Hoppa yfir valmynd
17. júlí 1996 Innviðaráðuneytið

Kópavogskaupstaður - Réttindi varamanna í bæjarstjórn

Þorbjörg Daníelsdóttir                                                                               17. júlí 1996                                            96070035

Víghólastíg 21                                                                                                                                                                      1001

200 Kópavogur

 

 

 

 

           Vísað er til erindis yðar, dagsett 9. júlí 1996, og símtals við ráðuneytið þar sem óskað er eftir áliti félagsmálaráðuneytisins varðandi stöðu yðar sem varamanns í bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar.

 

           Samkvæmt símtalinu eruð þér varamaður Helgu Sigurjónsdóttur, bæjarfulltrúi í Kópavogskaupstað, sem kjörin var í sveitarstjórnarkosningum 28. maí 1994 af V-lista, Samtaka um Kvennalista. Hún hefur nú sagt sig úr samtökunum en situr áfram í bæjarstjórn. Rétt er að rekja hér nokkuð þau ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 sem málið varða.

 

           Kosning í bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar hinn 28. maí 1994 var bundin hlutfallskosning samkvæmt ákvæðum 14.-17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Í a-lið 14. gr. segir að bundin hlutfallskosning sé kosning bundin við framboð á listum og fulltrúar á hverjum lista nái kjöri í hlutfalli við það atkvæðamagn sem listinn fær. Nánari ákvæði eru í 16. og 17. gr. um talningu atkvæða við bundnar hlutfallskosningar svo og um hvernig eigi að finna hve margir frambjóðendur hafa náð kosningu af hverjum lista.

 

           Varamenn taka sæti í bæjarstjórn Kópavogskaupstaðar samkvæmt ákvæðum 35. gr. sveitarstjórnarlaga og 25. og 38. gr. samþykktar um stjórn Kópavogskaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 262/1990.

 

           Um almennar skyldur og réttindi sveitarstjórnarmanna er fjallað í IV. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og gilda þau ákvæði um varamenn í sveitarstjórnum sem sitja fundi sveitarstjórnar.

 

           Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga taka varamenn sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalfulltrúar þess lista sem þeir eru kosnir af falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt frá því að sitja í sveitarstjórn.

 

           Þegar aðalmaður í sveitarstjórn forfallast um stundarsakir á hann rétt á að tilnefna þann af varamönnum sínum sem taka skal sæti hans á meðan, sbr. 4. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

           Að mati ráðuneytisins leiða ákvæði III. kafla sveitarstjórnarlaga, sem fjallar um kosningar til sveitarstjórnar, til þess að varamenn í sveitarstjórn eru í raun allir þeir einstaklingar á framboðslista, sem ekki náðu kjöri sem aðalmenn.

 

           Með hliðsjón af því og 4. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga er aðalmanni í bæjarstjórn heimilt að kalla til sem varamann hvern þann af framboðslista sínum, sem hann óskar, þegar hann forfallast um stundarsakir. Ef um varanleg forföll er að ræða, t.d. ef aðalmaðurinn óskar eftir lausn frá störfum í sveitarstjórn, tekur 1. varamaður sæti hans, sbr. 1. mgr. 35. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

           Um þá stöðu þegar bæjarfulltrúi segir sig úr viðkomandi stjórnmálasamtökum skal eftirfarandi tekið fram:

 

           Við bundnar hlutfallskosningar greiða kjósendur tilteknum framboðslistum atkvæði sitt en ekki einstaklingum eins og þegar um óbundnar kosningar er að ræða. Kjörstjórn gefur út kjörbréf til aðalmanna og varamanna þeirra, sbr. 1. mgr. 34. gr. sveitarstjórnarlaga, þ.e. til þeirra einstaklinga sem ná kjöri af viðkomandi framboðslistum.

 

           Þeim sem samþykkja að nafn þeirra sé sett á framboðslista er skylt að taka kjöri í sveitarstjórn, sbr. ákvæði 3. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga. Þeim ber því að sinna störfum sínum sem sveitarstjórnarmenn viðkomandi kjörtímabil nema annars vegar að þeir missi kjörgengi, sbr. 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga, eða hins vegar að þeir óski eftir lausn frá störfum, sbr. 3. mgr. 43. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

           Varamenn í sveitarstjórn eru eins og áður segir þeir einstaklingar á framboðslista sem ekki náðu kjöri sem aðalmenn. Ef aðalmaður í sveitarstjórn segir sig úr þeim samtökum, sem stóðu að viðkomandi framboðslista, glatar hann ekki kjörgengi og er því skylt að sinna áfram störfum sínum í sveitarstjórninni, nema hann biðjist lausnar. Varamenn hans í slíku tilviki eru áfram af viðkomandi framboðslista. Þó svo að viðkomandi sveitarstjórnarmaður gangi til liðs við önnur stjórnmálasamtök breytast reglur um varamenn ekki, t.d. verða fulltrúar hinna nýju stjórnmálasamtaka ekki varamenn hans, þar sem þeir voru ekki kjörnir til þess af íbúum viðkomandi sveitarfélags.

 

           Ráðuneytið telur að af framangreindu leiði að bæjarfulltrúi og varamaður hans geta farið fram á að við ritun fundargerðar bæjarstjórnarfundar verði skoðanir þeirra bókaðar sem skoðanir einstaklinganna, en ekki skoðanir hinna upphaflegu stjórnmálasamtaka sem þeir tengdust við kosningar.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum