Hoppa yfir valmynd
10. júní 1998 Innviðaráðuneytið

Húsavíkurkaupstaður - Hæfi slökkviliðsstjóra til að sitja í framkvæmdanefnd og hæfi starfsmanns framkvæmdanefndar til að sitja í þeirri nefnd og byggingarnefnd

Húsavíkurkaupstaður                                            10. júní 1998                                                      98060008

Einar Njálsson bæjarstjóri                                                                                                                          1001

Ketilsbraut 9

640 Húsavík

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 5. júní sl., þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á hæfi tveggja bæjarfulltrúa til setu í tilteknum nefndum.

 

             Annars vegar er um að ræða hæfi Jóns Ásbergs Salómonssonar til setu í “Framkvæmdanefnd“. Jón Ásberg starfar sem slökkviliðsstjóri. Málefni slökkviliðs og eldvarnaeftirlits heyra undir Framkvæmdanefnd og yfirmaður málaflokksins er bæjarverkfræðingur. Slökkviliðsstjóri annast framkvæmd þeirra samþykkta sem gerðar eru í Framkvæmdanefnd og snerta brunavarnir og eldvarnaeftirlit.

 

             Hins vegar er um að ræða hæfi Tryggva Jóhannssonar til setu í “Byggingarnefnd og Framkvæmdanefnd“. Tryggvi er starfsmaður á sviði Framkvæmdanefndar. Starfsheiti hans er tæknir. Yfirmaður Tryggva er bæjarverkfræðingur, sem undirbýr fundi nefndarinnar og annast framkvæmd þeirra samþykkta sem gerðar eru í framkvæmdanefndinni (nema þær snerti brunavarnir og eldvarnaeftirlit). Tryggvi starfar einnig fyrir byggingafulltrúaembættið, þó stjórnskipulega heyri hann undir bæjarverkfræðing.

 

             Í 42. gr. nýrra sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er svohljóðandi ákvæði:

             “Starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá.“

 

             Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi til sveitarstjórnarlaga segir svo meðal annars:

             “Greinin samsvarar 59. gr. gildandi laga, en lagt er til að reglan verði þrengd nokkuð. Hún verði þannig látin ná til allra starfsmanna viðkomandi fyrirtækja eða stofnana en ekki eingöngu til forstöðumanna og annarra stjórnenda. Er það gert til að koma í veg fyrir þá aðstöðu að forstöðumaður stofnunar teljist vanhæfur til setu í stjórn þeirrar stofnunar en undirmaður hans geti hins vegar setið í stjórninni. Slík aðstaða þykir óeðlileg í ljósi almennra reglna um hæfi í stjórnsýslunni.“

 

             Með hliðsjón af framangreindu ákvæði sveitarstjórnarlaga telur ráðuneytið ljóst að Jón Ásberg Salómonsson sé ekki kjörgengur í Framkvæmdanefnd og að Tryggvi Jóhannsson sé ekki kjörgengur í Framkvæmdanefnd og Byggingarnefnd, þar sem þeir eru starfsmenn hjá stofnunum eða í verkefnum sem heyra undir framangreindar nefndir.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum