Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2002 Innviðaráðuneytið

Tálknafjarðarhreppur - Úrskurður um sveitarstjórnarkosningar 25. maí 2002.

Fulltingi ehf. lögfræðiþjónusta     11. júlí 2002     FEL02060030/1022

Stefán Þór Ingimarsson, hdl.

Suðurlandsbraut 18

108 REYKJAVÍK

 

Hinn 11. júlí 2002 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

 

úrskurður:

 

Með erindi, dags. 20. júní 2002, hefur Níels Adolf Ársælsson, Skógum, Tálknafirði, skotið til ráðuneytisins úrskurði, dags. 14. júní 2002, sem kveðinn var upp af nefnd sem skipuð var af sýslumanni til að fjalla um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Tálknafjarðarhreppi, sbr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.

 

Fram kemur í kærunni að kosning í Tálknafjarðarhreppi átti að vera óbundin þar sem engir framboðslistar komu fram fyrir lok framboðsfrests, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998. Skömmu fyrir kjördag hafi hins vegar komið í ljós að í reynd væri um listakosningu að ræða því gengið hafi verið með leynd í hús á Tálknafirði með lista sem á voru nöfn fimm einstaklinga sem skorað var á kjósendur að greiða atkvæði sitt. Allir þeir sem á listanum voru náðu kjöri sem aðalmenn.

 

Kærandi telur að með framangreindum hætti hafi verið brotið gegn ríkri meginreglu laga nr. 5/1998 um óbundnar kosningar. Hefði framboðslisti komið fram innan framboðsfrests hefði kjörstjórn framlengt framboðsfrest um tvo sólarhringa í samræmi við 29. gr. laganna. Þar með hefðu aðrir íbúar sveitarfélagsins getað gert það upp við sig hvort eðlilegt væri að stilla upp nýjum framboðslista á móti þeim sem kynntur hafði verið. Telur kærandi að með því að bindast samtökum um listakosningu, án þess að leggja fram formlegan framboðslista, hafi verið brotið freklega gegn rétti íbúa Tálknafjarðarhrepps og eigi það eitt og sér að leiða til þess að kosningin verði úrskurðuð ólögmæt enda staðið með óheiðarlegum hætti að kjörinu.

 

Jafnframt telur kærandi að unnið hafi verið með skipulegum hætti að flutningi kjósenda á kjörstað. Hafi að minnsta kosti einn atvinnurekandi lagt að starfsmönnum sínum, þar á meðal erlendum ríkisborgurum með atkvæðisrétt hér á landi, að neyta atkvæðisréttar og greiða atkvæði með ákveðnum hætti, þ.e. með því að kjósa áðurgreinda fimm einstaklinga í sveitarstjórn. Um sé að ræða uþ.b. tuttugu Pólverja sem ekki séu talandi á íslensku, en þeir séu u.þ.b. 10% af atkvæðisbærum mönnum í sveitarfélaginu. Telur kærandi að þessi háttsemi brjóti gegn a-lið 1. mgr. 92. gr. laga nr. 5/1998, enda felist í henni ógnun atvinnurekanda gagnvart starfsmönnum sínum, sem megi jafna við umrætt ákvæði.

 

Kærandi krefst þess að úrskurður kjörnefndar, dags. 14. júní 2002, verði ógiltur og að lagt verði fyrir sveitarstjórn og kjörstjórn Tálknafjarðarhrepps að boða til uppkosninga í sveitarfélaginu.

 

Með símbréfi, dags. 25. júní 2002, óskaði ráðuneytið umsagnar kjörstjórnarinnar í Tálknafjarðarhreppi varðandi fullyrðingar sem fram koma í greinargerð kæranda, dags. 13. júní 2002. Þar fullyrðir kærandi að nafngreindur einstaklingur, Guðni Ólafsson, hafi á kjördag staðið við innganginn á kjörstað og afhent völdum kjósendum lista með nöfnum tíu einstaklinga. Óskaði ráðuneytið álits kjörstjórnar og dyravarðar á því hvort þessi fullyrðing kæranda ætti við rök að styðjast.

 

Í svari kjörstjórnar kemur eftirfarandi meðal annars fram:

„Kjörstjórn Tálknafjarðarhrepps vill taka eftirfarandi fram varðandi framkvæmd kosninganna. Kjörstjórn réð tvo dyraverði til að annast dyravörslu á kjörstað. Nöfn þeirra eru Gísli Sólberg Sigurðsson og Guðni Ólafsson. Gísli sá um dyravörslu frá kl. 10.00 til 14.00 á kjördag en þá tók Guðni við og var í dyravörslu til loka kjörfundar kl. 18.30. Eina blaðið sem kjörstjórn varð vör við var hvítt A4 blað þar sem dyraverðir merktu inn á fjölda þeirra sem mættu á kjörstað þ.e. eitt strik fyrir hvern einstakling sem fór inn en engin nöfn voru rituð á blaðið.

 

Kjörstjórn kallaði á fund sinn Guðna Ólafsson sem sá um dyravörslu á kjörstað og bar undir hann þessar fullyrðingar sem fram koma í “skýrslu” Níelsar. Guðni þvertók fyrir þessar ásakanir og tjáði kjörstjórn að eina blaðið sem hann hafði um hönd á kjörstað var A4-blað sem Gísli hefði afhent honum þegar hann kom til að leysa hann af. Á blaðinu voru einungis strik fyrir hvern einstakling sem mætt hefði á kjörstað fram að kl. 14.00 engin nöfn.“

 

I.          Úrskurður nefndar skv. 93. gr. laga nr. 5/1998

Með bréfi, dags. 31. maí 2002, barst sýslumanninum á Patreksfirði kæra Níelsar Adolfs Ársælssonar vegna sveitarstjórnarkosninga í Tálknafjarðarhreppi sem fram fóru 25. maí 2002. Með bréfi, dags. 1. júní 2002, skipaði sýslumaður nefnd til að úrskurða um kæruna. Í nefndina voru skipaðir héraðsdómslögmennirnir Björn Jóhannesson og Tryggvi Guðmundsson og Óli M. Lúðvíksson, skrifstofustjóri. Nefndin úrskurðaði á þann veg að úrslit kosninganna skyldu standa óbreytt. Nefndin lýsti málavöxtum og rökstuddi niðurstöðu sína með eftirfarandi hætti:

 

„Kjörnefnd leitaði umsagnar kjörstjórnar Tálknafjarðarhrepps við kærunni, sbr. 2. mgr. 93. laga nr. 5/1998, með bréfi, dags. 3. júní 2002. Umsögn kjörstjórnar barst kjörnefnd 10. júní 2002. Í umsögn kjörstjórnar segir orðrétt:

 

,,Kjörfundur hófst kl. 10.00 í grunnskóla Tálknafjarðar og stóð til klukkan 18.30. Kjörstjórn varð ekki vör við að neinum kosningaáróðri væri haldið fram á kjörstað og fór kosningin vel fram. Kjörstjórn dreifði leiðbeiningarbæklingi í öll hús til að kynna óbundna kosningu. Í bæklingnum voru beinar tilvitnanir í greinar sem snéru að óbundnum kosningum skv. lögum um kosningar til sveitarstjórna lög nr. 5/1998. Einnig voru sendir út bæklingur nýbúa á mörgum tungumálum sem félagsmálaráðuneytið lét útbúa. Á kjörstað voru upplýsingar um óbundna kosningu festar upp á vegg, á íslensku, ensku og pólsku.

 

Lýsing á aðdraganda kosninga frá sjónarhóli fulltrúa í kjörstjórn: Oddvitar 3ja stærstu framboðanna frá því í kosningunum 1998 sendu út dreifibréf í apríl s.l. þar sem lagt var til að kosið yrði óbundið í kosningunum 25. maí 2002. Ákveðið var að þeir sem hefðu áhuga á setu í hreppsnefnd myndu setja nafn sitt í kassa sem hafður var í Sparisjóðnum á Tálknafirði. Upp úr kassanum komu 12 nöfn og voru þau send út í dreifibréfi 2. maí s.l. Enginn framboðslisti barst kjörstjórn fyrir tilskilinn frest 4. maí og því ljóst að kosið yrði óbundið. Vikuna fyrir kosningar byrjuðu bréf að berast í hús frá frambjóðendum og 23. maí var síðan haldinn framboðsfundur á Hópinu þar sem fram komu þeir sem hefðu hug á því að starfa í hreppsnefnd. Á þeim fundi var búið að fjölga þó nokkuð þeim sem höfðu hug á því að starfa í hreppsnefnd. Kosningarnar fóru síðan fram eins og áður er greint.

 

Varðandi þann hluta kærunnar sem snýr að fullyrðingu um að listakosning hafi átt sér stað hér í Tálknafirði skal það tekið fram að í leiðbeiningum sem kjörstjórn sendi frá sér var ekki tekið fram að óheimilt væri fyrir einstaklinga að tjá sig um með hverjum þeir gætu hugsað sér að starfa með, enda ómögulegt að sjá þá meiningu í lögunum.

 

Varðandi þann hluta sem snýr að skipulögðum flutningi kjósenda á kjörstað og hugsanlega ógnun við þá kjósendur getur kjörstjórn ekki dæmt um enda innandyra á kjörstað. Kjósendum er mjög víða boðið upp á akstur á kjörstað að því er kjörstjórn best veit. Kjósendur gera síðan upp hug sinn í kjörklefanum með þá vitneskju að enginn muni geta fundið út hverjum hann greiðir atkvæði sitt. “

 

Í kæru kom fram áskilnaður um að leggja fram frekari gögn og skýringar við fyrirtöku kærunnar í kjörnefnd. Í ljósi þessa áskilnaðar ákvað kjörnefndin að gefa kæranda kost á að koma að frekari gögnum og skýringum vegna málsins og var kæranda sent bréf þar að lútandi 4. júní 2002 og veittur frestur til 11. júní 2002. Sá frestur var síðan framlengdur til kl. 16.00, 13. júní s.l. Innan tilskilins frests lagði kærandi fram yfirlýsingar frá sjö einstaklingum í Tálknafjarðarhreppi, þar sem þeir lýstu þeirri skoðun sinni að fram hefði komið ákveðinn framboðslisti í sveitarfélaginu nokkrum dögum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 25. maí s.l. Kærandi lagði einnig fram greinargerð (skýrslu) vegna málsins ásamt fylgiskjölum. Í greinargerðinni lýsir kærandi aðdraganda kosninganna og þeim framboðsfundi sem haldinn var á veitingastaðnum Hópinu í Tálknafirði þann 23. maí s.l. eins og fundurinn kom honum fyrir sjónir. Kærandi ítrekaði fyrri sjónarmið sín í málinu.

 

Niðurstaða:

Þar sem enginn framboðslisti barst kjörstjórn Tálknafjarðarhrepps áður en framboðsfresti lauk var kosning til sveitarstjórnar í hreppnum þann 25. maí s.l. óhlutbundin. Allir kjósendur í sveitarfélaginu voru því í kjöri nema þeir sem löglega voru undanþegnir þeirri skyldu að taka kjöri og höfðu fyrirfram skorast undan kjöri, sbr. b. liður 1. mgr. 19. gr. laga nr. 5/1998. Kjósendum í sveitarfélaginu var því fullljóst eftir að framboðsfresti lauk þann 4. maí s.l. að kosningarnar yrðu óhlutbundnar. Kjósendum í sveitarfélaginu mátti einnig vera það ljóst að ekki væri óeðlilegt að áróður yrði fyrir kosningarnar með og á móti ákveðnum einstaklingum, ekki síst í ljósi þess að kosningin var óhlutbundin. Ljóst er af fyrirliggjandi gögnum að fyrir kosningarnar fór á milli kjósenda í sveitarfélaginu dreifibréf og áskoranir er snertu einstaklinga, sem höfðu lýst yfir vilja sínum til að starfa í sveitarstjórn á komandi kjörtímabili. Ekki verður talið að þessar áskoranir eða tilmæli hafi verið í andstöðu við ákvæði laga nr. 5/1998 né gegn þeim meginreglum sem gilda um óhlutbundnar kosningar. Einnig liggur það fyrir að haldinn var fundur í sveitarfélaginu þar sem áhugasamir einstaklingar lýstu yfir vilja sínum til starfa í sveitarstjórn.

 

Ekki er að finna í lögum nr. 5/1998 ákvæði er banna áskoranir til kjósenda við óhlutbundnar kosningar að kjósa ákveðna einstaklinga að því gefnu að slíkar áskoranir séu innan þeirra marka að um löglegan kosningaáróður sé að ræða. Ekki er heldur að finna í lögunum bann við því að þeir sem í kjöri eru við óhlutbundnar kosningar lýsi yfir vilja sínum í því efni með hvaða einstaklingum í sveitarfélaginu þeir vilja helst starfa í sveitarstjórn nái þeir kjöri. Áskoranir til kjósenda um að kjósa ákveðna einstaklinga saman í sveitarstjórn verður heldur ekki talið vera í andstöðu við ákvæði laga nr. 5/1998. Í slíkum tilvikum er um að ræða áskoranir um að kjósa ákveðna einstaklinga en ekki lista. Ekki verður talið að í því felist brot á þeim reglum er gilda um óhlutbundnar kosningar.

 

Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að sýnt hafi verið fram á að óheiðarlega hafi verið staðið að kjöri þeirra sem kosningu hlutu í sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps í kosningunum 25. maí s.l. 

 

Ekkert er fram komið í málinu um að óleyfilegur kosningaáróður hafi verið viðhafður fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Tálknafjarðarhreppi 25. maí s.l. Kærandi hefur ekki fært sönnur fyrir því að ákvæði a. liðar 1. mgr. 92. gr. laga nr. 5/1998 hafi verið brotin. Ekkert hefur heldur komið fram er styður þá fullyrðingu kæranda að kjósendum hafi verið ógnað með þeim hætti sem jafna megi við ákvæði fyrrnefndrar lagagreinar. Hafi verið um skipulegan akstur að ræða með kjósendur á kjörstað eða tilmæli frá einstaklingum til kjósenda að nýta kosningarétt sinn, þá er það ekki í andstöðu við ákvæði a. liðar 1. mgr. 92. gr. laga nr. 5/1998. Ekki hafa verið færðar sönnur fyrir því að kjósendum hafi verið hótað eða beittir þvingunum í því skyni að kjósa ákveðna einstaklinga í sveitarstjórn. 

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið er ekkert það fram komið sem bendir til þess að gallar hafa verið á framboði né framkvæmd kosninga til sveitarstjórna í Tálknafjarðarhreppi þann 25. maí s.l. Kröfu kæranda um að kosningarnar verði úrskurðaðar ógildar og að lagt verði fyrir sveitarstjórn og yfirkjörstjórn að boða til uppkosninga í sveitarfélaginu er því hafnað. Úrslit kosninga til sveitarstjórnar í Tálknafjarðarhreppi 25. maí 2002 skulu því standa óhögguð.“

 

II.     Niðurstaða ráðuneytisins

Kærandi byggir málflutning sinn á því að það brjóti gegn meginreglu laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, að hópur íbúa í Tálknafjarðarhreppi ákvað að dreifa nafnalista til kjósenda þar sem þeir voru hvattir til að kjósa nánar tilgreinda einstaklinga til setu í hreppsnefnd. Telur kærandi að með þessu hafi í reynd verið stillt upp framboðslista þrátt fyrir að kosning hafi átt að vera óbundin þar sem enginn framboðslisti barst fyrir lok framboðsfrests, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 5/1998. Eigi þetta eitt og sér að leiða til þess að kosningin verði úrskurðuð ólögmæt enda hafi verið staðið að kjörinu með óheiðarlegum hætti. Máli sínu til stuðnings hefur kærandi lagt fram yfirlýsingar frá sjö einstaklingum sem lýstu yfir áhuga á að taka kjöri í hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps.

 

Jafnframt telur kærandi að minnsta kosti einn atvinnurekanda á Tálknafirði hafa brotið gegn ákvæðum kosningalaga með því að aka starfsmönnum sínum, þar á meðal erlendum ríkisborgurum með kosningarrétt í Tálknafjarðarhreppi, á kjörstað og hvatt þá til að greiða atkvæði með ákveðnum hætti. Telur kærandi þetta varða við a-lið 92. gr. laga nr. 5/1998 þar sem í þessu hafi falist ógnun atvinnurekanda gagnvart starfsmönnum sínum.

 

Í 92. gr. laganna er fjallað um óleyfilegan kosningaáróður og kosningaspjöll. Í b-lið þess ákvæðis er lagt bann við því að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða skriflegum ávörpum eða auglýsingum, eða með því að bera eða hafa uppi merki stjórnmálasamtaka, lista eða önnur slík einkenni á sjálfum kjörstaðnum og í næsta nágrenni. Í c-lið sömu greinar er einnig lagt bann við áróðri á bifreiðum meðan kjörfundur stendur yfir, svo og að nota gjallarhorn til áróðurs á sama tíma.

 

Framangreind ákvæði fela ekki í sér bann gegn áróðri fyrir kjördag eða utan næsta nágrennis kjörstaðar, þar sem kjósendur eru hvattir til að greiða atkvæði með ákveðnum hætti. Dreifing slíks efnis í hús er raunar alþekktur hluti af kosningabaráttu þar sem fram fer listakosning en tíðkast eðlilega mun síður þar sem óbundin kosning fer fram. Engu að síður telur ráðuneytið ótvírætt að dreifing nafnalista á borð við þann sem borinn var í hús í Tálknafjarðarhreppi er heimil samkvæmt ákvæðum laga nr. 5/1998, þótt það hafi ef til vill ekki verið í anda þess samkomulags sem gert var fyrir kosningar milli oddvita þeirra þriggja framboða sem fulltrúa áttu í hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps á síðasta kjörtímabili, og getið er um í umsögn kjörstjórnar. Getur dreifing umrædds nafnalista  ekki orðið til þess að kosningin verði úrskurðuð ógild.

 

Fullyrðingar kæranda um að einstakir kjósendur hafi verið þvingaðir til að greiða atkvæði á ákveðinn hátt hafa ekki verið studdar neinum gögnum. Ekkert kom fram við athugun kjörnefndar sem stutt gæti þá fullyrðingu kæranda að kjósendum hafi verið ógnað með þeim hætti sem jafna megi við ákvæði a-liðar 92. gr. laga nr. 5/1998. Verður því að staðfesta niðurstöðu kjörnefndar varðandi þessa málsástæðu kæranda.

 

Eins og áður er fram komið ákvað ráðuneytið að kanna sannleiksgildi fullyrðinga kæranda um að dreift hefði verið á kjörstað lista með nöfnum tíu einstaklinga. Athugun leiddi í ljós að ásökun kæranda beindist að dyraverði á kjörstað og er þar um alvarlegan áburð að ræða. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings fullyrðingu sinni. Með vísan til umsagnar kjörstjórnar Tálknafjarðarhrepps, dags. 25. júní 2002, verður að telja með öllu ósannað að áróðri hafi verið dreift á kjörstað meðan kjörfundur stóð yfir í Tálknafjarðarhreppi.

 

Með vísan til alls framangreinds verður að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Úrskurður nefndar sem skipuð var af sýslumanninum á Patreksfirði 1. júní 2002 til að fjalla um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Tálknafjarðarhreppi 25. maí 2002, er staðfestur.

 

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

Afrit:

Níels Ársælsson

Tálknafjarðarhreppur

Sýslumaðurinn á Patreksfirði

Björgvin Sigurbjörnsson, form. kjörstjórnar

Björn Jóhannesson hdl., form. kjörnefndar

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum