Hoppa yfir valmynd
30. apríl 1998 Innviðaráðuneytið

Jökuldalshreppur - Umboð hreppsnefndar til að úthluta hreindýraarði skömmu fyrir gildistöku sameiningar

Lögmannsstofa ehf.                                               30. apríl 1998                                                                           98030076

Gísli M. Auðbergsson hdl.                                                                                                                                             1001

Strandgötu 53

735 Eskifirði

 

 

 

             Þann 28. apríl 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 19. mars 1998, kærði Gísli M. Auðbergsson hdl., fyrir hönd Sigurðar Aðalsteinssonar, Vaðbrekku í Hrafnkelsdal, til ráðuneytisins samþykkt hreppsnefndar Jökuldalshrepps frá 23. desember 1997 varðandi úthlutun hreindýraarðs fyrir árið 1997.

 

I.          Málavextir.

 

             Á fundi hreppsnefndar Jökuldalshrepps þann 23. desember 1997 var m.a. gerð svohljóðandi samþykkt:

             “Hreindýraarður ársins 1997 er 2.007.000. Samkvæmt reglum er deilt út 1.906.200 á 36 aðila. 101.100 er deilt út á landverð jarða. Sjá úthlutunarskrá.“

 

             Þann 27. desember 1997 tók gildi sameining Hlíðarhrepps, Jökuldalshrepps og Tunguhrepps, sbr. auglýsingu frá félagsmálaráðuneytinu nr. 616/1997.

 

II.         Málsástæður.

 

             Kærandi tekur fram í erindi sínu að hann telji að umrædd ákvörðun hreppsnefndarinnar hafi verið tekin á ólögmætan hátt.

 

             Í kærunni segir síðan svo:

             “Umbj. minn telur að meginreglur um valdbærni sveitarstjórna, sem m.a. koma fram í 5. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8 frá 1986, leiði til þess að hreppsnefndin hafi ekki verið bær til að taka ákvörðun sem þessa, á tímabilinu frá kjördegi og fram til þess að nýkjörin sveitarstjórn tekur formlega við völdum. Á því tímabili verður að ætla að sitjandi sveitarstjórn hafi afar takmarkaðar heimildir til að taka ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins og eigi í raun aðeins að annast daglegan rekstur. Til marks um hversu stór þessi ákvörðun er, má nefna að heildarvelta Jökuldalshrepps á árinu 1997 var um kr. 22.000.000, þannig að um er að ræða u.þ.b. 10% af heildarársveltunni.

             Ráðstöfun sú sem kærð er, er mjög umdeilanleg, og sveitarstjórnin tekur sér vald til að ákveða að hreindýraarður í sveitarfélaginu skuli skiptast eftir reglum sem beinlínis eru í andstöðu við reglugerð nr. 402 frá 1994 um stjórn hreindýraveiða og túlkun umhverfisráðuneytisins á þeirri reglugerð sbr. t.a.m. úrskurð þess ráðuneytis frá 15. júlí 1997 í málinu nr. 97030019. Rök sveitarstjórnar fyrir þessu eru eftirfarandi:

Hreppsnefnd telur ekki fært að fara eftir núgildandi landmati nema að mjög litlum hluta fyrr en landverð verður endurmetið (unnið í einni úttekt).

             Þessi ráðstöfun sem gengur beinlínis út á það að brjóta gegn gildandi lögum og reglum, er svo mikilsverð, að hún getur engan vegin verið á valdi fráfarandi sveitarstjórnar á tímabilinu frá kosningum fram að valdatöku nýrrar sveitarstjórnar. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið, er þess krafist að hið háa ráðuneyti felli úr gildi umrædda ákvörðun sveitarstjórnar Jökuldalshrepps, og feli sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags að fjalla um málið að nýju.“

 

III.        Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Í máli þessu mun ráðuneytið einvörðungu fjalla um formhlið málsins, þ.e. hvort hreppsnefnd Jökuldalshrepps hafi haft umboð til að taka ákvörðun um málið á fundi sínum þann 23. desember 1997. Ráðuneytið mun ekki fjalla um efnisþátt ákvörðunarinnar, sem varðar m.a. túlkun á reglugerð um stjórn hreindýraveiða, en sá þáttur fellur undir verksvið umhverfisráðuneytisins.

 

             Þann 23. desember 1997 tók gildi sameining Hlíðarhrepps, Jökuldalshrepps og Tunguhrepps, sbr. auglýsingu félagsmálaráðuneytisins nr. 616/1997. Í þeirri auglýsingu kemur fram að kjósa skyldi til sveitarstjórnar hins nýja sveitarfélags þann 13. desember 1997. Einungis kom fram einn listi og var hann því sjálfkjörinn.

 

             Hreppsnefnd Jökuldalshrepps var kjörin þann 28. maí 1994, sbr. III. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Var kjörtímabil hennar fjögur ár, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

 

             Sameining framangreindra þriggja sveitarfélaga var ákveðin á grundvelli 108. gr. sveitarstjórnarlaga. Í þeirri grein er ekki að finna takmörkun á valdsviði fráfarandi sveitarstjórna eftir að sameining hefur verið ákveðin og þar til hún hefur tekið gildi. Slíka takmörkun er heldur ekki að finna í áðurgreindri auglýsingu nr. 616/1997.

 

             Í 6. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga er svohljóðandi ákvæði:

             “Fulltrúi í sveitarstjórn getur krafist frestunar á framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar sem teknar eru frá kjördegi og þar til nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum og skal þá leggja mál að nýju fyrir hana á fyrsta fundi hennar. Nú er mál þannig vaxið að framkvæmd ákvörðunar þolir enga bið og verður þessa úrræðis þá ekki neytt, enda sé heimild til afgreiðslu málsins í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi ráðuneytisins.“

 

             Samkvæmt fundargerð frá fundi hreppsnefndar Jökuldalshrepps þann 23. desember 1997 fór enginn fundarmanna fram á að málinu yrði frestað, sem þó var heimilt samkvæmt 1. málsl. 6. mgr. 37. gr. laganna, og var málið afgreitt einróma í hreppsnefndinni.

 

             Samkvæmt auglýsingu nr. 616/1997 tók sameining fyrrgreindra sveitarfélaga gildi þann 27. desember 1997 og héldu fráfarandi sveitarstjórnir umboði sínu fram til þess dags, en þá tók við sveitarstjórn sú sem sjálfkjörin varð fyrir hið nýja sveitarfélag.

 

             Með vísan til þess er það niðurstaða ráðuneytisins að hreppsnefnd Jökuldalshrepps hafi haft umboð til að taka ákvörðun um úthlutun hreindýraarðs fyrir árið 1997 á fundi sínum þann 23. desember 1997.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Hafnað er kröfu um að félagsmálaráðuneytið felli úr gildi ákvörðun hreppsnefndar Jökuldalshrepps frá 23. desember 1997 um úthlutun hreindýraarðs fyrir árið 1997.

 

F. h. r.

 

Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Ljósrit:  Hreppsnefnd sameinaðs sveitarfélags Hlíðar-, Jökuldals- og Tunguhreppa.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum