Hoppa yfir valmynd
8. apríl 1998 Innviðaráðuneytið

Vestmannaeyjabær - Hæfi kjörstjórnarmanna og dyravarðar

Vestmannaeyjabær                                                8. apríl 1998                                                       98040017

Áki Heinz                                                                                                                                                      1022

Ráðhúsinu, pósthólf 60

902 Vestmannaeyjum

            

 

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett í dag, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins um hæfi annars vegar tveggja aðalmanna í kjörstjórnum og hins vegar hæfi dyravarðar á kjörstað.

 

             Í fyrra tilvikinu er um það að ræða að feður tveggja stúlkna, sem hyggjast bjóða sig fram í sveitarstjórnarkosningum í maí, eru kjörnir í yfirkjörstjórn og undirkjörstjórn í 1. kjördeild.

 

             Í 16. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 er svohljóðandi ákvæði:

             “Sá sem sæti á í kjörstjórn skal víkja sæti ef hann er í kjöri til sveitarstjórnar í bundnum hlutfallskosningum.Einnig skal kjörstjórnarmaður víkja sæti ef til úrskurðar er mál er varðar maka hans eða þann sem er skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar.“

 

             Af orðalagi framangreinds ákvæðis telur ráðuneytið ljóst að umræddir tveir kjörstjórnarmenn geti setið í kjörstjórnunum við framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna í vor. Hins vegar er jafnframt ljóst að þeim ber að víkja sæti ef til úrskurðar er mál sem varðar dætur þeirra. Er þá átt við að þeir víkja sæti við umfjöllun og meðferð slíks máls í viðkomandi kjörstjórn. Almennt eru þeir því hæfir til að gegna störfum í kjörstjórn.

 

             Í síðara tilvikinu er um að ræða dyravörð á kjörstað sem starfað hefur sem slíkur til margra ára. Sonur hans er í framboði nú og var það einnig í sveitarstjórnarkosningunum 1994.

 

             Í 54. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna segir að áður en atkvæðagreiðsla hefst skuli kjörstjórn skipa til dyravörslu einn mann eða fleiri sem skiptast á. Í ákvæðinu er ekki að finna sérstök hæfisskilyrði sem einstaklingar þurfa að uppfylla til að geta gegnt umræddu starfi í kjördag. Ráðuneytið telur því að almenn ákvæði laganna komi ekki í veg fyrir að kjörstjórn skipi framangreindan einstakling til að gegna starfinu svo fremi sem uppfyllt séu önnur ákvæði laganna, svo sem um bann við áróðri á kjörstað með því að bera merki tiltekinna stjórnmálasamtaka o.s.frv., sbr. b-lið 92. gr. laganna.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum