Hoppa yfir valmynd
30. júní 2000 Innviðaráðuneytið

Sveitarfélagið Skagafjörður - Felldar niður greiðslur fyrir heimakstur vegna barns í vistun

Leifur Hreggviðsson

Melavegi 15

530 Hvammstanga

Reykjavík, 30. júní 2000

Tilvísun: FEL00050054/16-5200/SÁ/--

 

      Hinn 28. júní 2000 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

     

      Með erindi, dagsettu 1. maí 2000, kærði Leifur Hreggviðsson þá ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar að hætta að greiða fyrir heimakstur sonar hans úr skóla.

 

      Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar um erindið með bréfi, dagsettu 16. maí 2000. Svar barst frá barnaverndarnefnd Skagafjarðar með bréfi dagsettu 19. maí 2000.

 

I.       Málavextir

 

      Sonur kæranda hefur frá árinu 1995 verið vistaður utan heimilis síns á bæ í Vatnsdal og sækir hann skóla að Húnavöllum. Ástæða þess er að hann þurfti á meiri sérkennslu að halda en boðið var upp á í Steinsstaðaskóla. Fræðsluyfirvöld ákváðu á þeim tíma að greiða skyldi vistunarkostnað fyrir drenginn svo og kostnað fyrir sérkennslu og skólaakstur. Einnig var greitt fyrir heimakstur hans um helgar og í fríum. Ekki var gerður skriflegur samningur um þetta fyrirkomulag.

 

      Árið 1998 sameinuðust ellefu sveitarfélög í Skagafirði í eitt sveitarfélag. Í ágúst 1998 ákvað sveitarfélagið að hætta að greiða fyrir heimakstur drengsins en foreldrum hans var ekki tilkynnt að mál þetta væri til meðferðar. Faðir Halldórs óskaði þá eftir því að sveitarfélagið héldi áfram greiðslum fyrir heimaksturinn og endurgreiddi foreldrum hans kostnað vegna akstursins síðan í ágúst 1998. Með bréfi, dagsettu 12. febrúar 1999, hafnaði sveitarstjóri sveitarfélagsins að greiða fyrir umræddan akstur. Eftir viðræður við Herdísi Sæmundardóttur beindi Leifur beiðni sinni að sveitarstjórninni. Með bréfi, dagsettu 3. apríl 2000, var honum tilkynnt að byggðarráð hefði tekið erindið fyrir hinn 29. mars 2000 og hafnað því. Sveitarstjórnin staðfesti þá niðurstöðu svo á fundi sínum hinn 3. apríl 2000.

 

      Eins og áður kemur fram kærði Leifur þessa ákvörðun svo til ráðuneytisins með bréfi, dagsettu 1. maí 2000.

 

      Eftir að hafa lýst kennslusögu drengsins í stórum dráttum þá er í umsögn barnaverndarnefndar frá 19. maí 2000 tekið fram að við vistun barna greiði sveitarfélagið almennt vistunarkostnað, sérstuðning í skóla og skólaakstur. Einnig var greitt fyrir persónulega ráðgjöf í máli drengsins. Að lokum er tekið fram að aldrei hafi verið greitt fyrir kostnað barns við að fara heim í fríum enda væri litið svo á að það væri hluti foreldranna. Jafnframt kemur fram að óljóst sé hvaða samningar voru gerðir við foreldra drengsins þegar hann var fyrst vistaður en bent er á að frá þeim tíma hafi staðan í sveitarfélaginu breyst til muna, meðal annars hafi barnaverndarnefndir allra sveitarfélaganna sameinast 1996 og 1998 hafi ellefu sveitarfélög í Skagafirði sameinast í eitt sveitarfélag. Að síðustu er áréttað að reglur sveitarfélagsins séu skýrar hvað varðar akstur fósturbarns til og frá fósturheimili en sá kostnaður falli á foreldra barnsins nema annað sé tekið fram í fóstursamningi.

 

II.    Niðurstaða

 

      Einhliða ákvörðun stjórnvalds um að veita einstaklingi styrk eða annars konar reglubundið fjárframlag til tiltekins verkefnis telst stjórnvaldsákvörðun. Við töku slíkrar ákvörðunar ber sveitarfélagi að fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og hið sama gildir þegar ákveðið er að hætta að greiða slík framlög.

 

      Samkvæmt umsögn barnaverndarnefndar Skagafjarðar fellur kostnaður við akstur fósturbarns til og frá fósturheimili á foreldra barnsins nema annað sé tekið fram í fóstursamningi. Þótt óljóst sé hvaða samningar voru gerðir við foreldra umrædds drengs þegar hann var fyrst vistaður er óumdeilt að frá 1995 til ágústmánaðar 1998 greiddu fræðsluyfirvöld hverju sinni fyrir heimakstur Halldórs. Við yfirfærslu allra þátta grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga og svo við sameiningu ellefu sveitarfélaga í Skagafirði í Sveitarfélagið Skagafjörð yfirtók hið nýja sveitarfélag öll þau réttindi og skyldur sem mælt er fyrir um í lögum og samningum um þennan málaflokk. Sveitarfélagið yfirtók því skyldur fyrrverandi fræðsluyfirvalda gagnvart drengnum og foreldrum hans í samræmi við þá samninga sem gerðir voru milli foreldranna og fræðsluyfirvalda. Samkvæmt meginreglum samningaréttar eru munnlegir samningar fullgildir samningar þótt stundum geti verið erfitt að sanna efni þeirra. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að í fóstursamningnum vegna drengsins hafi falist loforð um að greiða skyldi fyrir heimakstur hans enda var fyrirvaralaust greitt fyrir hann í þrjú ár.

 

      Um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar er að ræða þegar stjórnvald tekur aftur að eigin frumkvæði lögmæta ákvörðun sína sem þegar hefur verið birt. Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um afturköllun en þar segir að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða þegar ákvörðunin er ógildanleg. Samkvæmt þessu ákvæði og meginreglum stjórnsýsluréttar þurfa viss skilyrði að vera fyrir hendi svo hægt sé að afturkalla ákvörðun sérstaklega ef hún er ívilnandi.

 

      Allar hefðbundnar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar gilda við undirbúning að afturköllun ákvörðunar enda er afturköllun ný stjórnvaldsákvörðun. Sveitarfélaginu bar því að mati ráðuneytisins að fara að stjórnsýslulögum við afturköllun umræddrar ákvörðunar.

 

      Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þá ber í samræmi við 13. gr. laganna að gefa málsaðila kost á að tjá sig um efni máls áður en því er ráðið til lykta með stjórnvaldsákvörðun enda eigi undantekningar frá meginreglunni um andmælarétt ekki við um það mál. Þá er ennfremur talið að stjórnvaldi beri að gefa aðila máls sérstakt færi á að kynna sér gögn og tjá sig um málið þegar mál byrjar að frumkvæði stjórnvaldsins og aðili veit ekki að mál hans sé til meðferðar, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða aðila og rök hans fyrir henni né verði talið augljóslega óþarft að veita aðila færi á að tjá sig. Loks ber stjórnvaldi að birta ákvörðun sína og veita leiðbeiningar um heimild aðila til þess að fá ákvörðunina rökstudda hafi rökstuðningur ekki fylgt henni þegar hún var tilkynnt, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

 

      Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1986/1996 lýsir hann þeirri skoðun sinni að ef afstaða aðila til þeirrar ætlunar stjórnvalds að afturkalla ívilnandi ákvörðun liggur ekki fyrir í gögnum máls með skýrum hætti þá verði slík ákvörðun ekki með réttu tekin fyrr en leitað hefur verið eftir afstöðu aðilans og röksemdum hans. Þá þarf einnig að upplýsa mál nægilega mikið til þess að hægt verði að taka réttar ákvarðanir í því.

 

      Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að sveitarfélaginu hafi því borið að tilkynna foreldrum drengsins að mál þetta væri til meðferðar, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga, og veita þeim tækifæri til þess að nýta sér andmælarétt sinn, sbr. 13. gr. laganna, sérstaklega þar sem efni fóstursamninganna um drenginn var óljóst.

 

      Af öllu framangreindu telur ráðuneytið leiða að sveitarfélagið hafi ekki gætt nægilega ákvæða 10., 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.

 

      Það skal tekið fram að í 20. gr. stjórnsýslulaga um birtingu ákvörðunar er ekki mælt fyrir um sérstakan birtingarhátt og á íslenskum stjórnvöldum hvílir ekki skylda til að hafa allar stjórnvaldsákvarðanir í skriflegu formi. Hins vegar þykir með tilliti til réttaröryggis eðlilegast og í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir séu tilkynntar skriflega. Það er almennt á verksviði þess stjórnvalds sem ákvörðun tekur að birta hana og telur ráðuneytið því að sveitarstjórninni hafi borið að tilkynna foreldrum drengsins það skriflega að ákveðið hefði verið að hætta að greiða fyrir heimakstur hans um leið og sú ákvörðun var tekin.

 

      Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að Sveitarfélagið Skagafjörður hafi ekki gætt nægilega ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við afturköllun ákvörðunar um að greiða heimakstur vegna sonar kæranda. Er því óhjákvæmilegt að fella ákvörðunina úr gildi.

 

      Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

      Felld er úr gildi ákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar um að afturkalla ákvörðun fyrrverandi fræðsluyfirvalda um að greiða skyldi heimakstur í tengslum við vistun sonar Leifs Hreggviðssonar og Sigríðar Björnsdóttur.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Afrit: Sveitarfélagið Skagafjörður.

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum