Hoppa yfir valmynd
4. júlí 1996 Innviðaráðuneytið

Hveragerðisbær - Kærufrestur liðinn

Ögmundur Jónsson                                                                                    4. júlí 1996                                              96070003

Vorsabæ - Ölfusi                                                                                                                                                            16-8716

810 Hveragerði

 

 

 

 

           Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 20. júní 1996, varðandi makaskiptasamning Hveragerðisbæjar og jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins frá 5. apríl 1995. Makaskiptasamningurinn varðar m.a. landspildu úr jörðinni Vorsabæ.

 

           Í gögnum málsins kemur m.a. fram að þér krefjist þess að makaskiptasamningurinn verði felldur úr gildi og yður boðinn forkaupsréttur skv. 2. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Jafnframt teljið þér að Hveragerðisbær hafi brotið 10., 11. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.

 

           Fyrra atriðið varðar hugsanlegan forkaupsrétt yðar að jörðinni og þ.a.l. túlkun á jarðalögum nr. 65/1976. Skv. 2. gr. þeirra laga hefur landbúnaðarráðherra yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til og því er það ekki í valdi félagsmálaráðherra að kveða upp úrskurð um hvort brotin hafi verið ákvæði 30. gr. jarðalaga gagnvart yður.

 

           Hvað varðar meint brot á stjórnsýslulögum við meðferð málsins hjá Hveragerðisbæ skal eftirfarandi tekið fram:

 

           Í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um almennan kærufrest til æðra stjórnvalds og hljóðar ákvæðið svo:

           “Kæra skal borin fram innan þriggja mánaðar frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.”

 

           Jafnframt segir í 1. mgr. 28. gr. laganna að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema annars vegar að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða hins vegar að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Síðan segir svo orðrétt í 2. mgr.:

           “Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.”

 

           Erindi yðar er dagsett 20. júní 1996, þ.e. u.þ.b. einu ári eftir að yður var kynnt málið af hálfu Hveragerðisbæjar, sem var samkvæmt gögnum málsins 22. júní 1995. Erindið barst ráðuneytinu um svipað leyti. Erindið barst því að liðnum hinum þriggja mánaða kærufresti sem tilgreindur er í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga og á mörkum þess að meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt yður, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Að auki vill ráðuneytið taka fram að það telur að ekki hafi komið fram svo sérstakar ástæður, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að þær réttlæti að málið verði tekið til úrskurðar í ráðuneytinu svo löngu eftir lok kærufrests.

 

           Með vísan til framangreinds er erindi yðar vísað frá félagsmálaráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum