Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2002 Dómsmálaráðuneytið

Svar við fyrirspurn um löggæslukostnað

Ráðuneytinu barst fyrir stuttu fyrirspurn varðandi aukna löggæslu á útihátíðum og beiðni um samanburð á löggæslukostnaði í tengslum við svokallaða menningarnótt í Reykjavík og Kántrýhátíð á Skagaströnd

Svar við fyrirspurn varðandi aukna löggæslu á útihátíðum


Ráðuneytinu barst fyrir stuttu fyrirspurn varðandi aukna löggæslu á útihátíðum og beiðni um samanburð á löggæslukostnaði í tengslum við svokallaða menningarnótt í Reykjavík og Kántrýhátíð á Skagaströnd. Hér á eftir fer svar ráðuneytisins við fyrirspurninni.
--------------------


Reykjavík, 21. ágúst 2002
    Sæmundur Gunnarsson
    Hólabraut 27
    545 SKAGASTRÖND



    Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. ágúst sl., þar sem þér óskið eftir upplýsingum vegna aukinnar löggæslu á útihátíðum. Óskið þér sérstaklega eftir samanburði á löggæslukostnaði í tengslum við svokallaða menningarnótt í Reykjavík og Kántrýhátíð á Skagaströnd.

    Samkvæmt heimild í 34. gr. lögreglulaga geta lögreglustjórar bundið skemmtanaleyfi því skilyrði að skemmtanahaldari greiði kostnað af þeirri umfram löggæslu sem þörf er á í tengslum við skemmtun. Þessi heimild er eðlilega bundin því að skemmtun kalli á leyfisveitingu lögreglustjóra. Viðburður eins og menningarnótt í Reykjavík kallar ekki á útgáfu sérstaks skemmtanaleyfis og því er ekki lagaforsenda til þess að krefja "skemmtanahaldara" um greiðslu kostnaðar við aukna löggæslu, ef því er að skipta. Þá er einnig rétt að taka fram að Reykjavíkurborg óskaði ekki eftir aukinni löggæslu af þessu tilefni. Ef slík ósk hefði verið lögð fram er viðbúið að Reykjavíkurborg hefði greitt fyrir þann auka kostnað sem því hefði fylgt.

    Sama er upp á teningnum í tengslum við ýmsar aðrar hátíðir sem haldnar eru í bæjarfélögum hringinn í kringum landið. Í þeim tilvikum sem slíkar hátíðir kalla ekki á útgáfu skemmtanaleyfis skortir lagaforsendur til að óska eftir því að skemmtanahaldari greiði aukinn löggæslukostnað. Einstakir viðburðir á slíkum hátíðum, eins og til dæmis dansleikir, kalla á útgáfu skemmtanaleyfis og hægt er að binda slík leyfi skilyrði um greiðslu kostnaðar vegna aukinnar löggæslu og er það gert í mörgum tilvikum.

    Ljóst er að umfang Kántrýhátíðar á Skagaströnd er slíkt að kallar á útgáfu sérstakts leyfis sýslumanns, enda um að ræða margra daga hátíð með skipulagðri dagskrá sem fram fer víðs vegar um bæinn, auk þess sem selt er inn á hátíðarsvæðið. Sama á við um útihátíðir sem haldnar eru í Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Siglufirði og víðar á landinu. Eins og áður er rakið er lögreglustjóra heimilt að binda slíkt leyfi því skilyrði að skemmtanahaldari greiði aukinn löggæslukostnað. Slíkur kostnaður er innheimtur hjá öllum lögregluembættum, þar á meðal hjá lögreglunni í Reykjavík, ef viðburðurinn kallar á aukna löggæslu. Hægt er að nefna ýmis dæmi í því sambandi eins og til dæmis útitónleika, Landsmót hestamanna og hátíðina Reykjavík Music Festival, en í öllum þessum tilvikum gerði lögreglan í Reykjavík viðkomandi skemmtanahaldara að greiða aukinn löggæslukostnað. Skemmtanahaldarar í Reykjavík sitja því við sama borð og skemmtanahaldarar annars staðar á landinu hvað greiðslu löggæslukostnaðar varðar.

    Það verður einnig að hafa í huga í þessu sambandi að lögreglan í Reykjavík er mun fjölmennari en önnur lögreglulið á landinu. Hún hefur því betri tækifæri en önnur lögreglulið til að takast á við stóra viðburði án þess að það kalli á aukinn kostnað. Lögreglan á Blönduósi er fámenn og engan veginn í stakk búin til að takast á við útihátíð af þeirri stærðargráðu sem haldin hefur verið á Skagaströnd um verslunarmannahelgi undanfarin ár, án utanaðkomandi aðstoðar og með tilheyrandi auka kostnaði. Dómsmálaráðuneytið hefur komið til móts við fámenn lögreglulið á landinu í slíkum tilvikum með úthlutun úr sérstökum sjóði, sem kynntur var til sögunnar árið 1999. Fyrstu tvö árin dugði þessi sjóður til að standa undir löggæslukostnaði á stærri útihátíðum, en gerir það ekki lengur og því er ráðuneytinu nauðugur sá kostur að leggja fyrir lögreglustjóra að innheimta hluta af þessum kostnaði hjá þeim sem standa fyrir skemmtun af þessu tagi samkvæmt heimild í lögreglulögum. Kostnaður skemmtanahaldara á Skagaströnd vegna Kántrýhátíðar nemur 1,3 milljónum króna af 3,3 m.kr. heildarkostnaði við aukna löggæslu. Það sem eftir stendur verður greitt úr sjóði ráðuneytisins og af sýslumannsembættinu á Blönduósi.

    Það er von ráðuneytisins að framangreint svari spurningu yðar.

    F. h. r.





    Stefán Eiríksson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum