Hoppa yfir valmynd
23. júní 2003 Innviðaráðuneytið

Vestmannaeyjabær - endurgreiða gatnagerðargjald ef hús er fjarlægt af lóð

Vestmannaeyjabær 23. júní 2003 FEL03060022/122

Páll Einarsson, bæjarritari

Ráðhúsinu, pósthólf 60

902 VESTMANNAEYJAR

Vísað er til erindis yðar, dags. 5. júní 2003, þar sem óskað er álits ráðuneytisins varðandi túlkun á lögum um gatnagerðargjald, nr. 17/1996. Nánar tiltekið er óskað afstöðu ráðuneytisins til þeirrar spurningar hvort Vestmannaeyjabæ sé skylt að endurgreiða gatnagerðargjald að hluta eða öllu leyti ef hús er fjarlægt af lóð og einungis grunnur hússins stendur eftir á lóðinni.

Í 2. mgr. 1. gr. laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, kemur fram að endurgreiða ber gatnagerðargjald í þeim tilvikum þegar lóðarúthlutun er afturkölluð, lóð er skilað, byggingarleyfi afturkallað eða leyfið er ekki nýtt af lóðarhafa. Í skýringum í frumvarpi sem varð að lögum nr. 17/1996 er tekið fram að ákvæði þetta feli í sér tæmandi upptalningu á þeim tilvikum sem sveitarstjórn er skylt að endurgreiða gatnagerðargjald.

Af fyrirspurn yðar virðist mega ráða að ekkert þeirra tilvika sem talin eru upp í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 17/1996 eigi við í því tilviki sem fjallað er um í erindi yðar til ráðuneytisins, enda kemur þar fram að grunnur hússins muni áfram standa á lóðinni. Þá skal einnig bent á að skv. 10. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald, nr. 543/1996, er ekki skylt að endurgreiða gatnagerðargjald þótt byggingarleyfi sé veitt fyrir breytingu eða endurbyggingu húsnæðis sem felur í sér breytta nýtingu þess. Telur ráðuneytið því að Vestmannaeyjabæ sé ekki skylt að endurgreiða gatnagerðargjald af umræddri lóð þótt stálgrindarhús er á lóðinni stendur verði fjarlægt.

F. h. r.

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum