Hoppa yfir valmynd
10. október 2001 Innviðaráðuneytið

Sveitarfélagið X - Krafa um að ráðuneytið rannsaki ummæli oddvita og formanns skólanefndar

A g. sveitarfélaginu X                10. október 2001                     FEL01080012/1001

 

 

 

Vísað er til erindis yðar, dags. 24. júlí 2001, sem barst ráðuneytinu þann 9. ágúst sl. þar sem kvartað er yfir störfum oddvita hreppsnefndar sveitarfélagsins X, B, og formanns skólanefndar hreppsins, C, en hann situr einnig í hreppsnefnd. Kvörtunin lýtur að eftirgreindum atriðum:

 

a.   Að oddvitinn hafi sagt opinskátt frá því að A nyti fjárhagsaðstoðar frá hreppnum að fjárhæð 31.076 kr. á mánuði. Þeirri aðstoð þurfi hann á að halda þar sem hann hafi verið sniðgenginn með atvinnu til framfæris af hrepps- og skólayfirvöldum.

 

b.   Að oddvitinn hafi breitt út þá sögu í hreppnum að ástæðan fyrir lokun grunnskólans þar hafi verið sú að 13 ára dóttir A væri svo leiðinleg og illa liðin af skólafélögum sínum að það hefði orðið þeim óbærilegt ef A – en hann hafði sótt um kennarastöðu áður en skólanum var lokað – hefði verið ráðinn kennari við skólann. Því hefði ekki annað verið hægt en að loka skólanum. A getur þess að dóttirin hafi verið lögð í einelti í skólanum í sex ár án þess að skólinn viðurkenndi það. Barnaverndaryfirvöld neiti að taka á málinu.

 

c.   Að þegar A og kona hans hafi spurt fulltrúa í hreppsnefnd hvort ástæðan fyrir lokun skólans hafi verið sú sem að framan greinir hafi oddvitinn ekki svarað en formaður skólanefndar sagt: „Spurðu Útfellinga.“

 

Er þess krafist að oddvitanum verði þegar vikið úr starfi oddvita. Þess er og krafist að ummæli formanns skólanefndar verði rannsökuð og honum verði vikið úr hreppsnefnd og skólanefnd á meðan á rannsókninni stendur.

 

Ráðuneytið óskaði umsagnar frá oddvita hreppsnefndar og formanni skólanefndar með bréfum, dags. 13. ágúst 2001. Barst umsögn oddvita þann 29. ágúst sl. Er þar mótmælt þeim fullyrðingum, sem settar eru fram í erindi A, um að hann oddvitinn hafi gerst sekur um trúnaðarbrot eða að hreppsnefnd hafi sniðgengið A við ráðningar starfsfólks fyrir sveitarfélagið. Ekki hefur borist umsögn frá formanni skólanefndar.

 

1. Kröfur um að oddvita og formanni skólanefndar verði vikið úr trúnaðarstöðum

Sérstaka lagaheimild þarf svo fallast megi á þær kröfur að framangreindum mönnum verði vikið úr störfum sveitarstjórnarmanna og að öðrum þeirra verði vikið úr starfi formanns skólanefndar. Öll afskipti ríkisins af málefnum sveitarfélaga verða að byggjast á lögum enda njóta sveitarfélögin sjálfstæðis frá ríkisvaldinu, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. sjálfsstjórnar innan marka laga.

 

Sveitarstjórnarmenn eru kjörnir til sveitarstjórnarstarfa í lýðræðislegum kosningum af íbúum viðkomandi sveitarfélags og er kjörtímabil þeirra fjögur ár, sbr. ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, og 8. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Sitja þeir í sveitarstjórn til enda kjörtímabilsins nema þeim sé heimilt eða skylt samkvæmt lögum að víkja úr sveitarstjórninni áður en það er liðið. Í 34. gr. sveitarstjórnarlaga er ákvæði um lausn sveitarstjórnarmanna frá störfum og víkja þeir annað hvort sjálfir úr sæti eða eru leystir undan starfsskyldum sínum af sveitarstjórninni. Hins vegar hefur ráðuneytið enga lagaheimild til að leysa sveitarstjórnarmenn frá störfum.

 

Fulltrúar í nefndum á vegum sveitarfélaga eru kjörnir af sveitarstjórninni, sbr. 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga, og er meginreglan sú að kjörtímabil þeirra sé hið sama og sveitarstjórnarmanna. Í 4. mgr. 40. gr. er ákvæði um lausn nefndarmanna frá störfum. Hefur sveitarstjórn vald til að skipta um fulltrúa í nefndum og einnig geta nefndarmenn sagt af sér nefndarstörfum. Hvorki er hins vegar í 4. mgr. 40. gr. né í öðrum lagaákvæðum vikið að heimild ráðuneytisins til þess að leysa nefndarmenn frá störfum.

 

Af ofangreindu leiðir að ráðuneytið getur ekki leyst oddvita sveitarfélagsins X og formann skólanefndar hreppsins frá störfum.

 

2. Krafa um rannsókn á ummælum

Ráðuneytið getur ekki orðið við þeirri kröfu að rannsökuð verði áðurnefnd ummæli formanns skólanefndar: „Spurðu Útfellinga.“ Slík rannsókn, sem beinist eingöngu að ákveðnum ummælum, er ekki í verkahring ráðuneytisins.

 

Hin meintu ummæli tengjast öðru máli sem nú er til meðferðar í ráðuneytinu og snýr að lokun grunnskólans í R. Öll framganga sveitarstjórnarmanna og annarra stjórnvaldshafa í sveitarfélaginu getur skipt máli við mat á því hvort málefnalegra sjónarmiða hafi verið gætt og réttum stjórnsýslureglum fylgt við lokun skólans og geta þannig komið til skoðunar í því máli. Framangreind ummæli gætu þá komið til skoðunar en í sjálfstæða rannsókn á þeim sem slíkum verður ekki ráðist eins og fyrr segir.

 

3. Aðrar aðgerðir af hálfu ráðuneytisins

Taka verður afstöðu til þess hvort tilefni sé til annarra aðgerða af hálfu ráðuneytisins en þeirra sem kröfur A lúta að. Þær ásakanir sem hafðar eru uppi á hendur sveitarstjórnarmönnunum eru nokkuð alvarlegar og gætu því gefið tilefni til aðgerða. Í fyrsta lagi er oddviti hreppsnefndar sakaður um að hafa sagt opinskátt frá því að A njóti fjárhagsaðstoðar frá sveitarfélaginu en það er brot á 60. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í öðru lagi er oddvitinn sakaður um að breiða út þá sögu að ástæðan fyrir lokun grunnskólans í Skógum tengist persónu Aen telja verður að slík háttsemi brjóti gegn góðum stjórnsýsluháttum. Og í þriðja lagi er formaður skólanefndar sakaður um að hafa sagt: „Spurðu Útfellinga,“ þegar A spurði hvort þær ástæður, sem meintur söguburður á að hafa beinst að, hafi verið ástæðan fyrir lokun skólans. Óskýr ummæli á borð við þessi kunna að vera til þess fallin að vekja grunsemdir um að afstaða stjórnvalda byggist á ómálefnalegum sjónarmiðum.

 

Ber fyrst að líta til þess hvort unnt sé að kveða upp stjórnvaldsúrskurð samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Ekki verður gripið til þess úrræðis þar sem úrskurðarvaldi ráðuneytisins er einungis beitt í málum sem varða stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. ákvarðanir um rétt og skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Erindi A varðar ekki stjórnvaldsákvarðanir með beinum hætti heldur ummæli sveitarstjórnarmanna og tjáskipti við aðra.

 

Þá ber að líta til þess hvort heimild 102. gr. sveitarstjórnarlaga til að áminna sveitarstjórnarmenn verði beitt. Hefur það ákvæði verið túlkað svo að veita megi áminningu fyrir ítrekuð eða gróf brot eða brot sem sveitarstjórnarmenn hafa gerst sekir um af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

 

Svo þessari heimild verði beitt þarf að vera ótvírætt að sveitarstjórnarmaður hafi brotið svo gegn skyldum sínum að tilefni sé til þess. Í gögnum málsins er ekkert sem rennir stoðum undir að oddviti sveitarstjórnar og formaður skólanefndar hafi gerst sekir um þá háttsemi sem tilgreind er í erindi A. Verður valdi ráðuneytisins til að veita áminningu því ekki beitt.

 

Af þessu og öllu framangreindu leiðir að ekki er tilefni til neinna aðgerða af hálfu ráðuneytisins. Er því hafnað kröfum þeim sem settar eru fram í erindi yðar frá 24. júlí 2001 um að ráðuneytið hefji rannsókn á þeim meintu ummælum oddvita sveitarfélagsins X og formanns skólanefndar hreppsins sem rakin eru í erindi yðar eða að ráðuneytið víki umræddum sveitarstjórnarmönnum úr starfi.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum