Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2002 Innviðaráðuneytið

Búðahreppur - Álit ráðuneytisins varðandi valdmörk sveitarstjórnar og sameiginlegrar barnaverndarnefndar fjögurra sveitarfélaga, fjárhagsleg ábyrgð sveitarstjórnar vegna barnaverndarmála

Búðahreppur                                                    12. júlí 2002                                FEL02060041/1001

Steinþór Pétursson, sveitarstjóri

Hafnargötu 12

750 FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR

 

 

Ráðuneytið vísar til erindis yðar, dags. 19. júní 2002, þar sem óskað er álits ráðuneytisins um hvernig byggðarráð og sveitarstjórn skuli fjalla um mál sem lúta að fjárútlátum í tengslum við barnaverndarmál og önnur trúnaðarmál sem félagsmálanefnd fjallar um og afgreiðir. Fram kemur í erindinu að óskað er upplýsinga um meðferð mála samkvæmt nýjum barnaverndarlögum, nr. 80/2002, og einnig um fjárhagslega ábyrgð sveitarstjórnar og fleira er máli kann að skipta.

 

Af þessu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:

 

Á vegum sveitarfélaga skulu starfa barnaverndarnefndir, sbr. 10. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt 13. gr. laganna er sveitarstjórnum óheimilt að gefa barnaverndarnefndum fyrirmæli um meðferð einstakra barnaverndarmála. Jafnframt er sveitarstjórn óheimill aðgangur að gögnum og upplýsingum um einstök barnaverndarmál og ákvörðunum og úrskurðum barnaverndarnefnda verður ekki skotið til sveitarstjórnar.

 

Samkvæmt 87. gr. laganna ber sveitarstjórn ábyrgð á kostnaði sem hlýst af starfi barnaverndarnefndar, svo sem vegna þjónustu sem hún veitir og vegna þeirra úrræða sem nefndin ber ábyrgð á samkvæmt lögum. Sveitarstjórn ber ábyrgð á að nægilegt fjármagn sé til ráðstöfunar vegna barnaverndar í sveitarfélaginu. Barnaverndarmál eru þannig vaxin að þar getur komið upp eitt og eitt mjög kostnaðarsamt mál sem getur farið út fyrir fjárhagsrammann. Er þá sveitarfélaginu skylt að útvega aukafjármagn.

 

Af framangreindu leiðir að barnaverndarnefndum er tryggt sjálfstæði gagnvart sveitarstjórnum. Sveitarstjórnir  fjalla þannig fyrst og fremst um almenna stefnumótun innan barnaverndar, sbr. 9. gr. laganna, og sveitarstjórn og byggðarráð eiga almennt eingöngu að fjalla um fjárhagsramma barnaverndar í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, en ekki um fjárútlát vegna hvers einstaks barnaverndarmál.   Fari sveitastjórn fram á að fá upplýsingar um kostnað vegna meðferðar einstakra mála verður það einungis gert með þeim hætti að ekki verði lesið úr upplýsingunum hvaða mál sé um að ræða eða hverjir séu aðilar að því. Allur hugsanlegur  vafi í þessum efnum  skýrist út frá meginreglunni um að málefni einstaklinga mega ekki fara fyrir sveitastjórn, sbr. 13. gr. laganna.               

 

Búðahreppur á aðild að sameiginlegri félagsmálanefnd Búðahrepps, Fáskrúðsfjarðarhrepps, Stöðvarhrepps og Breiðdalshrepps, sem fer með málefni félagsþjónustu sveitarfélaga og barnavernd varðandi íbúa ofangreindra sveitarfélaga. Ekki er grundvallarmunur á möguleikum einstakra sveitarstjórna til að stýra útgjöldum til barnaverndarmála þegar um sameiginlega nefnd er að ræða miðað við það sem að framan er rakið. Hlutaðeigandi sveitarstjórnir hljóta eftir sem áður að setja nefndinni fjárhagsáætlun sem henni ber í meginatriðum að fara eftir.

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum