Hoppa yfir valmynd
26. maí 2008 Innviðaráðuneytið

Samgönguráðherra blæs til nýrrar sóknar í umferðaröryggi

Fagnað var í dag 40 ára afmæli hægri umferðar hérlendis. Umferðarráð bauð til athafnar við Skúlagötu í Reykjavík þar sem minnst var umferðarbreytingarinnar á táknrænan hátt og á hátíðarsamkomu í Þjóðmenningarhúsinu í framhaldi af því voru flutt ávörp og gullmerki Umferðarráðs afhent.

IMG_9913
Fagnað var 40 ára afmæli H-dagsins í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti ávarp við þetta tækifæri og sagði hann það hafa verið djarfa ákvörðun og jafnframt rökrétta að taka upp hægri handar akstur árið 1968. Hann sagði stærstan hóp vegfarenda fara að lögum og reglum en innan um væru þó alltaf svartir sauðir. Hann kynnti sýn sína í umferðaröryggismálum sem hann sagði meðal annars snúast um að endurskoða verkefni umferðaröryggisáætlunar, að aðskilja akstursstefnur á Hringveginum, átak í breikkun vega og að huga enn betur að umhverfi þeirra og að sinna eflingu umferðarfræðslu í skólum.

Í lok ræðu sinnar þakkaði ráðherra Kjartani Magnússyni, fráfarandi formanni Umferðarráðs, sem stýrði afmælisathöfninni, fyrir störf hans og tilkynnti að hann hygðist skipa sr. Karl V. Matthíasson alþingismann formann ráðsins frá næstu mánaðamótum.

Samgönguráðherra afhenti jafnframt gullmerki Umferðarráðs en að þessu sinni voru tvær konur sæmdar merkinu, þær Margrét Hrefna Sæmundsdóttir og Guðný María Finnsdóttir sem um árabil sáu um umferðarskólann Ungir vegfarendur og umferðarfræðslu leik- og grunnskólabarna.

Auk samgönguráðherra fluttu ávörp þeir Geir H. Haarde forsætisráðherra og Valgarð Briem, formaður hægri nefndarinnar sem stýrði framkvæmd breytingarinnar.

Ræðu samgönguráðherra má sjá hér.


Sjá nýja vefsíðu Umferðarráðs hér.

Fagnað 40 ára afmæli H dagsins
Allmargir gestir voru viðstaddir athöfnina, meðal annars þeir sem áttu þátt í sjálfri framkvæmdinni og núverandi og fyrrverandi ráðherrar.

Fagnað 40 ára afmæli H dagsins
Guðný María Finnsdóttir (sitjandi) og Margrét Hrefna Sæmundsdóttir voru sæmdar gullmerki Umferðarráðs fyrir áratuga störf sín að uppfræðslu ungu kynslóðarinnar í umferðarmálum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum