Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2020

Doktorsnemi í mannerfðafræði við Lífvísindasetur

Doktorsnemi í mannerfðafræði við Lífvísindasetur 
Auglýst er eftir metnaðarfullum og áhugasömum doktorsnema til að vinna að rannsóknum á því hvernig kæling hefur áhrif á lífverur. Verkefnið hefur hlotið styrk úr Tækniþróunarsjóði til þriggja ára.

Miðað er við að vinna við verkefnið hefjist 1. ágúst 2020 eða samkvæmt nánara samkomulagi. 


Helstu verkefni og ábyrgð
Kæling er mikið notuð í meðferð alvarlegra áfalla t.d. eftir hjartastopp og súrefnisskort í fæðingu. Ef hluti af jákvæðum áhrifum kælingar byggja á breytingum á genatjáningu væri hægt að kortleggja gen sem hlutverki gegna og nýta þá þekkingu til þróunar lyfja sem myndu gagnast sjúklingum sem ekki geta undirgengist kælimeðferð. Við höfum nýlega þróað flúrljómandi vísa sem ljóma við það hitastig sem oftast er notað í lækningaskyni (32° C). Við munum nota þessa kulda-lífvísa fyrir framsýna stökkbreytiskimun í mannafrumum með CRISPR-Cas9 kerfi til að stökkbreyta öllum þekktum genum í mannerfðamenginu og raðgreina þær frumur sem sýna breytta flúrljómun. Við munum einnig framkvæma framsýna stökkbreytiskimun á músum og heilraðgreina mýs sem sýna óvenjulega hitastigsstjórnun við 4°C. Þessar tvær óháðu leiðir geta leitt til lyfjameðferðar sem virkjar kælingaferlið án aukaverkana þess. Neminn mun nota aðferðir sem nýlega hafa verið þróaðar eins og CRISPR-Cas9 framsýn stökkbreytiskimun og einnig ENU mutagenesis til að uppgötva þá ferla sem hlutverki gegna í kæliviðbrögðum spendýra. 

Doktorsverkefnið verður unnið við Lífvísindasetur (http://lifvisindi.hi.is) innan Læknadeildar Háskóla Íslands en Lífvísindasetur er samstarfsverkefni rannsóknarhópa í lífvísindum við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri og Landspítala og býður upp á þverfaglegt og alþjóðlegt rannsóknaumhverfi. Hans Tómas Björnsson MD PhD, hefur vaxandi alþjóðlegan hóp á Íslandi og í Bandaríkjunum (Johns Hopkins) en hópur hans hefur nýlega birt greinar í virtum alþjóðlegum tímaritum eins og Science Translational Medicine, PNAS, og Genome Research. 

Neminn mun vinna undir leiðsögn Hans Tómasar Björnssonar, dósents við Læknadeild HÍ í færsluvísindum og barnalækningum og vera hluti af rannsóknateymi hans. Rannsóknarstofan er staðsett á Sturlugötu 8, í einstöku rannsóknaumhverfi hjá Íslenskri Erfðagreiningu. 


Hæfnikröfur
- Meistarapróf í mannerfðafræði, heilbrigðisverkfræði, líffræði eða skyldum greinum. 
- Reynsla af vísindastörfum á rannsóknastofu við erfðafræði-, sameinda- eða frumulíffræði.
- Góð tölvufærni og forritunarreynsla er æskileg.
- Góð enskukunnátta, bæði í ræðu og riti.
- Góð samskiptahæfni og geta til að vinna sjálfstætt.
- Umsækjandi skal uppfylla skilyrði til innritunar í doktorsnám á Heilbrigðisvísindasviði.


Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Félag háskólakennara hafa gert.
Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókninni:
i. Ferilskrá og yfirlit um birt efni umsækjanda, ef það á við
ii. Staðfest afrit af prófskírteinum, ásamt einkunnadreifingu
iii. Meðmælabréf
iv. Greinargerð þar sem áhuga fyrir verkefninu er lýst og fjallað um hvað umsækjandi getur lagt af mörkum til þess.

Umsækjendum er einnig boðið að senda PDF útgáfu af meistararitgerð sinni (á hvaða tungumáli sem er), sem og aðrar birtingar sem við eiga (að hámarki 5 skjöl).

Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í sex mánuði frá lokum umsóknarfrests. 

Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans, sjá hér: http://www.hi.is/haskolinn/jafnrettisaaetlun#markmid2. 

Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands, sjá hér: https://www.hi.is/haskolinn/malstefna_haskola_islands.


Heilbrigðisvísindasvið er eitt af fimm fræðasviðum Háskóla Íslands. Innan sviðsins eru sex deildir; Hjúkrunarfræðideild, Lyfjafræðideild, Læknadeild, Matvæla- og næringarfræðideild, Sálfræðideild og Tannlæknadeild. Starfsmenn sviðsins eru um 300 og nemendur um 2200.
Háskóli Íslands er stærsta kennslu-, rannsókna- og vísindastofnun Íslands og eini skólinn hérlendis sem er á báðum virtustu matslistunum yfir bestu háskóla heims, Times Higher Education World University Rankings og Shanghai Ranking.
Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 27.07.2020


Nánari upplýsingar veitir
Hans Tómas Björnsson - [email protected] - 5435070


Háskóli Íslands
Læknadeild
v/Vatnsmýrarveg
101 Reykjavík


Smellið hér til að sækja um starf

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum