Hoppa yfir valmynd
31. mars 2000 Innviðaráðuneytið

Breiðdalshreppur - Formsatriði við kjör í samstarfsnefnd

Breiðdalshreppur                                           31. mars 2000                    Tilvísun: FEL00030081/1001

Rúnar Björgvinsson, sveitarstjóri

Ásvegi 32

760 Breiðdalsvík

 

 

 

 

      Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 23. þ.m., þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á því hvort formlega hafi rétt verið staðið að kjöri í samstarfsnefnd um sameiningu Breiðdalshrepps, Stöðvarhrepps, Fáskrúðsfjarðarhrepps og Búðahrepps.

 

      Með erindinu fylgdu afrit af bréfum viðkomandi sveitarfélaga varðandi þessi sameiningarmál. Eru bókanir sveitarstjórnanna með eftirfarandi hætti:

·        Breiðdalshreppur: „Eftirtaldir fulltrúar kjörnir í samstarfsnefnd fyrir Breiðdalshrepp: Rúnar Björgvinsson og Páll Baldursson.“

·        Stöðvarhreppur: „Fulltrúi í kynningarnefnd verði Jósef Friðriksson. Til vara Ævar Ármannsson.“

·        Búðahreppur: „Í kynningarnefnd vegna sameiningarmálsins voru kosnir Steinþór Pétursson og Guðm. Þorgrímss.“

·        Fáskrúðsfjarðarhreppur: „...voru kjörnir tveir fulltrúar í samstarfsnefnd sveitarfélaganna, til þess að annast undirbúning sameiningar sveitarfélaganna, sbr. 90. gr. sveitarstjórnarlaga. Kosningu hlutu Friðmar Gunnarsson og Friðrik Steinsson.“

 

      Að mati ráðuneytisins er mjög áríðandi við allan undirbúning að sameiningu sveitarfélaga að fylgt sé nákvæmlega fyrirmælum laga. Í þessu tilviki gildir 90. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og í 1. og 2. mgr. þeirra laga er gert ráð fyrir að viðkomandi sveitarstjórnir kjósi tvo fulltrúa hver eða fleiri eftir samkomulagi í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna.

 

      Í ljósi þessa lagaákvæðis telur ráðuneytið ótvírætt að Breiðdalshreppur og Fáskrúðsfjarðarhreppur hafa uppfyllt framangreint skilyrði 90. gr. sveitarstjórnarlaga með áðurnefndum bókunum. Hins vegar telur ráðuneytið að bókanir frá fundum sveitarstjórna Búðahrepps og Stöðvarhrepps séu ekki nægilega skýrar um þetta þar sem í báðum tilvikum er gert ráð fyrir kjöri fulltrúa í „kynningarnefnd“. Á það skal bent að slíkri samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaga er ekki á fyrstu stigum starfs síns ætlað að vera kynningarnefnd.

 

F. h. r.

 

Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum