Hoppa yfir valmynd
31. júlí 1998 Innviðaráðuneytið

Gerðahreppur - Úrskurður um sveitarstjórnarkosningar 23. maí 1998

Guðmundur Árni Sigurðsson                              31. júlí 1998                                                       98060058

Hólavöllum                                                                                                                                                   1022

250 Garði

 

 

 

 

 

             Þann 31. júlí 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 16. júní 1998, kærði Guðmundur Árni Sigurðsson, Hólavöllum, Garði, til félagsmálaráðuneytisins úrskurð, dagsettan 11. júní 1998, sem nefnd skv. 1. málslið 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 kvað upp um atriði sem varða framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Gerðahreppi þann 23. maí 1998. Úrskurðinum er skotið til ráðuneytisins með heimild í 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

 

             Ráðuneytið óskaði eftir með bréfi, dagsettu 18. júní 1998, til sýslumannsins í Keflavík eftir að afrit af öllum gögnum sem varða rannsókn framangreindrar nefndar á málinu yrðu send ráðuneytinu. Gögnin bárust ráðuneytinu þann 19. júní 1998.

 

I.          Málsatvik og málsástæður.

 

             Með bréfi, dagsettu 29. maí 1998, kærði Guðmundur Árni Sigurðsson, Hólavöllum, Garði, atriði sem varða framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna í Gerðahreppi sem fram fóru þann 23. maí 1998.

 

             Niðurstaða kosninganna var sú að F-listi fékk 300 atkvæði og fjóra menn kjörna, H-listi fékk 146 atkvæði og tvo menn kjörna, I-listi fékk 145 atkvæði og einn mann kjörinn og L-listi fékk 50 atkvæði og engan mann kjörinn. Auðir og ógildir seðlar voru 18.

 

             Kæran barst sýslumanninum í Keflavík þann 29. maí 1998. Þar sem kæran lýtur að störfum sýslumannsins í Keflavík vék hann þegar sæti sem sýslumaður hvað meðferð kærunnar snerti. Með tilvísun í 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fór sýslumaður þess á leit við dómsmálaráðuneytið að það setti annan sýslumann til að fara með mál þetta.

 

             Með bréfi, dagsettu 2. júní 1998, setti dómsmálaráðuneytið Guðmund Sophusson til að gegna embætti sýslumanns í Keflavík til að fara með kæru Guðmundar Árna Sigurðssonar. Guðmundur Sophusson skipaði þann 3. júní 1998 nefnd á grundvelli 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Nefndin kvað upp úrskurð sinn þann 11. júní 1998 að fenginni umsögn yfirkjörstjórnar Gerðahrepps.

 

             Niðurstaða nefndarinnar var eftirfarandi: “Niðurstöður kosninga til sveitarstjórnar í Gerðahreppi sem fram fóru þann 23. maí 1998 skulu óbreyttar standa.“

 

             Nefndin lýsti málavöxtum með eftirfarandi hætti:

             “Krafa kæranda um að kosningin verði úrskurðuð ógild byggir á því, að við talningu hafi kjörstjórn úrskurðað ógilt utankjörfundaratkvæði sem barst frá sýslumanninum í Keflavík, en fylgibréfi kjörseðils var þeim annmarka háð að kjörstjóri hafði ekki vottað atkvæðagreiðsluna. Kærandi telur að mistök kjörstjóra í þessu tilviki eigi ekki að leiða til þess að atkvæðið komist ekki að við kosninguna, enda hefði kjörstjórn getað látið nægja í þessu tilviki að vísa til skráningar í utankjörfundarskrá er hefur að geyma upplýsingar um að viðkomandi kjósandi hafi kosið á tilteknum tíma á skrifstofu sýslumanns.

             Krafa kæranda um endurtalningu er ekki sérstaklega rökstudd.

             Krafa kæranda að höfð verði hliðsjón af því að formaður yfirkjörstjórnar, Guðrún Ágústa Sigurðardóttir sé vanhæf byggir á því að eiginmaður hennar var í framboði á H-lista.“

 

             Um sjónarmið yfirkjörstjórnar Gerðahrepps segir meðal annars “að við talningu hafi hið umdeilda utankjörfundaratkvæði, sem hefði að geyma þann annmarka að atkvæðagreiðslan var ekki vottuð af kjörstjóra, eins og áskilið er í lögum, verið lagt aftur í sendiumslagið ásamt fylgibréfinu og það ekki tekið til greina við kosninguna. Vísar kjörstjórnin varðandi málsmeðferð, í þessu sambandi, til 1. mgr. 68. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Um niðurstöðu þessa var enginn ágreiningur í kjörstjórninni og gerðu umboðsmenn listanna, er voru viðstaddir talningu, ekki athugasemdir við þessa málsmeðferð. Í umsögn kjörstjórnar er því hafnað að aðrar leiðir hafi verið til að votta atkvæðagreiðsluna þar sem lagafyrirmæli um annars konar vottun séu ekki fyrir hendi samkvæmt kosningalögum.

             Í umsögn kjörstjórnar er ekki efnislega fjallað um kröfu kæranda um endurtalningu.

             Kjörstjórn hafnar því að fyrir hendi hafi verið atvik er hafi getað leitt til vanhæfis formanns kjörstjórnar. Bendir kjörstjórn í því sambandi á, að vanhæfi kjörstjórnarmanna vegna skyldleika komi því aðeins til álita í þeim tilvikum sem ágreiningsmál innan kjörstjórnar eru tekin til úrskurðar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 5/1998.“

 

             Nefndin rökstuddi síðan niðurstöðu sína með eftirfarandi hætti:

             “Í upphafi þykir rétt að fjalla um hugsanlegt vanhæfi formanns yfirkjörstjórnar vegna framboðs maka. Vísast þar um til 2. mgr. 16 gr. laga um koningar til sveitarstjórna. Af gerðabók yfirkjörstjórnar verður hvergi séð, að nokkurt það mál er varðar maka formanns kjörstjórnar hafi komið til úrskurðar. Verður því ekki séð að neitt tilefni hafi gefist til þess að formaður kjörstjórnarinnar viki sæti vegna þessara tengsla.

             Kjörnefndin hefur skoðað sérstaklega gögn hins umdeilda atkvæðis, sem greitt var utan kjörfundar hinn 19. maí sl. á skrifstofu sýslumannsins í Keflavík. Fyrir liggur að kjósandi var Kristín Richardsdóttir, kt. 151166-3859, Klapparbraut 7, Garði og er nafn kjósandans sannanlega á kjörskrá. Fylgibréfið er fyllt út og undirritað af kjósanda en atkvæðagreiðslan er ekki vottuð af kjörstjóra eins og áskilið er í 2. mgr. 66. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 80/1987 með síðari breytingum en ákvæði þeirra laga um utankjörfundarkosningu eiga við í þessu sambandi, sbr. 4. mgr. 43. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.

             Telja verður að framangreindur ágalli á utankjörfundaratkvæðinu sé þess eðlis, að við atkvæðagreiðsluna hafi ekki verið farið eftir þeim reglum sem í kosningarlögum eru settar. Sú ákvörðun kjörstjórnar Gerðahrepps að leggja kjörseðilsumslagið aftur í sendiumslagið og láta það ekki koma frekar til greina við kosninguna var því réttmæt, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 68. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Ekki verður séð að umboðsmenn lista sem viðstaddir voru talningu hafi mótmælt þessari málsmeðferð, sbr. til hliðsjónar ákvæði 1. mgr. 81. gr. sömu laga.

             Við nánari skoðun á atkvæðaseðlum sem kjörstjórn hefur metið ógild má sjá að svo hefur verið gert í þeim tilvikum þegar krossað hefur verið fyrir ofan ramma, sem listabókstafur og heiti framboðsins er í og er krossinn nánast beint fyrir ofan listabókstaf. Með vísan til ákvæða 78. gr. og 79. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna verður að telja umdeilanlegt að um ógild atkvæði hafi verið að ræða. Málsmeðferð þessi hefur ekki verið kærð og ekki verður séð af gerðabók kjörstjórnar að ágreiningur hafi orðið um gildi atkvæðanna. Koma þau því ekki til frekari afskipta kjörnefndar. Kjörnefnd vekur þó athygli á því, að hefðu atkvæðin verið metin gild hefði hið umdeilda utankjörfundaratkvæði ekki haft áhrif á niðurstöðu kosninganna.

 

             Fallist er á kröfu kæranda um endurtalningu að öðru leyti en því, að ekki er fallist á að telja með gildum atkvæðum hið umdeilda utankjörfundaratkvæði, enda væri með því upplýst um afstöðu þess kjósanda. Slíkt samrýmist ekki þeirri meginreglu að kosningarnar eigi að vera leynilegar.

             Talin eru öll þau atkvæði, sem ekki hafa verið úrskurðuð ógild af yfirkjörstjórn Gerðahrepps. Í ljós kemur að rétt hefur verið talið.

             Samkvæmt framansögðu er það álit kjörnefndar að ekki beri að verða við aðalkröfu kæranda í máli þessu um ógildi kosninga. Endurtalning atkvæða breytir engu um niðurstöðu kosninganna.“

 

             Eins og fram hefur komið kærði Guðmundur Árni Sigurðsson úrskurðinn til ráðuneytisins þann 16. júní 1998. Kærandi ítrekar þar kröfur sínar um að kosningin í heild verði úrskurðuð ógild og fram fari ný kosning til sveitarstjórnar í Gerðahreppi. Jafnramt að fram fari endurtalning allra greiddra atkvæða í kosningunni og að hliðsjón verði höfð af því að formaður kjörstjórnar í kosningunum 23. maí 1998, Guðrún Ágústa Sigurðardóttir, er eiginkona Karls Njálssonar sem var í framboði fyrir H-lista.

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Um kosningar í Gerðahreppi þann 23. maí 1998 gilda lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Samkvæmt 4. mgr. 43. gr. fer um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eftir lögum um kosningar til Alþingis nr. 80/1987 eftir því sem við á.

 

             Í 2. mgr. 66. gr. laga um kosningar til Alþingis segir meðal annars: “Því næst áritar og undirritar kjósandi fylgibréfið í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna.“ Er það því lögbundið skilyrði að kjörstjóri votti atkvæðagreiðslu og undirritun kjósanda sem kýs utan kjörfundar.

 

             Í 68. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna segir hvernig fara skuli með utankjörfundaratkvæði þegar atvikum er svo háttað sem þar greinir, þar á meðal ef ekki er farið eftir reglum laga um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Í slíkum tilvikum ber kjörstjórn að leggja atkvæðið til hliðar og kemur það þá ekki frekar til greina við kosninguna.

 

             Með vísan til framangreindra lagaákvæða og fyrri afstöðu ráðuneytisins í úrskurðum frá 3. og 27. júlí 1990 telur ráðuneytið að sú ákvörðun kjörstjórnar Gerðahrepps að úrskurða umrætt atkvæði ógilt hafi verið í samræmi við lög um kosningar til Alþingis, sbr. lög um kosningar til sveitarstjórna. Rétt er að taka sérstaklega fram að lögin gera ekki greinarmun á því hvort kjörstjóri utan kjörfundar hefur gert mistök eða viðkomandi kjósandi.

 

             Um vanhæfi formanns yfirkjörstjórnar vegna framboðs maka er niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest með vísan til röksemda nefndarinnar.

 

             Við meðferð málsins í ráðuneytinu voru að beiðni kæranda endurtalin þau atkvæði sem greidd voru í sveitarstjórnarkosningum í Gerðahreppi þann 23. maí 1998. Kom þá í ljós að kjörstjórn hafði úrskurðað ógild átta atkvæði þar sem kross var á kjörseðli fyrir ofan bókstaf viðkomandi lista og að hluta eða öllu leyti fyrir utan þann ramma sem settur var utan um listann.

 

             Á grundvelli rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 telur ráðuneytið rétt að skoða þau atkvæði sem yfirkjörstjórn Gerðahrepps hafði úrskurðað ógild. Er það einkum gert í ljósi þess að málsatvik sem hafa augljóslega þýðingu við úrlausn tiltekins máls verður ávallt að rannsaka nánar af hinu æðra stjórnvaldi svo hægt verði að taka efnislega rétta ákvörðun. Verður að telja eins og á stóð að hin umræddu átta atkvæði hafi getað skipt máli um niðurstöður kosninganna, enda munaði einungis einu atkvæði á tveimur listanna sem bornir voru fram.

 

             Í lögum um kosningar til sveitarstjórna er ákvæði um hvernig kjósandi eigi að bera sig að er hann greiðir atkvæði á kjörfundi. Í 58. gr. laganna segir meðal annars svo: “Kjósandi greiðir atkvæði við bundnar hlutfallskoningar á þann hátt að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru.“

 

             Í 78. gr. laganna eru síðan talin upp tilvik þar sem meta skal atkvæði ógild. Í ljósi þess að kosningaréttur telst til mikilvægra grundvallarréttinda einstaklinga og þess að mikilvægt er að vilji kjósanda sé hafður að leiðarljósi, að svo miklu leyti sem formreglur leyfa, er heimilt skv. 79. gr. laganna að meta atkvæði gilt þótt ekki hafi verið farið eftir ákvæði 58. gr. laganna um hvar kross skuli markaður á kjörseðil. Segir meðal annars í ákvæðinu að atkvæði skuli ekki meta ógilt “þó að gallað sé ef greinilegt er hvernig það á að falla, nema augljóslega komi í bága við framangreind ákvæði. Þannig skal taka gilt atkvæði þó að ekki sé merkt framan við listabókstafinn, en t.d. aftan við hann, þó að kross sé ólögulegur, þó að á utankjörfundarseðli fylgi orðið listi listabókstaf að óþörfu, þó að í stað listabókstafs standi heiti stjórnmálasamtaka o.s.frv.“

 

             Þó að kross sé skráður ofan við þann ramma, sem listabókstafur og heiti framboðslista er í og krossinn er greinilega fyrir ofan tiltekinn lista, telur ráðuneytið að það valdi ekki ógildi atkvæðis ef augljóst er í hlut hvaða framboðslista atkvæðið á að falla. Í framangreindum átta tilvikum telur ráðuneytið að ekki leiki vafi á hver vilji hvers kjósanda var. Með vísan til þess er það niðurstaða ráðuneytisins að umrædd átta atkvæði skuli teljast gild atkvæði í sveitarstjórnarkosningum í Gerðahreppi sem fram fóru þann 23. maí 1998. Eru þau því tekin til greina við talningu atkvæða í sveitarstjórnarkosningum í Gerðahreppi þann 23. maí 1998 og er niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna því sú að F-listi hlaut 305 atkvæði, H-listi hlaut 148 atkvæði, I-listi hlaut 146 atkvæði og L-listi hlaut 50 atkvæði. Auðir seðlar voru sjö og ógildir seðlar voru þrír.

 

             Í 94. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna segir svo: “Gallar á framboði eða kosningu leiða ekki til ógildingar kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.“  Þessi annmarki á talningu atkvæða í sveitarstjórnarkosningum í Gerðahreppi hafði hvorki áhrif á hvaða listar fengu kjörna fulltrúa í sveitarstjórn né fjölda þeirra. Verður því ekki talið að þessi galli hafi haft áhrif á úrslit kosninganna sem fram fóru í Gerðahreppi þann 23. maí 1998. Með vísan til 94. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna og rökstuðnings að öðru leyti í hinum kærða úrskurði ber að staðfesta niðurstöðu hans.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Úrskurður nefndar, sem skipuð var af settum sýslumanni í Keflavík þann 3. júní 1998, dagsettur 11. júní 1998, er staðfestur.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

 

Afrit:   Sýslumaðurinn í Keflavík.

             Settur sýslumaður Guðmundur Sophusson.

             Hreppsnefnd Gerðahrepps.

             Kjörstjórn Gerðahrepps.

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum