Hoppa yfir valmynd
16. október 1997 Innviðaráðuneytið

Hlíðarhreppur, Jökuldalshreppur og Tunguhreppur - Úrskurður um sameiningarkosningar 19. júlí 1997

Björn Hallur Gunnarsson                                     16. október 1997                                               97040087

Rangá II, Tunguhreppi                                                                                                                               1022

701 Egilsstaðir

 

 

             Þann 16. október 1997 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Þann 14. ágúst 1997 framsendi sýslumaðurinn á Seyðisfirði til félagsmálaráðuneytisins erindi Björns Halls Gunnarssonar, Helga R. Elíssonar, Björgvins Ómars Hrafnkelssonar og Sigurðar R. Gunnlaugssonar, dagsett 13. ágúst 1997, þar sem skotið er til ráðuneytisins úrskurði, dagsettum 8. ágúst 1997, sem kjörnefnd skv. 1. málsl. 2. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, kvað upp þess efnis að atkvæðagreiðslur um sameiningu Hlíðarhrepps, Jökuldalshrepps og Tunguhrepps þann 19. júlí 1997 skuli vera gildar.

 

             Með bréfum, dagsettum 15. ágúst 1997, óskaði ráðuneytið annars vegar eftir umsögn kjörstjórnar Tunguhrepps um kæruna og hins vegar eftir að sýslumaðurinn á Seyðisfirði sendi ráðuneytinu úrskurð fyrrgreindrar nefndar ásamt öðrum gögnum nefndarinnar er málið varða.

 

             Umsögn kjörstjórnarinnar barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 26. ágúst 1997. Gögn kjörnefndarinnar bárust frá sýslumanninum á Seyðisfirði þann 2. september 1997.

 

             Frekari rökstuðningur fyrir kærunni barst síðan ráðuneytinu frá Haraldi Blöndal hrl. fyrir hönd kærenda með bréfi, dagsettu 10. október 1997.

 

I.          Málavextir.

 

             Þann 6. júní 1997 kvað félagsmálaráðuneytið upp þann úrskurð að atkvæðagreiðslur um sameiningu Hlíðarhrepps, Jökuldalshrepps og Tunguhrepps, sem fram fóru þann 29. mars 1997, væru ógildar.

 

             Í framhaldi af þeim úrskurði var ákveðið að atkvæðagreiðslurnar skyldu fara fram á nýjan leik þann 19. júlí 1997. Niðurstöður atkvæðagreiðslnanna urðu þær að í Hlíðarhreppi samþykktu 44 sameininguna og 4 voru andvígir, í Jökuldalshreppi voru 53 fylgjandi sameiningu og 19 andvígir og í Tunguhreppi voru 30 fylgjandi sameiningu og 29 andvígir.

 

             Með bréfi, dagsettu 24. júlí 1997, kærðu Hallur Gunnarsson og Helgi R. Elísson atkvæðagreiðsluna í Tunguhreppi til sýslumannsins á Seyðisfirði.

 

             Í kærunni er tekið fram að kærendur telji að ólöglega hafi verið staðið að framkvæmd atkvæðagreiðslunnar að því leyti að ekki hafi verið auglýst að kjörskrá lægi frammi “hvorki hvar né hvenær”.

 

             Þann 28. júlí 1997 skipaði sýslumaðurinn á Seyðisfirði, í samræmi við 1. málsl. 2. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, nefnd til að úrskurða um kæruna. Nefndin kvað síðan upp úrskurð þann 8. ágúst 1997 á þá leið að atkvæðagreiðslurnar væru gildar.

 

             Nefndin rökstuddi niðurstöðu sína á eftirfarandi hátt:

             “Kæra sú sem hér er til umfjöllunar lýtur að þeim meinta formgalla, að ekki hafi verið auglýst að kjörskrá lægi frammi fyrir síðari atkvæðagreiðslurnar en sömu kjörskrárnar giltu í fyrra sinnið sbr. 2. mgr. 22. gr. sveitarstjórnarlaga. Kjörnefndin telur að auglýsa hefði átt framlagningu kjörskránna eins og lögboðið er í 20. gr. kosningalaga nr. 80/1987, sbr. 12. gr. sveitarstjórnarlaga. Verður því að telja að um galla hafi verið að ræða á framkvæmd atkvæðagreiðslnanna og ber því að huga að því hvort gallarnir hafi haft áhrif á úrslit þeirra.

             Engar efnislegar athugasemdir hafa verið gerðar við kjörskrárnar, kærendur hafa ekki bent á neina efnisgalla á kjörskránum og eftirgrennslan kjörnefndar varðandi kjörskrá Tunguhrepps, en í þeim eina hreppi voru úrslit tvísýn, hefur ekki leitt í ljós að á þeirri kjörskrá hafi verið efnisgallar eða að gera hefði mátt nokkra breytingu á henni lögum samkvæmt fyrir síðari atkvæðagreiðsluna. Í því ljósi og þar sem sömu kjörskrár giltu og við fyrri atkvæðagreiðslurnar og framlagning þeirra var þá auglýst eins og lögboðið var, verður ekki ætlað að nefndur galli á framkvæmd atkvæðagreiðslnanna hafi haft áhrif á úrslit þeirra.

             Ber því samkvæmt framangreindu og með vísan til 36. gr. sveitarstjórnarlaga að úrskurða atkvæðagreiðslurnar í hreppunum þremur gildar.”

 

             Í bréfi Björns Halls Gunnarssonar, Helga R. Elíssonar, Björgvins Ómars Hrafnkelssonar og Sigurðar R. Gunnlaugssonar, þar sem úrskurði nefndarinnar er skotið til ráðuneytisins, koma fram eftirfarandi röksemdir:

             “Í fyrsta lagi, ber skylda að auglýsa framlagningu kjörskrár í þessu tilfelli.

             Í öðru lagi, er okkur tjáð að hafi einhver úr kjörnefndinni (úrskurðarnefndinni) unnið fyrir hreppana þrjá sem um getur sé hann vanhæfur og viljum við að það verði kannað.

             Í þriðja lagi, bar ekki saman kjörskrá og þjóðskrá því þrír aðilar sem voru á kjörskrá í seinni kosningunni voru þar ekki samkvæmt íbúaskrá. Tilkynning um það barst milli kosninganna. Þessir aðilar eru Hjálmar Örn Arnarson, Ida Unnarsdóttir og Hrafnkell Elísson, öll í Tunguhreppi.

             Í fjórða lagi, var Lilja Gísladóttir Kleppjárnsstöðum Tunguhreppi ekki á kjörskrá en þar á hún að vera samkvæmt lögum. Hún fékk kosningarétt 28. júlí og átti því að vera auðkennd þar. Hefðu fulltrúar sameiningarnefndar í Tunguhreppi vitað það hefði ef til vill ákvarðanataka um hvenær kosningin var framkvæmd verið seinkað sem því nam.”

 

             Með bréfi, dagsettu 15. september 1997, óskaði ráðuneytið eftir að sýslumaðurinn á Seyðisfirði hefði milligöngu um að ráðuneytinu yrðu sendar upplýsingar um hvort og þá að hve miklu leyti þeir einstaklingar, sem skipaðir voru í fyrrgreinda kjörnefnd, hafi unnið fyrir sveitarfélögin. Svarbréf kjörnefndarmanna bárust ráðuneytinu þann 19. september 1997.

 

             Í frekari rökstuðningi frá Haraldi Blöndal hrl., fyrir hönd kærenda, dagsettum 10. október 1997, kom fram ný málsástæða. Er því haldið fram að skipan kjörnefndarinnar hafi verið ólögleg þar sem fulltrúi sýslumanns hafi skipað í nefndina en ekki sýslumaður sjálfur. Ráðuneytið aflaði umsagnar sýslumannsins á Seyðisfirði um þessa málsástæðu og barst umsögn hans ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 13. október 1997.

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Um sameiningu sveitarfélaga gilda ákvæði X. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og í 6. mgr. 108. gr. laganna segir m.a. að um atkvæðagreiðslur samkvæmt þeirri grein fari eftir ákvæði III. kafla laganna um kosningu til sveitarstjórna eftir því sem við getur átt. Í 12. gr. laganna segir síðan að lög um kosningar til Alþingis gildi um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við á með þeim frávikum sem sveitarstjórnarlögin ákveða.

 

Skipun kjörnefndar.

 

             Kærendur halda því fram að skipan kjörnefndarinnar hafi verið ólögleg þar sem fulltrúi sýslumanns hafi skipað í nefndina en ekki sýslumaður sjálfur.

 

             Samkvæmt gögnum málsins skipaði Helgi Jensson fulltrúi sýslumannsins á Seyðisfirði umrædda kjörnefnd þann 28. júlí 1997. Öðlaðist Helgi Jensson löggildingu dómsmálaráðherra til að vera fulltrúi sýslumannsins á Seyðisfirði þann 21. júlí 1989 og er hann staðgengill sýslumannsins.

 

             Fram kemur einnig í gögnum málsins að sýslumaðurinn á Seyðisfirði var í sumarleyfi á þeim tíma er skipa átti kjörnefndina. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 ber viðkomandi sýslumanni að skipa kjörnefndina þegar er honum hefur borist kæra. Með hliðsjón af því og stöðu Helga Jenssonar við embætti sýslumannsins á Seyðisfirði er það niðurstaða ráðuneytisins að með réttum hætti hafi verið staðið að skipan kjörnefndarinnar.

 

Hæfi kjörnefndarmanna.

 

             Ráðuneytið aflaði upplýsinga frá kjörnefndarmönnum um hvort og þá að hve miklu leyti þeir hafi unnið fyrir þau þrjú sveitarfélög sem málið varðar. Tveir nefndarmanna hafa aldrei unnið fyrir sveitarfélögin, en einn nefndarmanna, starfandi lögmaður á Egilsstöðum, rak sjö samsvarandi dómsmál fyrir sveitarfélögin þrjú á árinu 1996 og rak einnig einkamál fyrir einn kærenda á sama ári. Fram kemur í gögnum málsins að málarekstur fyrir sveitarfélögin hafi á árinu numið 4,75% af rekstri lögmannsstofu hans á árinu 1996 og vinna fyrir einn kærenda hafi numið um 1,25% af rekstrinum sama ár. Á árinu 1997 hefur lögmaðurinn enn sem komið er ekkert unnið fyrir þessa aðila.

 

             Um hæfi kjörnefndarmanna gildir 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. tölulið segir að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef hann er aðili máls, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila. Síðan segir í 6. tölulið að nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

 

             Ráðuneytið telur ljóst með hliðsjón af athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að stjórnsýslulögum, að 1. töluliður 3. gr. eigi einungis við um fyrirsvarsmann í því máli sem er til umfjöllunar. Fyrirsvarsmaður í öðrum málum fellur því ekki undir 1. tölulið, en gæti hins vegar fallið undir 6. tölulið.

 

             Svo nefndarmaður teljist vanhæfur á grundvelli hinnar matskenndu hæfisreglu í 6. tölulið verður hann að hafa einstaklega hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem ágóða, tap eða óhagræði. Þá verður eðli og vægi hagsmunanna að vera þess háttar að almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið geti haft áhrif á ákvörðun málsins.

 

             Ljóst er að umræddur kjörnefndarmaður átti ekki beina hagsmuni af úrlausn kærumálsins. Kemur þá til skoðunar hvort hann hafi átt óbeina hagsmuni af úrlausn þess, svo sem vegna annarra viðskipta við einhverja aðila málsins. Af fyrrgreindum upplýsingum um umfang málarekstrar kjörnefndarmannsins fyrir nokkra aðila málsins á árunum 1996 og þar sem af er ársins 1997, telur ráðuneytið ljóst að hugsanlegir hagsmunir hans af úrlausn málsins séu það smávægilegir að ekki verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi getað haft áhrif á ákvörðun málsins.

 

             Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að þeir einstaklingar, sem skipaðir voru í kjörnefnd í framhaldi af kæru vegna atkvæðagreiðslu um sameiningu Hlíðarhrepps, Jökuldalshrepps og Tunguhrepps, hafi verið hæfir til að gegna þeim starfa.

 

Kosningarréttur tiltekinna einstaklinga:

 

             Í 2. mgr. 22. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 segir svo:

             “Nú fara aukakosingar fram vegna þess að kosningar hafa verið úrskurðaðar ógildar og síðari kosningar fara fram innan hálfs árs frá þeim fyrri og skal þá kosið skv. fyrri kjörskrá.”

 

             Ákvæði þetta hefur það í för með sér að við atkvæðagreiðslurnar þann 19. júlí 1997 bar að nota sömu kjörskrár og notaðar voru við atkvæðagreiðslurnar þann 29. mars 1997, enda var ekki liðinn lengri tími en hálft ár frá fyrri atkvæðagreiðslunni. Markmiðið með ákvæðinu er það að síðari kosningunni er ætlað að vera hrein endurtekning á hinni fyrri, ef síðari kosningin fer fram innan sex mánaða. Í því felst að þeir einir höfðu kosningarrétt þann 19. júlí 1997 sem uppfylltu kosningarréttarskilyrðin þann 29. mars 1997 í samræmi við 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, sbr. lög nr. 19/1994. Í því felst meðal annars að kosningarréttur í tilteknum sveitarfélögum, þ.e. staðsetning á kjörskrá, ræðst af því hvar einstaklingar voru með skráð lögheimili samkvæmt þjóðskrá þann 22. febrúar 1997, þ.e. þann dag er fimm vikur voru til kjördags.

 

             Í 4. mgr. 19. gr. segir m.a. svo: “Hver maður á kosningarrétt í því sveitarfélagi þar sem hann er skráður með lögheimili samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag ...” Kosningarrétturinn er því beinlínis tengdur við skráningu í þjóðskrá á tilteknum degi. Tilkynningar um lögheimilisbreytingar sem berast eftir þann viðmiðunardag hafa því ekki áhrif á í hvaða sveitarfélagi viðkomandi einstaklingur á kosningarrétt.

 

             Af framangreindu leiðir að þeir sem áunnu sér almennan kosningarrétt eftir 29. mars áttu ekki rétt á að greiða atkvæði þann 19. júlí. Með sama hætti verður ekki talið að þeir einstaklingar, sem voru á kjörskrá við atkvæðagreiðsluna þann 29. mars en uppfylltu ekki lengur af einhverjum ástæðum öll skilyrði 19. gr. sveitarstjórnarlaga þann 19. júlí, hafi þar með glatað kosningarrétti sínum við atkvæðagreiðsluna þann 19. júlí, enda var þá um að ræða hreina endurtekningu á fyrri atkvæðagreiðslunni sem úrskurðuð hafði verið ógild.

 

             Með vísan til framangreinds verður að telja að Hjálmar Örn Arnarson, Ida Unnarsdóttir og Hrafnkell Elísson hafi verið réttilega á kjörskrá í Tunguhreppi við atkvæðagreiðsluna þann 19. júlí 1997, enda bárust tilkynningar um breytingar á lögheimili þeirra eftir 22. febrúar 1997.

 

             Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. sveitarstjórnarlaga skal taka þá á kjörskrá sem fullnægja öllum skilyrðum 19. gr. laganna. Ljóst er því að Lilja Gísladóttir, sem náði 18 ára aldri þann 28. júlí 1997, átti ekki að vera á kjörskrá þeirri sem gilti við atkvæðagreiðsluna þann 29. mars og þar af leiðandi ekki heldur þann 19. júlí. Samkvæmt fyrrgreindum ummælum varðandi kosningarrétt og með vísan til 2. mgr. 22. gr. sveitarstjórnarlaga hefði hún ekki heldur átt að vera á kjörskránni þó atkvæðagreiðslan hefði farið fram 28. júlí.

 

Auglýsing kjörskrár:

 

             Um framlagningu og auglýsingu á kjörskrá er fjallað í 19. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 80/1987, sbr. 7. gr. laga nr. 10/1991 og 8. gr. laga nr. 9/1995. Ákvæði 1. og 2. mgr. 19. gr. eru svohljóðandi:

             “Kjörskrá skal leggja fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag. Kjörskrá skal liggja frammi á að minnsta kosti einum stað og í hverri kjördeild utan kaupstaða og kauptúna.

             Nú er kjörskrá ekki lögð fram á skrifstofu sveitarstjórnar og skal þá auglýsa hvar það verður gert og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar.”

 

             Af ákvæði þessu er ljóst að ekki er gert ráð fyrir skyldu til að auglýsa sérstaklega framlagningu kjörskrár nema ætlunin sé að hafa kjörskrána almenningi til sýnis á öðrum stað en skrifstofu sveitarfélagsins.

 

             Samkvæmt gögnum málsins lá kjörskrá í Tunguhreppi frammi hjá hreppstjóra en ekki á skrifstofu sveitarfélagsins. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um kosningar til Alþingis verður því að telja að auglýsa hafi átt að kjörskráin lægi frammi á þeim stað. Ráðuneytið telur þá skyldu hafa verið fyrir hendi þó um endurtekningu á atkvæðagreiðslu hafi verið að ræða, sem áður hafði verið úrskurðuð ógild.

 

             Með hliðsjón af umfjöllun fyrr í þessum úrskurði um möguleika á að breyta kjörskrá þeirri, sem gilti við atkvæðagreiðslu í Tunguhreppi þann 19. júlí 1997, og með vísan til 36. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 er það niðurstaða ráðuneytisins að galli þessi á atkvæðagreiðslunni hafi ekki verið þess eðlis að ætla megi að hann hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Staðfestur er úrskurður kjörnefndar frá 8. ágúst 1997 um gildi atkvæðagreiðslu um sameiningu Hlíðarhrepps, Jökuldalshrepps og Tunguhrepps þann 19. júlí 1997.

 

Páll Pétursson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Samrit:       Helgi R. Elísson, Hallfreðarstöðum, Tunguhreppi.

                   Björgvin Ómar Hrafnkelsson, Stóra-Bakka, Tunguhreppi.

                   Sigurður R. Gunnlaugsson, Hlíð, Tunguhreppi.

 

Afrit:          Hlíðarhreppur.

                   Jökuldalshreppur.

                   Tunguhreppur.

                   Sýslumaðurinn á Seyðisfirði.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum