Hoppa yfir valmynd
8. júlí 1998 Innviðaráðuneytið

Arnarneshreppur - Úrskurður um sveitarstjórnarkosningar 23. maí 1998

Hreinn Guðnason                                                  8. júlí 1998                                                         98060066

Hofteigi, Arnarneshreppi                                                                                                                           1022

601 Akureyri

            

 

 

 

 

             Þann 8. júlí 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 18. júní 1998, sem barst ráðuneytinu þann 19. sama mánaðar, hefur Hreinn Guðnason, Hofteigi, Arnarneshreppi, skotið til ráðuneytisins úrskurði, dagsettum 12. júní 1998, sem nefnd skv. 1. málslið 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 kvað upp um gildi sveitarstjórnarkosninga í Arnarneshreppi þann 23. maí 1998. Úrskurðinum er skotið til ráðuneytisins með heimild í 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

 

             Með bréfi, dagsettu 23. júní 1998, til sýslumannsins á Akureyri óskaði ráðuneytið eftir að fá send þau gögn er nefndin byggði úrskurð sinn á. Gögnin bárust ráðuneytinu þann 24. júní 1998.

 

I.          Málavextir og málsástæður.

 

             Með bréfi, dagsettu 29. maí 1998, kærði Hreinn Guðnason sveitarstjórnarkosningar þær sem fram fóru í Arnarneshreppi þann 23. maí 1998. Kæran barst sýslumanninum á Akureyri sama dag. Samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 skipaði sýslumaður þann 3. júní 1998 nefnd, sem þann 12. júní 1998 kvað upp úrskurð sinn að fenginni umsögn kjörstjórnar Arnarneshrepps, sbr. áðurnefnda lagagrein. Niðurstaða nefndarinnar var sú að hafnað var kröfu kæranda.

 

             Nefndin lýsti málavöxtum og rökstuddi niðurstöðu sína með eftirfarandi hætti:

 

             “Kærandi, Hreinn Guðnason, Hofteigi, Arnarneshreppi, krefst þess að kosningarnar í Arnarneshreppi verði úrskurðaðar ógildar með vísan til eftirtalinna atriða:

“1.     Ekki var dyravörður á kjörstað. þess vegna voru oft of margir í húsinu og hætta var á samráði um kosninguna, enda komu óeðlilega margir kjörseðlar eins eða svipaðir fram.

2.       Formaður kjörstjórnar var ekki í sveitarfélaginu þann dag sem frestur til að skila framboðum rann út, og ekki var auglýst um að aðrir tækju við framboðum ef þau kæmu fram. því var ekki hægt að bjóða fram lista til sveitarstjórnar og kosningar urðu því óbundnar.

3.      Ekki var auglýst fyrr en á kjörstað að einn sveitarstjórnarmaður gæfi ekki kost á sér.“

*****

             Í svari kjörstjórnar Arnarneshrepps sem kjörnefnd barst 8. júní sl. kemur m.a. fram:

1.      Kjörstjórn kveðst ekki hafa talið þörf á sérstökum dyraverði við þessar kosningar, frekar en undangengna áratugi. Tekið er fram að kjörstjórn hafi setið í sérstöku herbergi og kallað kjósanda inn um leið og kjörklefi losnaði. Fullt næði hafi verið í herbergi kjörstjórnar og í kjörklefa.

2.      Auðvelt hefði verið að leggja fram framboðslista, hefði slíkt staðið til, þar sem tveir kjörstjórnarmenn hefðu verið heima við þann dag sem frestur rann út og heimili formanns hafi síður en svo verið mannlaust, þótt hann væri sjálfur að heiman.

3.      Formleg auglýsing um að einn sveitarstjórnarmaður gæfi ekki kost á sér hefði verið birt á kjörstað á kjördag, svo sem hefð sé fyrir. Fullyrða megi að í svo litlu sveitarfélagi hafi öllum íbúum sveitarinnar verið kunnugt um ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnarmanns fyrir kjördag, enda hafi hann ekkert atkvæði fengið, hvorki á kjörfundi né utan hans.

*****

             Þrátt fyrir ákvæði 53. gr. laga nr. 5/1998 telur kjörnefnd það ekki valda ógildingu kosninga þótt kjörstjórn annist sjálf dyravörslu og gæti reglu á kjörstað, ef aðstæður leyfa.

             Ekkert liggur fyrir um að fyrirhugað hafi verið að leggja fram framboðslista í Arnarneshreppi, hvað þá að árangurslaust hafi verið reynt að koma honum til kjörstjórnar.

             Þrátt fyrir ákvæði 18. gr. l. nr. 5/1998 er það álit kjörnefndar, að það hafi engin áhrif haft á úrslit kosninganna að einn sveitarstjórnarmaður tilkynnti ekki formlega fyrr en á kjörfundi að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi setu í sveitarstjórn - enda fékk hann ekkert atkvæði.

             Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til umsagnar kjörstjórnar Arnarneshrepps verður kröfu kæranda hafnað.“

 

          Kærandi telur að fella beri úrskurð nefndarinnar úr gildi og rökstyður þá kröfu með eftirfarandi hætti:

             “... I. atriði. Athugasemd er gerð við þetta svar þar sem í sveitarstjórnarlögum segir að skylt sé að hafa dyravörð sbr. sveitarstjórnarlög 54. grein.

             ... kæruatriði nr. II ... Athugasemd er gerð við þetta svar og einnig svar kjörnefndar: Sjá blað III. Í svari kjörstjórnar kemur fram að hægt hafi verið að leggja fram lista hjá 2 kjörstjórnarmönnum sem hafi verið heima. Þann 02.05.98 þegar búið var að athuga hverjir væru hugsanlega í kjörstjórn, kom í ljós að sá fyrsti sem talað var við var að fara í hjartaaðgerð og væri því forfallaður. Næstu 2 sem talað var við voru ekki vissir um hvort þeir væru í kjörstjórn. Þegar þetta lá ljóst fyrir var sá tími sem gefinn er til að skila framboðslista liðinn og ekki talin ástæða til að leggja hann fram of seint.

             Athugasemd við kæruatriði nr. III er ítrekuð ... Vitað er um einstakling sem hvorki vissi um að viðkomandi sveitarstjórnarmaður gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi setu eða sá auglýsinguna á kjörstað.“

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Um framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna í Arnarneshreppi þann 23. maí 1998 giltu lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Kosningarnar í sveitarfélaginu voru óbundnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna.

 

             Í 54. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna er kveðið á um að kjörstjórn skuli, áður en atkvæðagreiðsla hefst, skipa til dyravörslu einn mann eða fleiri sem skiptast á. Tilgangurinn með slíku ákvæði er að tryggja að regla haldist á kjörstað og að ekki séu of margir inni í kjörfundarstofu á meðan á kjörfundi stendur. Ábyrgðin á því að regla haldist á kjörstað og í kjörfundarstofu er hins vegar á herðum kjörstjórnar.

 

             Að mati ráðuneytisins hefur ekki verið sýnt fram á í gögnum málsins, að þar sem að dyravörður hafi ekki verið skipaður, hafi framkvæmd kjörfundar riðlast, til dæmis með því að ekki hafi verið nægilegt næði fyrir kjósanda í kjörfundarstofu. Verður ekki annað ráðið af gögnunum en að kjörstjórnin hafi sjálf annast dyravörsluna. Vegna ummæla í kæru um þetta atriði er rétt að taka fram að ekki hefur heldur verið sýnt fram á það í gögnum málsins að á kjörstað hafi verið brotið gegn ákvæðum 92. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna varðandi óleyfilegan kosingaáróður.

 

             Í auglýsingu frá félagsmálaráðuneytinu um almennar sveitarstjórnarkosningar þann 23. maí 1998, sem birt var í dagblöðum kom fram að framboðsfrestur rynni út á hádegi þann 2. maí 1998 og að framboðum skyldi skila til yfirkjörstjórnar í viðkomandi sveitarfélagi.

 

             Í lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 er ekki að finna bein lagaákvæði sem skylda yfirkjörstjórnir til að auglýsa hvar skila megi framboðslistum. Hins vegar verður að telja slíkt góða stjórnsýsluhætti og í raun eðlilega til að auðvelda íbúum sveitarfélagsins að skila inn framboðum ef vilji er til þess.

 

             Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að gerð hafi verið tilraun til þess að skila inn formlegum framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Arnarneshreppi þann 23. maí sl.

 

             Í 3. mgr. 32. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 er svohljóðandi ákvæði: “Nú fer óbundin kosning fram, framboðsfrestur framlengist samkvæmt ákvæðum 29. gr. eða maður skorast undan endurkjöri skv. 18. gr. og skal þá yfirkjörstjórn auglýsa það með sama hætti og framboð.“ Í 1. mgr. sömu greinar segir að kjörstjórn skuli gera framboð kunn almenningi “með auglýsingu sem birt er á sama hátt og á hverjum stað er títt að birta opinberar auglýsingar.“

 

             Af gögnum málsins verður ráðið að kjörstjórn í Arnarneshreppi hafi ekki strax að loknum framboðsfresti auglýst sérstaklega að kosning yrði óbundin í sveitarfélaginu og að tiltekinn einstaklingur hefði skorast undan kosningu eins og ákvæði 3. mgr. 32. gr. laganna kveða á um.

 

             Í 94. gr. laga nr. 5/1998 er svohljóðandi ákvæði:

             “Gallar á framboði eða kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“

 

             Ljóst er af því sem að framan greinir að kjörstjórn Arnarneshrepps gætti ekki að öllu leyti fyrirmæla laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 við framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna þann 23. maí 1998 og er það aðfinnsluvert. Þeir ágallar eru þó ekki slíkir að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna, enda er ekki sýnt fram á að kjósendur hafi ekki haft næði inni í kjörfundarstofu eða að tilraun hafi verið gerð til að leggja fram framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Þá verður ennfremur að líta til þess að sá einstaklingur sem skoraðist undan kosningu fékk engin atkvæði við kosninguna.

 

             Með vísan til alls framangreinds ber að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Úrskurður nefndar, sem skipuð var af sýslumanninum á Akureyri þann 3. júní 1998, dagsettur 12. júní 1998, er staðfestur.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Afrit:   Sýslumaðurinn á Akureyri

             Hreppsnefnd Arnarneshrepps

             Kjörstjórn Arnarneshrepps

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum