Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Úthlutað úr tónlistarsjóði

Tilkynnt hefur verið um úthlutanir úr tónlistarsjóði fyrir seinni hluta ársins 2018. Hlutverk sjóðsins er að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Að þessu sinni bárust 126 umsóknir til sjóðsins en samþykkt var að veita 53 verkefnum styrki að þessu sinni, heildarupphæð styrkjanna nemur 19,2 milljónum kr. Verkefnin eru af ýmsum toga og endurspegla fjölbreytta flóru íslensks tónlistarlífs. Hæstu styrkina, að upphæð einni milljón kr. hljóta Pera óperukollektíf vegna Óperudaga í Reykjavík og Tónlistarfélag Ísafjarðar vegna uppfærslu á barnaóperunni Kalli og sælgætisgerðin eftir Hjálmar H. Ragnarsson.

Níu tónlistarhátíðir og tónleikaraðir á landsbyggðinni hljóta styrk að þessu sinni: á Seyðisfirði (LungA og Bláa kirkjan), Akureyri (Tónlistarfélag Akureyrar og Sumartónleikar í Akureyrarkirkju), Kvoslæk, Ólafsfirði (Berjadagar), í Stykkishólmi (Listvinafélag Stykkishólmskirkju), Dalvíkurbyggð (Menningarfélagið Berg) og Karlsstöðum í Berufirði (Sumar í Havarí).

Af tónlistarhátíðum og tónleikaröðum á höfuðborgarsvæðinu hljóta styrk ErkiTíð, Listvinafélag Hallgrímskirkju, 15:15 tónleikasyrpan, Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni, tónleikaröð jazzklúbbsins Múlans, Listahátíðin Cycle, Extreme Chill Festival og Synth Babe Fest. Einnig hljóta styrki stök verkefni á vegum tónlistarhópa og einstaklinga, m.a. Skagfirski kammerkórinn, Kammerkór Suðurlands, Söngsveitin Ægisif, Kammersveitin Elja, Stirni Ensemble og Íslenski flautukórinn.

Af verkefnum fyrir börn og ungmenni má nefna barnaóperurnar Allt í plasti og Kalli og sælgætisgerðin, auk barnatónleikanna Ferðast um fullveldið (tónlist eftir Elínu Gunnlaugsdóttur) og Hver huggar krílið (tónlist eftir Olivier Manoury). Þá fær Hamrahlíðarkórinn styrk til að kynna íslenska kórtónlist í Eistlandi og þjóðlagasveitin Þula til að flytja íslenska þjóðlagatónlist í Kína.

Gott samræmi reyndist í úrvali tónlistartegunda þeirra verkefna sem sóttu um styrki og þeirra sem hljóta styrk. Sömu sögu má segja um kynjahlutfall umsækjenda og styrkþega.
Mennta- og menningarmálaráðherra úthlutar úr sjóðnum að fengnum tillögum tónlistarráðs og er sjóðurinn í umsýslu hjá Rannsóknarmiðstöð Íslands.

Nánari upplýsingar um úthlutanir tónlistarsjóðs má finna á heimasíðu Rannís.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum