarstjórnarmanni

heimilt við meðferð máls sem hann er vanhæfur til að afgreiða að gera stuttlega grein fyrir

afstöðu sinni til málsins. Jafnframt er honum heimilt að taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt.

Ekki verður hins vegar talið að í framangreindu felist réttur til þess að leggja fram tillögu á

sveitarstjórnarfundi um afgreiðslu tiltekins máls sem viðkomandi sveitarstjórnarmaður er

vanhæfur til að fjalla um enda leiðir af eðli máls að slík tillögugerð hlýtur að skoðast sem þáttur í

málsmeðferð. Ráðuneytið telur því að það hafi verið yfirsjón hjá fundarstjóra, oddvita hreppsins,

að heimila það að Egill Sigurgeirsson bæri fram tillögu á fundi hreppsnefndar áður en hann vék

af fundi vegna vanhæfis.

Á hinn bóginn er mál þetta með þeim hætti að í fyrsta lagi snerist tillagan um málsmeðferð en

ekki endanlega afgreiðslu máls og í öðru var tillagan efnislega sú sama og oddvitinn hugðist bera

fram. Báðar tillögurnar snerust um það að óska eftir umsögn landbúnaðarráðuneytisins um málið,

sbr. bréf sveitarstjóra Reykhólahrepps til landbúnaðarráðuneytisins, dags. 17. desember 2004,

sem barst ráðuneytinu 10. janúar 2005. Framlagning sveitarstjórnarmannsins á tillögunni hefur

því engin áhrif á efni eða framgang þessa máls.

Með vísan til þess sem að framan er rakið niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu sú að það hafi

verið aðfinnsluverð mistök hjá oddvita Reykhólahrepps á fundi hreppsnefndar þann 9. desember

2004 að heimila sveitarstjórnarmanni, sem áleit sig vanhæfan í tilteknu máli, að bera fram tillögu

áður en hann vék af fundi. Þar sem á hinn bóginn gögn málsins sýna að oddviti hreppsnefndar

hefði ella borið fram sams konar tillögu, og báðar tillögurnar fólu eingöngu í sér tillögu um að

senda málið til umsagnar landbúnaðarráðuneytis, hafði það enga þýðingu að lögum og breytti

engu um gang málsins að sá sveitarstjórnarfulltrúi, sem taldi sig vanhæfan í málinu, bar fram

tillögu í málinu á fundi hreppsnefndar.

Ráðuneytið mun beina þeim tilmælum til hreppsnefndar Reykhólahrepps að hafa hliðsjón af áliti

þessu komi til þess síðar að sveitarstjórnarmaður, sem álítur sig vanhæfan, óski eftir að bera fram

tillögu á fundi hreppsnefndar.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

Afrit:

Gústaf Jökull Ólafsson

oddviti Reykhólahrepps.

 

19. janúar 2005 - Reykhólahreppur - Vanhæfur sveitarstjórnarmaður leggur fram tillögu um málsmeðferð, fundarstjórn oddvita (PDF)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum