Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2000 Innviðaráðuneytið

Fljótsdalshreppur - Kjörgengi ýmissa starfsmanna grunnskóla í skólanefnd

Fljótsdalshreppur                                  4. apríl 2000                                Tilvísun: FEL00030080/1001

Jóhann F. Þórhallsson, oddviti

Brekkugerði

701 Egilsstaðir

 

 

 

      Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 23. mars sl., þar sem óskað er eftir að ráðuneytið upplýsi hvaða starfsmenn grunnskóla séu vanhæfir til setu í skólanefnd sem fulltrúar sveitarfélagsins og hvort einhver eðlismunur sé á störfum hvað þetta varðar. Þau störf sem um er að ræða eru kennslustörf, skólastjórastarf, eldhússtörf, ræstingastörf, húsvarðarstarf, skrifstofustörf og gæslustörf.

 

      Í 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er svohljóðandi ákvæði:

      „Starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá.“

 

      Í athugasemdum við þessa grein í frumvarpi til sveitarstjórnarlaga segir svo meðal annars:

      “Greinin samsvarar 59. gr. gildandi laga, en lagt er til að reglan verði þrengd nokkuð. Hún verði þannig látin ná til allra starfsmanna viðkomandi fyrirtækja eða stofnana en ekki eingöngu til forstöðumanna og annarra stjórnenda. Er það gert til að koma í veg fyrir þá aðstöðu að forstöðumaður stofnunar teljist vanhæfur til setu í stjórn þeirrar stofnunar en undirmaður hans geti hins vegar setið í stjórninni. Slík aðstaða þykir óeðlileg í ljósi almennra reglna um hæfi í stjórnsýslunni.“

 

      Í 42. gr. laganna er ekki að finna takmörkun er varðar starfssvið eða starfshlutfall starfsmanna hjá þeirri stofnun sem málið varðar.

 

      Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að starfsmenn sem gegna þeim störfum sem tilgreind eru í erindi yðar séu ekki kjörgengir í skólanefnd sveitarfélagsins.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum