Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 1998 Innviðaráðuneytið

Egilsstaðabær - Trúnaðarskylda sveitarstjórnarmanna

Heimir Sveinsson 6. febrúar 1998 97110016

Brávöllum 16 1001

700 Egilsstaðir

Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 31. október 1997, varðandi annars vegar “trúnaðarhæfni“ tiltekinna skjala og hins vegar varðandi bókun formanns bæjarráðs á fundi þann 30. september 1997.

Í erindi yðar kemur fram að fjallað var um umrædd gögn varðandi Hótel Valaskjálf hf. á fundi bæjarstjórnar þann 3. júní 1997.

Í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að almennur kærufrestur í stjórnsýslunni er þrír mánuðir. Erindi yðar með beiðni um álit ráðuneytisins á “trúnaðarhæfni“ tiltekinna skjala barst ráðuneytinu að liðnum þeim fresti, því þau voru til umræðu á fundi tæpum fimm mánuðum fyrr. Er því þeim lið erindis yðar vísað frá ráðuneytinu, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrrgreind bókun formanns bæjarráðs á fundi þann 30. september 1997 hljóðar svo: “Í ljósi trúnaðarbrota Heimis Sveinssonar treystir formaður bæjarráðs sér ekki til að taka fyrir liðinn trúnaðarmál á þeim fundum sem Heimir situr.“ Var umfjöllun um málið síðan frestað. Á fundi bæjarráðs þann 14. október 1997 var á ný á dagskrá liðurinn trúnaðarmál og var þeim lið frestað “af sömu ástæðu og síðast“. Síðan segir svo í fundargerðinni: “Broddi vildi að fram kæmi að sér þætti þessi afgreiðsla bera keim af einkastríði milli þeirra Einars og Heimis.“

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 ber sveitarstjórnarmanni skylda til að sækja alla sveitarstjórnarfundi og fundi í nefndum á vegum sveitarstjórnar, sem þeir eru kjörnir í, nema lögmæt forföll hamli. Samkvæmt 41. gr. sömu laga hefur sveitarstjórnarmaður málfrelsi á fundum sveitarstjórna og nefnda, sem hann er kjörinn í, og einnig tillögurétt, atkvæðisrétt og rétt til að taka þátt í umræðum. Í ákvæðinu segir ennfremur að sveitarstjórnarmaður hafi aðgang að bókum og skjölum sveitarfélagsins og óhindraðan aðgang að stofnunum þess og starfsemi. Í 42. gr. laganna er síðan kveðið á um að sveitarstjórnarmenn skuli gæta þagnarskyldu um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum, eðli máls eða samkvæmt sérstakri ákvörðun sem samþykkt er með a.m.k. 2/3 hlutum atkvæða í sveitarstjórn eða nefnd.

Af framangreindum ákvæðum er ljóst hver þau almennu réttindi og skyldur sveitarstjórnarmanna eru, sem fyrst og fremst eiga við í þessu tilviki.

Samkvæmt 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga hefur félagsmálaráðuneytið úrskurðarvald um hvort ákvæði laganna hafa verið brotin, en það skerðir þó ekki rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum.

Félagsmálaráðuneytinu hefur ekki borist erindi frá formanni bæjarráðs Egilsstaðabæjar eða öðrum með beiðni um að ráðuneytið úrskurði um hvort þér hafið gerst brotlegur við ákvæði sveitarstjórnarlaga um þagnarskyldu o.fl. Ráðuneytinu er heldur ekki kunnugt um að dómur hafi fallið um það atriði. Virðist því sem tillaga formanns bæjarráðs hafi verið byggð á hans eigin mati á málsatvikum.

Í ljósi þess að engin formleg staðfesting liggur fyrir um hvort þér hafið brotið framangreind ákvæði sveitarstjórnarlaga svo og fyrrgreindra réttinda yðar og skyldna sem sveitarstjórnarmanns telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á nægjanleg haldbær rök fyrir því að bæjarráð Egilsstaðabæjar samþykkti áðurgreinda tillögu formanns bæjarráðsins, en með henni voruð þér að hluta sviptir þeim lögbundnu réttindum sveitarstjórnarmanns sem áður er um getið. Að auki má nefna að ekki hefur verið sýnt fram á að bæjarstjórn hafi áminnt yður vegna meintra trúnaðarbrota.

Dregist hefur að svara erindi yðar vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum