Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2003 Innviðaráðuneytið

Vestmannaeyjabær - Gildi yfirlýsingar um breytta röð varamanna í forföllum aðalmanns í bæjarstjórn

Guðríður Ásta Halldórsdóttir, varabæjarfulltrúi           23. apríl 2003                      FEL03040005/1001

Túngötu 18

900 VESTMANNAEYJUM 

 

Hinn 23. apríl 2003 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

 

úrskurður:

 

Með erindi, dags. 2. apríl 2003, óskaði Guðríður Ásta Halldórsdóttir, varabæjarfulltrúi B-lista Framsóknarflokksins og óháðra í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar, eftir því að ráðuneytið úrskurðaði um hvort hún héldi sæti sínu sem varabæjarfulltrúi B-lista Framsóknarflokksins og óháðra í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar þrátt fyrir yfirlýsingu Andrésar Sigmundssonar bæjarfulltrúa B-lista á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 26. mars 2003. Umrædd yfirlýsing er svohljóðandi:

 

Í ljósi yfirlýsinga 2. manns á B-lista Framsóknarflokks og óháðra og með vísan til 22. gr. bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar og að B-listinn var borinn fram af tveimur flokkum í síðustu bæjarstjórnarkosningum, tilnefni ég Andrés Sigmundsson aðalmaður B-listans í bæjarstjórn Vm. Skæring Georgsson fyrrverandi formann Framsóknarfélags Vm. sem minn 1. varamann í bæjarstjórn Vm.

 

Þau gögn sem liggja frammi í málinu eru fundargerð bæjarstjórnar frá 26. mars 2003 og aðrar fundargerðir bæjarstjórnar og bæjarráðs frá marsmánuði 2003 þar sem m.a. er fjallað um slit á meirihlutasamstarfi D-lista Sjálfstæðisflokksins og B-lista Framsóknarflokksins og óháðra og myndun nýs meirihluta V-lista Vestmannaeyjalistans og B-lista Framsóknarflokksins og óháðra. Einnig hefur ráðuneytið kynnt sér umfjöllun fjölmiðla um sama mál. Þykir málið nægilega upplýst til þess að unnt sé að kveða upp í því úrskurð án frekari gagnaöflunar.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

Í yfirlýsingu sem Andrés Sigmundsson, bæjarfulltrúi B-lista Framsóknarflokksins og óháðra, lagði fram á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar sem haldinn var 26. mars 2003 er vitnað til 22. gr. bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar um heimild fyrir því fyrirkomulagi að tilnefna 12. mann B-lista Framsóknarflokks og óháðra sem fyrsta varamann eina bæjarfulltrúa B-lista í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar. 2. mgr. 22. gr. samþykktarinnar er að mestu samhljóða 1.–2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Verður að líta til forsögu gildandi sveitarstjórnarlaga varðandi skýringu umrædds ákvæðis samþykktarinnar, en tekið skal fram að ef samþykktir sveitarfélaga eru í ósamræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga hljóta ákvæði laganna ávallt að gilda. Í heild er 24. gr. sveitarstjórnarlaga svohljóðandi:

 

Varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalfulltrúar þess lista sem þeir eru kosnir af falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt eða um stundarsakir frá því að sitja í sveitarstjórn.

Nú er framboðslisti borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum og geta þá aðalmenn listans komið sér saman um mismunandi röð varamanna eftir því hver aðalmanna hefur forfallast. Yfirlýsing um slíkt samkomulag skal lögð fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar eftir kosningar.

Nú næst ekki samkomulag milli stjórnmálaflokka eða samtaka sem standa að sameiginlegum lista, og skulu þá þeir varamenn listans, sem eru úr sama stjórnmálaflokki eða samtökum og aðalmaður sá sem um er að ræða, taka sæti hans í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir voru kosnir án tillits til þess hvar þeir annars eru í röð varamanna. Sé enginn úr hópi varamanna slíks lista í sama stjórnmálaflokki eða samtökum og aðalfulltrúinn sem í hlut á var þegar kosning fór fram taka varamenn listans sæti samkvæmt venjulegum reglum.

Þegar aðalmaður flytur úr sveitarfélaginu um stundarsakir má ákveða að hann skuli víkja úr sveitarstjórn þar til hann tekur aftur búsetu í sveitarfélaginu. Tekur þá varamaður hans sæti samkvæmt framangreindum reglum.

 

Við setningu gildandi sveitarstjórnarlaga var fellt brott ákvæði í eldri sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, um að aðalmaður í sveitarstjórn sem forfallaðist um stundarsakir vegna veikinda eða af öðrum ástæðum gæti sjálfur valið þann varamann sem taka skyldi sæti í hans stað. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 45/1998 kemur eftirfarandi fram um þessa breytingu:

 

Lagt er til að fellt verði brott ákvæði 3. málsl. 4. mgr. 35. gr. gildandi laga um að ef aðalmaður forfallast um stundarsakir vegna veikinda eða af öðrum ástæðum geti hann valið sjálfur þann varamann sem taka skal sæti hans á meðan. Gert er því ráð fyrir að varamenn taki ætíð sæti eftir þeirri röð sem þeir eru kjörnir. Samsvarar sú regla ákvæði 130. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, sbr. 115. gr. sömu laga, um hvernig varamenn taka þingsæti. Verður því um að ræða eina skýra reglu um hvernig varamenn taka sæti í sveitarstjórn.

 

Í ljósi framangreinds er ljóst að skýra verður ákvæði 1. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga samkvæmt orðanna hljóðan, en samkvæmt ákvæðinu taka varamenn almennt sæti í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalmaður forfallast varanlega eða um stundarsakir.

 

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga geta aðalmenn lista ákveðið, í þeim tilvikum sem framboðslisti er borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum, að mismunandi röð varamanna gildi eftir því hver aðalmanna hefur forfallast. Yfirlýsing um slíkt samkomulag skal lögð fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar eftir kosningar. Til að þessi undantekning frá hinni almennu reglu um röð varamanna skv. 1. mgr. 24. gr. eigi við þurfa þrjú skilyrði að vera uppfyllt:

 

1. Framboðslisti þarf að hafa verið borinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum.

2. Framboðslisti þarf að hafa hlotið tvo eða fleiri aðalmenn kjörna í sveitarstjórn, sem eru fulltrúar tveggja eða fleiri stjórnmálaflokka eða samtaka er að listanum standa.

3. Yfirlýsing um samkomulag kjörinna aðalmanna þarf að leggja fram á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar eftir kosningar.

 

Upplýst er að Andrés Sigmundsson var eini fulltrúi B-lista Framsóknarflokksins og óháðra sem hlaut kosningu til setu í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar við almennar sveitarstjórnarkosningar hinn 25. maí 2002. Jafnframt liggur fyrir að yfirlýsing um frávik frá venjulegri röð varamanna var ekki lögð fram fyrr en á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 26. mars 2003 og er hún því of seint fram komin. Loks telur ráðuneytið upplýst að B-listi Framsóknarflokks og óháðra var ekki boðinn fram af tveimur eða fleiri stjórnmálaflokkum eða samtökum, þar sem þeir óháðu kjósendur sem stóðu að framboðinu höfðu ekki myndað með sér sérstök samtök eða stjórnmálaflokk, í skilningi 2. mgr. 24. gr. sveitarstjórnarlaga. Er það því mat ráðuneytisins að skilyrði hafi ekki verið fyrir hendi skv. 24. gr. sveitarstjórnarlaga til að leggja fram umrædda yfirlýsingu.

 

Í yfirlýsingu bæjarfulltrúa B-lista frá 26. mars 2003 er vísað til yfirlýsingar sem undirrituð var af „fulltrúum D-lista Sjálfstæðisflokks og fulltrúum B-lista Framsóknar og óháðra“ og birtist í fjölmiðlum í marsmánuði 2003. Fram hefur komið í fjölmiðlum að með þessu sé bæjarfulltrúinn að vísa til þess að kærandi og fleiri einstaklingar sem áttu sæti á framboðslista B-lista Framsóknarflokksins og óháðra við sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fóru 25. maí 2002 hafi opinberlega lýst yfir andstöðu sinni við nýjan meirihluta í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar og sé því kominn í ljós trúnaðarbrestur á milli aðal- og varabæjarfulltrúa B-lista. Málsgögn virðast staðfesta að þessi staða sé í reynd fyrir hendi. Eins og áður segir verður hins vegar að skýra þröngt heimildir sveitarstjórnarlaga til að víkja frá meginreglu 1. mgr. 24. gr. laganna um röð varamanna í þeim tilvikum þegar aðalmaður í sveitarstjórn forfallast. Hafa lögin ekki að geyma ákvæði er heimila aðalmanni að tilnefna varamann sinn í þeim tilvikum þegar ekki ríkir traust milli hans og 1. varamanns lista. Telur ráðuneytið ótvírætt að í þessum tilvikum verði röð frambjóðenda á framboðslista að ráða því hvaða varamaður tekur sæti í sveitarstjórn í forföllum aðalmanns.

 

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að yfirlýsing bæjarfulltrúa B-lista um breytta röð varamanna hans eigi sér ekki stoð í sveitarstjórnarlögum og sé því ógild. Guðríður Ásta Halldórsdóttir, sem skipaði annað sæti á B-lista Framsóknarflokksins og óháðra við sveitarstjórnarkosningarnar í Vestmannaeyjabæ hinn 25. maí 2002, er því fyrsti varamaður Andrésar Sigmundssonar bæjarfulltrúa B-lista í forföllum hans. Aðrir frambjóðendur á B-lista Framsóknarflokksins og óháðra eru varamenn í samræmi við það sæti er þeir skipuðu á framboðslistanum.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Yfirlýsing fulltrúa B-lista Framsóknarflokksins og óháðra í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar um breytta röð varamanna listans, sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar 26. mars 2003, er ógild.

 

 

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum