Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2003 Innviðaráðuneytið

Hafnarfjarðarkaupstaður - Heimildir sveitarstjórna til að ákveða seturétt áheyrnarfulltrúa á fundum nefnda, jafnræði fulltrúa meirihluta og minnihluta

Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði                        12. febrúar 2003                            FEL03010030/1001

Magnús Gunnarsson

Strandgötu 29

220 HAFNARFIRÐI

 

 

Vísað er til erindis yðar, dags. 6. janúar 2003, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á því fyrirkomulagi sem ákveðið er í 3. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar, nr. 637/2002. Í umræddu ákvæði er mælt fyrir um að formönnum og varaformönnum ráða, sem kjörnir eru skv. 1. og 2. mgr. sömu greinar, skuli heimilt að sitja nefndar- og stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt í þeim fagnefndum og stjórnum sem heyra undir viðkomandi ráð. Fram kemur í erindi yðar að allir formenn og varaformenn þeirra fimm ráða sem starfa samkvæmt samþykktinni eru kjörnir af meirihluta Samfylkingar í bæjarstjórn.

 

Í erindi yðar er vísað til 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, til stuðnings þeirri skoðun að nauðsynlegt sé að tryggja jafnan rétt kjörinna fulltrúa í ráðum bæjarins til þess að fylgjast með störfum fagnefnda og stjórna sem heyra undir viðkomandi ráð. Í erindinu er þess einnig getið að við afgreiðslu samþykktarinnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt fram breytingartillögu þess efnis að allir ráðsmenn hefðu málfrelsi og tillögurétt í þeim nefndum sem heyra undir viðkomandi ráð. Breytingartillagan var felld.

 

Þess er farið á leit í erindinu að ráðuneytið gefi álit á því hvort ekki sé rétt að allir kjörnir aðalmenn í atvinnu- og þróunarráði, bæjarráði, fjölskylduráði, fræðsluráði og skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðarkaupstaðar skuli hafa jafna heimild til að sitja fundi þeirra nefnda og stjórna sem heyra undir viðkomandi ráð, með málfrelsi og tillögurétt.

 

Álit ráðuneytisins

Í 10. gr. sveitarstjórnarlaga er mælt fyrir um að sveitarstjórnir skulu setja sér samþykktir um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins. Reglur slíkra samþykkta eru til fyllingar ákvæðum sveitarstjórnarlaga og verður almennt að ætla sveitarstjórnum verulegt frjálsræði við gerð slíkra samþykkta, einkum að því er varðar skipulag stjórnkerfis sveitarfélagsins, svo fremi að ákvæði samþykkta fari ekki í bága við lög. Í 55. gr. samþykktar um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar, nr. 637/2002, er mælt fyrir um þær nefndir, ráð og stjórnir sem mynda hið pólitíska stjórnkerfi sveitarfélagsins. Hefur þar verið valin sú leið að fimm ráð fara með yfirstjórn sveitarfélagsins í umboði bæjarstjórnar, þ.e. bæjarráð, atvinnu- og þróunarráð, fjölskylduráð, fræðsluráð og skipulags- og byggingarráð. Í IV. kafla samþykktarinnar er nánar tilgreint hvaða nefndir og stjórnir sveitarfélagsins lúta stjórn hvers ráðs.

 

Í 3. mgr. 44. gr. samþykktarinnar er mælt fyrir um að formönnum og varaformönnum ráða, sem kjörnir eru skv. 1. og 2. mgr. sömu greinar, skuli heimilt að sitja nefndar- og stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt í þeim fagnefndum og stjórnum sem heyra undir viðkomandi ráð. Ákvæðið er allsérstakt og á það sér að líkindum ekki hliðstæðu í samþykktum annarra sveitarfélaga hér á landi. Áþekkt fyrirkomulag er hins vegar vel þekkt í Danmörku, þar sem kveðið er á um það í 31. gr. a. dönsku sveitarstjórnarlaganna að forseti bæjarstjórnar eigi seturétt á öllum fundum nefnda, án atkvæðisréttar.

 

Í sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, er ekki að finna ákvæði á borð við það sem vitnað er til hér að framan. Þrátt fyrir það hefur lengi tíðkast að sveitarstjórnir heimili ákveðnum aðilum seturétt á fundum nefnda sveitarfélagsins með málfrelsi og tillögurétt. Algengast er að þar sé um að ræða embættismenn sveitarfélagsins eða fulltrúa tiltekinna hagsmunahópa. Hefur löggjafinn viðurkennt þetta fyrirkomulag, m.a. með því að heimila í 2. mgr. 50. gr. sveitarstjórnarlaga að áheyrnarfulltrúum sé greidd þóknun fyrir störf sín í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum sveitarfélags. Þá hafa lögin ekki að geyma ákvæði sem takmarka heimildir sveitarfélaga til að veita áheyrnar- og tillögurétt á nefndafundum. Ráðuneytið telur því ljóst að það sé ekki óheimilt að kveða á um það í samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélags að formenn og varaformenn ráða sem fara með yfirstjórn málaflokks skuli eiga seturétt, án atkvæðisréttar, á fundum þeirra nefnda og stjórna sem starfa í umboði viðkomandi ráðs.

 

Aðgangur kjörinna fulltrúa að upplýsingum um störf nefnda er tryggður á tvennan hátt í sveitarstjórnarlögum. Í fyrsta lagi geta þau stjórnmálaöfl sem fengið hafa kjörna fulltrúa í sveitarstjórn tryggt sér þátttöku í störfum nefnda við kjör fulltrúa í einstakar nefndir, sbr. 40. gr. Í öðru lagi er kveðið á um það í 49. gr. laganna að fundargerðir nefnda, ráða og stjórna skuli lagðar fyrir byggðarráð og/eða fullskipaða sveitarstjórn eftir því hver háttur er hafður á fullnaðarafgreiðslu í viðkomandi málaflokki. Þá skulu fundargerðir fylgja dagskrá reglulegra sveitarstjórnarfunda. Jafnframt skal tekið fram að ákvæði stjórnsýslulaga verða ekki túlkuð á þann hátt að þeim sé ætlað að tryggja öllum sveitarstjórnarmönnum jafnan rétt til áhrifa innan stjórnkerfis sveitarfélags, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Um þann rétt gilda eingöngu ákvæði sveitarstjórnarlaga. Það er mat ráðuneytisins að ekki sé skylt samkvæmt sveitarstjórnarlögum að veita kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn eða ráðum ríkari aðgang að störfum nefnda en mælt er fyrir um í lögunum, enda þótt slíkt geti eftir atvikum verið heimilt, enda sé kveðið á um þann rétt í samþykktum sveitarfélags.

 

Með vísan til alls sem að framan er rakið telur ráðuneytið ekki skylt að veita öllum kjörnum aðalmönnum í atvinnu- og þróunarráði, bæjarráði, fjölskylduráði, fræðsluráði og skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðarkaupstaðar rétt til að sitja fundi þeirra nefnda og stjórna sem heyra undir viðkomandi ráð.

 

 

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum