Hoppa yfir valmynd
20. desember 2018

Sérfræðingur í jarðeðlisfræði

Sérfræðingur í jarðeðlisfræði - Jarðvísindastofnun
 

Laust er til umsóknar fullt starf sérfræðings í jarðeðlisfræði með áherslu á jöklafræði, við Jarðvísindastofnun Háskólans. Sérfræðingnum er ætlað að vinna að jöklarannsóknum og skal starfsvið hans falla að núverandi rannsóknum stofnunarinnar á jöklum Íslands og  áherslum í erlendum  samstarfsverkefnum. Starfsemi stofnunarinnar í jöklafræði felst í kortagerð á yfirborði og botni jökla, mælingum á afkomu og orkuskiptum við yfirborð þeirra, ísflæði, veðurathugunum á jöklum, fjarkönnun úr gervitunglum og flugvélum, könnun á framhlaupum og kelfingu í jökullón, rannsóknum á rennsli vatns um jökla, vatnsforða sem bundinn er í jöklum og mati á hættu sem stafar af jöklum vegna jökulhlaupa frá jaðarlónum og lónum á jarðhitasvæðum undir jöklum eða við eldgos í jöklum; auk viðbragða jarðskorpu við breytingum á jökulfargi. Gerð eru reiknilíkön af afkomu og hreyfingu og viðbrögðum jökla við loftslagsbreytingum, í fortíð, nútíð og framtíð.

Hæfniskröfur
- Doktorspróf í jarðeðlisfræði, eða öðrum greinum með sambærilegan bakgrunn í eðlisfræði og stærðfræði.
- Reynsla af gagnaöflun og úrvinnslu jöklagagna. 
- Krafist er góðrar samstarfshæfni og lipurðar í mannlegum samskiptum.
- Góð enskukunnátta í skrifuðu og töluðu máli.

Gert er ráð fyrir að sérfræðingurinn komi að leiðbeiningu framhaldsnema og mögulega annarri kennslu við Jarðvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs (https://www.hi.is/jardvisindadeild).  Umfang kennslu yrði samkvæmt samkomulagi sérfræðingsins við stjórn Jarðvísindastofnunar í samræmi við 10. gr reglna Raunvísindastofnunar Háskólans nr. 685/2011 og ákvörðun Jarðvísindadeildar.

Við ráðningu verður horft til þess að umsækjendur falli sem best að aðstæðum og þörfum Jarðvísindastofnunar.

Umsóknarfrestur er til og með 21. janúar 2019.
Sótt er um starfið á heimasíðu Háskóla Íslands undir laus störf.
Umsóknir sem berast með öðrum hætti verða ekki teknar til greina. 

Nánari upplýsingar um starfið veita Guðfinna Aðalgeirsdóttir, oddviti faghóps í jöklafræði, netfang: [email protected], og Bryndís Brandsdóttir, stjórnarformaður Jarðvísindastofnunar, netfang: [email protected]

Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni vottorð um námsferil sinn og störf, ritaskrá, skýrslu um vísindastörf og önnur störf sem þeir hafa unnið og greinargerð um rannsóknaáherslur og framtíðarsýn ef til ráðningar kemur. Í umsókn skal koma fram hver ritverka sinna, allt að átta talsins, umsækjandi telur veigamest með tilliti til þess starfs sem um ræðir. Umsækjandi sendir eingöngu þessi ritverk sín með umsókn, eða vísar til þess hvar þau eru aðgengileg á rafrænu formi. Þegar fleiri en einn höfundur stendur að innsendu ritverki skulu umsækjendur gera grein fyrir framlagi sínu til verksins. Enn fremur er ætlast til þess að umsækjendur láti fylgja með tvö meðmælabréf. Meðmælabréfin skal senda til Baldvins M. Zarioh, deildarstjóra hjá Vísinda- og nýsköpunarsviði á netfangið [email protected]

Ráðið verður í starfið til fimm ára með möguleika á ótímabundinni ráðningu að þeim tíma liðnum sbr. 3. mgr. 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi hlutaðeigandi stéttarfélags og fjármálaráðherra.

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans.

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands.

Jarðvísindastofnun er faglega og fjárhagslega sjálfstæð stofnun innan Raunvísindastofnunar Háskólans. Hún er starfsvettvangur jarðvísindarannsókna  sérfræðinga, kennara og framhaldsnemenda við Háskóla Íslands. Stofnunin hefur sterk alþjóðleg tengsl þar sem  mörg rannsóknaverkefni eru unnin í víðtæku samstarfi vísindamanna hérlendis og erlendis.  Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu stofnunarinnar: http://jardvis.hi.is/

Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa 360 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt enda eykst sífellt hlutfall erlendra starfsmanna og nemenda við sviðið, en fjórðungur bæði starfsmanna og framhaldsnema eru erlendir. Nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs eru um 2300 talsins í sex deildum. Þar af eru 350 í meistaranámi og 150 í doktorsnámi.  Rannsóknarstofnanir sviðsins eru Jarðvísindastofnun og Eðlisvísindastofnun sem tilheyra báðar Raunvísindastofnun, Líf- og umhverfisvísindastofnun, Verkfræðistofnun og Stofnun Sæmundar fróða sem er þverfræðileg stofnun og heyrir undir öll fræðasvið háskólans. 

Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og er í hópi 250 bestu háskóla heims samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum