Hoppa yfir valmynd
6. október 2004 Innviðaráðuneytið

Dalvíkurbyggð - Réttindi og skyldur áheyrnarfulltrúa í fræðsluráði, óformlegir vinnufundir nefnda

Dalvíkurbyggð
6. október 2004
FEL04090039/1001

Ráðhúsinu

620 Dalvík

Ráðuneytinu hafa borist þrjú erindi er öll varða með einum eða öðrum hætti setu áheyrnarfulltrúa

í fræðsluráði Dalvíkurbyggðar. Eitt erindið er frá fjármála- og stjórnsýslustjóra Dalvíkurbyggðar,

dags. 10. september 2004, en hin tvö frá skólastjóra Húsabakkaskóla í Dalvíkurbyggð, dags. 23.

og 24. september 2004.

Ráðuneytið flokkar efni erindanna svo að þau snúist um:

rétt áheyrnarfulltrúa til setu í fræðsluráði,

réttindi og skyldur áheyrnarfulltrúa sem sitja í fræðsluráði,

heimild fræðsluráðs til að halda óformlega vinnufundi og/eða til að skipa starfshóp úr hópi

nefndarmanna, og

trúnaðarmál og þagnarskyldu.

Ráðuneytið mun taka erindin þrjú til athugunar og veita álit á þeim á grundvelli 102. gr.

sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

Álit ráðuneytisins er svohljóðandi:

Samkvæmt 62. gr. samþykktar um stjórn Dalvíkurbyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar fer

fræðsluráð með verkefni leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla og framhaldsskóla samkvæmt

lögum og reglugerðum þar um ásamt öðrum þeim verkefnum sem ráðinu er falin með

erindisbréfi. Í erindisbréfinu kemur að fram að fræðsluráð er bæjarstjórn til ráðgjafar í

fræðslumálum og að helstu verkefni ráðsins eru að gera tillögur til bæjarstjórnar um markmið í

fræðslumálum, hafa eftirlit með því að markmiðin nái fram að ganga og gera tillögur um

úrbætur, jafnframt því að starfa með skóla- og menningarfulltrúa að málum er undir hann og

ráðið heyra.

1. Um rétt áheyrnarfulltrúa til setu í fræðsluráði

Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995, eiga áheyrnarfulltrúar, þ.e. fulltrúar

kennara, skólastjóra og foreldra, lögbundinn rétt til setu í skólanefnd grunnskóla. Í lögum um

grunnskóla eða IV. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, er ekki að finna ákvæði sem takmarka

rétt þessara fulltrúa til að sitja fundina. Ráðuneytið telur því ljóst að meginreglan sé sú að

áheyrnarfulltrúar eiga rétt til setu í fræðsluráði. Álitaefni og takmarkatilvik sem upp kunna að

koma í þessu efni ber að túlka með hliðsjón af meginreglunni sem þýðir að undantekningu beri

að skýra þröngt. Fræðsluráði eru þannig settar verulegar skorður við því að útiloka

áheyrnarfulltrúa frá setu á fundum fræðsluráðs. Það geti einungis átt við um þau tilvik þegar

umfjöllunarefni fundarins er augljóslega utan þeirra málefna sem áheyrnarfulltrúinn stendur

fyrir.

Fundur fræðsluráðs er ályktunarhæfur ef helmingur nefndarmanna, eða varamenn þeirra, mætir á

fund, sbr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga. Réttur áheyrnarfulltrúa til setu á fundum hefur engin áhrif á

það hvenær nefndarfundur er ályktunarhæfur samkvæmt sveitarstjórnarlögum, en það getur hins

vegar verið aðfinnsluvert ef áheyrnarfulltrúi er ekki boðaður til fundar.

2. Um réttindi og skyldur áheyrnarfulltrúa á fundum fræðsluráðs

 

Réttur áheyrnarfulltrúa á fundum fræðsluráðs ræðst af því markmiði sem stefnt er að með setu

þeirra í fræðsluráði skv. 4. mgr. 13. gr. grunnskólalaga. Fyrir liggur að þeir eiga lögbundinn rétt á

að vera viðstaddir umræður er varða þau málefni og þær stofnanir sem þeir eru fulltrúar fyrir. Í

erindum sem eru tilefni þessa álits er framtíðarskipulag grunnskóla nefnt til sögunnar í þessu

sambandi. Ráðuneytið telur ljóst að fulltrúar skólastjóra og kennara grunnskóla eigi rétt á að vera

viðstaddir umræðu um það efni, þ.e. að minnsta kosti einn fulltrúi frá hvorum fyrir sig, sbr. 4.

mgr. 13. gr. grunnskólalaga.

Ráðuneytið bendir á að það getur verið heppilegt að málefni þau sem snúa að áheyrnarfulltrúum

séu tekin fyrir í upphafi fundar og áheyrnarfulltrúi víki síðan af fundi þegar tekið er til við

málefni sem ekki snerta setu hans á fundinum. Þetta þýðir ekki að áheyrnarfulltrúi eigi rétt á að

fundargerð sé lesin upp þegar hann víkur af fundi, enda er meginregla fundarskapa sú að

fundargerð er lesin upp í lok fundar, sbr. einnig 2. mgr. 35. gr. samþykktar um stjórn

Dalvíkurbyggðar. Áheyrnarfulltrúi getur hins vegar óskað eftir að fá tiltekna afstöðu bókaða og

skal þá sú bókun samþykkt af honum. Getur áheyrnarfulltrúinn síðan komið að athugasemdum

við fundargerð á næsta fundi fræðsluráðs ef tilefni er til.

Þegar fjallað er um trúnaðarmál í fræðsluráði eiga áheyrnarfulltrúar rétt á að sitja fundi ráðsins

með sama hætti og ella, enda eru þeir bundnir þagnarskyldu, sjá nánar undir lið 4.

3. Um vinnufund fræðsluráðs eða skipun starfshóps milli funda fræðsluráðs

 

Það er skýr meginregla samkvæmt sveitarstjórnarlögum að starfsemi lögbundinna nefnda

sveitarfélagsins á að fara fram á formlegum fundum. Hvorki í sveitarstjórnarlögum né í

samþykkt Dalvíkurbyggðar er að finna ákvæði um heimild nefndar til að halda vinnufundi eða

skipa starfshóp úr hópi nefndarmanna.

Telji formaður fræðsluráðs að nauðsynlegt sé að vinna á óformlegum fundum að undirbúningi

mála milli funda verður að vera hafið yfir allan vafa að með því sé ekki verið að sniðganga

fræðsluráð eða forðast að áheyrnarfulltrúar fylgist með umræðu. Fullskipað fræðsluráð getur ekki

haldið lokaða vinnufundi án áheyrnarfulltrúa til að vinna að tilteknu málefni sem fellur undir

verksvið nefndarinnar. Ráðuneytið bendir á hinn bóginn á að fræðsluráð getur falið

nefndarmönnum afmarkað verkefni milli funda sem síðan verði lagt fyrir formlegan fund.

4. Um trúnaðarmál og þagnarskyldu

 

Í 32. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórnarmenn skuli gæta þagnarskyldu um það sem

þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls vegna

hagsmuna einstaklinga eða almannahagsmuna. Fulltrúar í nefndum sveitarfélaga bera sömu

þagnarskyldu og sveitarstjórnarmenn. Rétt er að leggja áherslu á að áheyrnarfulltrúar skulu með

sama hætti og kjörnir fulltrúar í nefndinni gæta þagnarskyldu um það sem leynt á að fara

samkvæmt lögum og eðli máls á grundvelli 32. gr., sbr. 2. mgr. 47. gr. sveitarstjórnarlaga.

Lagaákvæði um þagnarskyldu sem snúa að einkahagsmunum, eru til dæmis í lögum um

persónuvernd, barnaverndarlögum og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þagnarskyldu

vegna almannahagsmuna þarf að meta í hverju tilviki. Dæmi um það gæti verið ef verið er að

vinna að undirbúningi að skipulagsbreytingu sem er skammt komin á veg komin. Þá gæti

viðkomandi stjórnvald ákveðið að málefni sé á slíku byrjunarstigi að þeir sem að því vinna séu

bundnir þagnarskyldu. Ákveði formaður fræðsluráðs til dæmis að umræða um framtíðarskipulag

grunnskólamálefna í sveitarfélaginu skuli bundin trúnaði þar til annað er ákveðið breytir sú

ákvörðun engu um rétt áheyrnarfulltrúa til setu í nefndum fræðsluráðs, enda eru áheyrnarfulltrúar

bundnir sömu þagnarskyldu og kjörnir fulltrúar eins og áður var getið um. Um rétt

áheyrnarfulltrúa til setu á fundum skólanefndar þar sem fjallað er um trúnaðarmál vísast til álits

félagsmálaráðuneytis frá 5. maí 1999.

Niðurstaða ráðuneytisins

 

Samkvæmt grunnskólalögum eiga tilteknir áheyrnarfulltrúar rétt til setu í fræðsluráði. Sá réttur er

ekki takmarkaður með lögum. Fræðsluráði Dalvíkurbyggðar er óheimilt að setja setu

áheyrnarfulltrúa í fræðsluráði skorður nema í þröngum undantekningartilvikum ef bersýnilegt er

talið að umræðuefnið sé utan þess málefnis sem áheyrnarfulltrúi á rétt á að fylgjast með. Þetta

þýðir til dæmis að fulltrúi skólastjóra grunnskóla á ávallt rétt til setu í fræðsluráði þegar verið er

að ræða málefni grunnskóla, hvort sem það er á þröngum eða víðum grundvelli.

Framtíðarskipulag grunnskólamálefna er dæmigert umræðuefni þar sem áheyrnarfulltrúar á

vegum grunnskóla eiga skýlausan rétt til að fylgjast með umræðu. Komi upp takmarkatilvik og

vafaatriði um það hvort málefni heyri undir verkefni tiltekinna áheyrnarfulltrúa ber að skýra

þann vafa áheyrnarfulltrúa í hag.

Hvorki í sveitarstjórnarlögum né í samþykkt Dalvíkurbyggðar er að finna heimild fyrir nefnd til

að halda óformlega vinnufundi. Ráðuneytið telur að fullskipuðu fræðsluráði Dalvíkur sé óheimilt

að halda óformlega vinnufundi án áheyrnarfulltrúa til að vinna að tilteknu málefni. Á hinn

bóginn getur fræðsluráði verið heimilt að fela nefndarmönnum að vinna tiltekin verkefni milli

funda og leggja síðan tillögur sínar fyrir formlegan fund.

Umfjöllun um málefni sem fræðsluráð Dalvíkurbyggðar telur vera trúnaðarmál hefur ekki áhrif á

rétt lögbundinna áheyrnarfulltrúa til setu í fræðsluráði, enda eru áheyrnarfulltrúar bundnir sama

trúnaði og kjörnir fulltrúar.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

Samrit:

Ingileif Ástvaldsdóttir,

skólastjóri Húsabakkaskóla

 

6. október 2004 - Dalvíkurbyggð - Réttindi og skyldur áheyrnarfulltrúa í fræðsluráði, óformlegir vinnufundir nefnda (PDF)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum