Hoppa yfir valmynd
8. maí 2008 Innviðaráðuneytið

Fjölsóttur borgarfundur um Sundabraut

Fjölmenni var á fundi um Sundabraut sem samgönguráðherra efndi til í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærkvöld. Á fundinum flutti Kristján L. Möller samgönguráðherra ávarp og fulltrúar Vegagerðarinnar gerðu grein fyrir undirbúningi og leiðvali við lagningu Sundabrautar í göngum eða á brú.

Sundabrautarfundur
Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti ávarp á fundi um Sundabraut. Róbert Marshall aðstoðarmaður hans var fundarstjóri.

Kristján K. Möller samgönguráðherra flutti ávarp í upphafi fundar og síðan greindu þeir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, frá undirbúningi og helstu atriðum við þær tvær leiðir Sundabrautar sem einkum hafa verið til skoðunar. Þá fluttu borgarfulltrúarnir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Dagur B. Eggertsson ávörp og í lok fundar voru umræður og fyrirspurnir.

Nýtt hlið að höfuðborginni

Kristján L. Möller sagði Sundabraut verða nýtt hlið að höfuðborg landsins, hún væri mikilvæg framkvæmd og þyrfti að komast sem fyrst í gagnið. Hann sagði hana verða dýrustu einstöku framkvæmd í samgöngum í sögu landsins, kostnaðurinn hlypi á bilinu 30 til 40 milljarðar króna eftir því hvaða leið yrði valin og að teknu tilliti til nýjustu þróunar í efnahagsmálum.

Samgönguráðherra sagði verkið umfangsmikið og enn væri verið að safna gögnum og beðið væri eftir umhverfismati fyrir Sundagöng. ,,Við eigum að vera leitandi, við eigum að kalla allar leiðir með opnum hug; hlýða á rök og mótrök, horfa til framtíðarþróunar og meta um leið hvar við viljum að Sundabraut verði,“ sagði ráðherra meðal annars. Hann sagði brýnt að sem mest sátt næðist um verkið.

Hreinn Haraldsson sagði Sundabraut hafa verið lengi á teikniborðinu og ýmsar lausnir skoðaðar. Vegagerðin og Reykjavíkurborg hefðu átt góða samvinnu við undirbúning og hann tók undir þau orð ráðherra að brýnt væri að sátt næðist um niðurstöðuna. Sundabraut væri mikilvæg tenging höfuðborgarsvæðisins við Vestur- og Norðurland og ein megin forsenda þess að hægt verði að þróa byggð í Reykjavík til norðurs með ströndinni. Þá sagði vegamálastjóri ennfremur:

Myndin hugsanlega önnur

,,Eins og fram kemur hjá Jónasi Snæbjörnssyni hér á eftir er áætlaður kostnaðarmunur á ytri og innri leið um 9 milljarðar. Vegagerðin hefur mælt með ódýrari kostinum, innri leið, einfaldlega vegna þess að við höfum ekki getað séð þá kosti við jarðgöngin sem gætu réttlætt þennan kostnaðarmun. Hins vegar vil ég minna á, að tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum sem nú er unnið að, er ekki síst að draga fram og bera saman kosti og galla einnar lausnar miðað við aðra, þannig að ef til vill verður myndin önnur eftir að þessari vinnu lýkur. Því það er ekki þannig að Vegagerðin horfi eingöngu á kostnað eða hagkvæmni þegar hún leggur fram sínar tillögur, heldur er ekki síður horft til öryggis vegfarenda og umhverfisáhrifa.“

Fram kom í máli Jónasar Snæbjörnssonar að kostnaður við Sundabraut í göngum allt milli Laugarnestanga og Kollafjarðar væri á bilinu 32 til 35 milljarðar króna en kostnaður við leið III væri á bilinu 23 til 26 milljarðar. Meðal kosta við jarðgangaleið sagði Jónas vera minni umhverfisáhrif í heild, minna land færi undir umferðarmannvirki og hún væri í samræmi við væntanlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur. Kosti við innri leið umfram göngin sagði hann meðal annars vera minni stofnkostnað og lægri rekstrarkostnað, minni heildarakstur í gatnakerfinu og auðveldari áfangaskiptingu framkvæmdar.

Að loknum erindum fulltrúa Vegagerðarinnar ræddu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður borgarráðs, og Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sjónarmið sín og minnti þeir á þá einróma samþykkt borgarstjórnar að Sundagöng væri æskilegri en eyjaleiðin.


       
 Sundabrautarfundur      
Vel á annað hundrað manns sótti fund samgönguráðherra um málefni Sundabrautar í gærkvöld.      
       

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum