Hoppa yfir valmynd
28. maí 2008 Innviðaráðuneytið

Minnst látinna í umferðinni

Umferðarráð stóð í dag fyrir minningarathöfn við Dómkirkjuna í Reykjavík í samvinnu við nemendur í Listaháskóla Íslands. Minnst var 916 einstaklinga sem látist hafa í umferðinni á 40 árum eða frá því að hægri umferð var lögleidd hérlendis.

Athöfnin við Dómkirkjuna er liður í því að rifja upp að 40 ár eru liðin frá því að skipt var yfir í hægri umferð 26. maí 1968. Stillt var upp 916 skópörum af ýmsum gerðum og stærðum. Þessi fjöldi, 916 manns, er álíka stór hópur og íbúafjöldi Bolungarvíkur eða Blönduóss. Sé litið til helstu orsakavalda banaslysa í umferðinni síðustu 5 til 10 árin má telja að um 150 úr þessum hópi hafi látist vegna aksturs eftir neyslu áfengis eða annarra vímuefna, um 180 hafi látist af völdum hraðaksturs og 120 hafi látist vegna þess að ekki voru notuð bílbelti, svo dæmi séu nefnd.

Kristján L. Möller samgönguráðherra var viðstaddur athöfnina og sagði hann það hafa verið áhrifamikið að horfa uppá þennan táknræna fjölda karla, kvenna og barna sem látist hefðu í umferðinni á þessu tímabili. ,,Þetta er blóðtaka sem við getum ekki sætt okkur við og þess vegna er nauðsynlegt að herða enn frekar á í baráttunni við umferðarslysin,” segir samgönguráðherra.

Í fréttatilkynningu Umferðarráðs eru menn beðnir um að hugleiða eftirfarandi: ,,Koma hefði mátt í veg fyrir flest þessara slysa með aðgát, tillitssemi og ábyrgð ökumanna. Ábyrgð sem krefst þess að menn séu með fulla athygli, allsgáðir, noti tilheyrandi öryggisbúnað og aki samkvæmt aðstæðum.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum