Hoppa yfir valmynd
19. desember 1996 Innviðaráðuneytið

Skólavist barna utan lögheimilissveitarfélags

Skólaskrifstofa Skagfirðinga
19. desember 1996
96090079

Allyson Macdonald forstöðumaður 1102

550 Sauðárkrókur

 

 

 

Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 20. september 1996, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á því hvort sveitarstjórnum eða starfsmönnum þeirra, svo sem skólastjórum, sé heimilt að neita að veita skólavist börnum sem vistuð hafa verið utan lögheimilissveitarfélags, hvort sem er af félagsmálastofnunum eða af foreldrum. Einnig er óskað eftir áliti á því hvort sveitarstjórnum sé heimilt að neita að greiða fyrir skólagöngu barna með lögheimili í þeirra sveitarfélagi, sem annað hvort félagsmálastofnanir eða foreldrar óska eftir að vista í öðru sveitarfélagi.

Ráðuneytið leitaði eftir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um erindi yðar og barst umsögn með bréfi, dagsettu 26. nóvember 1996.

Í umsögninni eru tilgreindar eftirfarandi ástæður sem liggja m.a. til grundvallar viðmiðunarreglum sambandsins um skólagöngu barna utan lögheimilissveitarfélags:

1. "Með lögum nr. 66/1995 er allur rekstur grunnskóla fluttur til sveitarfélaganna og þeim jafnframt tryggðar tekjur til að standa undir kostnaði við rekstur grunnskólans með heimild til hækkunar útsvars um 2,7 prósentustig."

2. "Hluti af þessari útsvarshækkun eða 27% af henni leggjast í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að jafna kennslukostnað á milli sveitarfélaga. Jöfnunin er fundin með því [m.a.] að skoða ... útsvarstekjur í sveitarfélaginu og fjölda barna á grunnskólaaldri. Tekjur sveitarfélagsins eru því að hluta miðaðar við fjölda barna með lögheimili í sveitarfélaginu."

3. Vitnað er í 11. gr. grunnskólalaga. "Í þessari lagagrein eru skilgreind tengsl skólahverfa og sveitarfélaga og hvernig sveitarfélag getur átt aðild að fleiri en einu skólahverfi. Í ljósi þessarar skilgreiningar verður að lesa 12. gr. laganna þar sem kveður á um að "öll skólaskyld börn í skólahverfinu skuli njóta lögboðinnar fræðslu". Það er skilningur Sambands íslenskra sveitarfélaga að með þessum lagaákvæðum sé löggjafinn að leggja þá skyldu á herðar sveitarfélaga að öll börn með lögheimili í sveitarfélaginu skuli njóta lögboðinnar fræðslu."

4. "Í sveitarfélögum þar sem reknir eru margir skólar er það ekki frjálst val nemenda eða forráðamanna þeirra hvern af skólum sveitarfélagsins þeir sækja. Slíkt er og hefur verið skipulagt af skólayfirvöldum í sveitarfélaginu m.a. með tilliti til nýtingar skólahúsnæðis og vinnuafls."

5. Útilokað er að aðili hvort heldur það er forráðamaður nemanda, félagsmálaskrifstofu eða sveitarfélag geti lagt fjárhagslegar skuldbindingar á annað sveitarfélag með því að vista þar nemanda að viðtökusveitarfélagi forspurðu. Benda má á að margir nemendur eru í þörf fyrir dýra sérkennslu, sem þá væri hægt að skylda viðtökusveitarfélagið til að veita einnig, ef túlkun lögfræðisviðs menntamálaráðuneytisins ... frá því í janúar á þessu ári er enn í fullu gildi. Þegar sú túlkun var gefin út, var allur kennslukostnaður greiddur af ríkinu, og skipti því ekki máli hvar til hans var stofnað."

Síðan segir að lokum í umsögninni:

"Þær viðmiðunarreglur, sem Samband íslenskra sveitarfélaga gaf út um greiðslur sveitarfélaga vegna barna sem stunda skóla utan lögheimilissveitarfélags voru settar að beiðni nokkurra sveitarfélaga og eru til þess ætlaðar að greiða fyrir að nemendur geti stundað nám utan lögheimilissveitarfélags þegar það þykir góður kostur að mati aðila.

Með reglunum er það staðfest, sem lesa má úr grunnskólalögunum að lögheimilissveitarfélagið, sem fær tekjur vegna skólahalds fyrir nemandann annars vegar í gegnum útsvar forráðamanna hans og einnig með úthlutun úr Jöfnunarsjóði, beri fjárhagslega ábyrgð á kennslu nemandans."

Að mati félagsmálaráðuneytisins eru framangreind sjónarmið Sambands íslenskra sveitarfélaga eðlileg. Rétt er að hvert sveitarfélag beri ábyrgð á grunnskólamenntun barna sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu. Tekjustofnar sveitarfélaga, m.a. samkvæmt lögum nr. 4/1995 með síðari breytingum, aðallega útsvör og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, eru fyrst og fremst miðaðir við þá aðstöðu. Verður því að telja þá reglu eðlilega að viðkomandi sveitarfélög semji um greiðslur og tengd atriði áður en tekin er ákvörðun um vistun barns á grunnskólaaldri utan lögheimilissveitarfélags.

Afgreiðsla erindisins hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

Ljósrit: Samband íslenskra sveitarfélaga.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum