Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2001 Innviðaráðuneytið

Áshreppur - Ákvörðun um fjölda ljósastaura á heimreiðir að lögbýlum í fastri ábúð, jafnræðisregla stjórnsýsluréttar

Þuríður Guðmundsdóttir                         18. júlí 2001                              FEL00100005/16-5601

Hvammi I, Áshreppi, A-Hún.

541 BLÖNDUÓS

 

 

 

Hinn 18. júlí 2001 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi:

 

úrskurður

 

Með erindi, dags. 10. maí sl., barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Þuríðar Guðmundsdóttur á hendur hreppsnefnd Áshrepps. Krefst kærandi þess að ákvörðun hreppsnefndar um að greiða fyrir kostnað og uppsetningu á alls fjórum ljósastaurum á bæina Hvamm I og II verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir hreppsnefnd að kosta samtals átta staura á heimreið að bæjunum.

 

Með bréfi dags. 23. júní sl. óskaði ráðuneytið eftir umsögn hreppsnefndar Áshrepps um málið. Umsögnin barst með bréfi dags. 8. júlí sl.

 

 

Málavextir og málsástæður aðila

Á fundi hreppsnefndar Áshrepps sem haldinn var 16. júní 2000 var tekin ákvörðun um að settir yrðu upp ljósastaurar við heimreiðar á þeim bæjum í hreppnum sem eru með fasta ábúð. Samkvæmt fundargerð var ákveðið að hámarksfjöldi staura á hvern bæ yrði 4 stk. með 50 metra bili. Einnig yrði öðrum húseigendum í hreppnum boðin þátttaka gegn greiðslu.

 

Kærandi telur að samkvæmt fyrrgreindri samþykkt eigi ábúendur á jörðunum Hvammi I og II, sem eru tvö lögbýli í fastri ábúð, en með sameiginlegt íbúðarhús og heimreið, rétt á að fá alls átta staura. Myndi sá fjöldi vera hæfilegur til að lýsa alla heimreiðina. Hreppsnefnd hafi hins vegar ákveðið að settir yrðu fjórir staurar til samans að Hvammi og telur kærandi að með því sé brotinn á sér réttur, a.m.k. hvað jafnræði varðar, en bendir einnig á að ábúendur að Hvammi greiði gjöld til sveitarsjóðs til jafns við aðra íbúa hreppsins og hljóti því að eigi rétt á að fá fleiri ljósastaura en þeir íbúar þar sem aðeins sé eitt lögbýli við heimreið.

 

Í bréfi oddvita til kæranda, dags. 18. desember 2000, kemur fram að hugsun hreppsnefndar með fyrrgreindri samþykkt frá 16. júní 2000 hafi verið sú ein að lífga upp á umhverfi fólks í kringum bæina sjálfa (íbúðarhúsin) með raflýsingu. Átti þessi framkvæmd að vera fólki að kostnaðarlausu. Var þess gætt við bókun og ákvörðun hreppsnefndar að nota orðin "í fastri ábúð" um þau íveruhús sem um ræðir, en aðeins hafi verið talið réttlætanlegt að lýsa nánasta umhverfi þeirra með raflýsingu fyrir atbeina sveitarsjóðs. Í bréfi oddvita til kæranda, dags. 28. febrúar sl., er enn fremur rakið að orðin "í fastri ábúð" hafi verið notuð sem viðmiðun til að koma í veg fyrir að eigendur sumarbústaða og lögbýla sem ekki eru í fastri ábúð gætu gert kröfu um að heimreiðir þeirra yrðu lýstar. Þá er þess getið í sama bréfi að í kostnaðaráætlun sem gerð var á grundvelli samþykktar hreppsnefndar frá 5. maí 2000 hafi þegar verið gert ráð fyrir fjórum staurum við heimreiðina að Hvammi I og II, enda sé þar aðeins ein heimreið og sé það grundvallaratriði málsins.

 

Með bréfi ráðuneytisins til oddvita, dags. 23. júní sl., óskaði ráðuneytið eftir að upplýst yrði um eftirtalin atriði:

Hvort hreppsnefnd teldi aðstæður á öðrum bæjum í Áshreppi sambærilegar aðstæðum að Hvammi (þ.e. tvö lögbýli með eina heimreið, lengd heimreiðar o.fl.).

Hve margir ljósastaurar hafi að jafnaði verið settir niður við hvert lögbýli og hvort í einhverjum tilvikum hafi verið reistir fleiri en fjórir staurar.

 

Í svari oddvita, dags. 8. júlí sl., kemur fram að heimreiðin að Hvammi sé eina heimreiðin að tveimur lögbýlum í hreppnum, og með þeim lengri. Segir jafnframt að hreppsnefnd hafi verið vel kunnugt um þessa sérstöðu Hvammsbæja þegar ákvörðunin var tekin. Varðandi síðari spurninguna segir í bréfinu að settir hafi verið niður að jafnaði 2 til 4 staurar við hverja heimreið, eftir lengd heimreiðar, að hámarki 4 staurar. Nokkrir bændur hafi bætt við staurum á sinn kostnað. Loks segir í bréfi oddvita að ákvörðun hreppsnefndar við uppsetningu þessara ljósastaura hafi miðast við fjölda heimreiða að bæjum í fastri ábúð, óháð fjölda lögbýla eða sumarbústaða.

 

Mál þetta var áður til meðferðar í ráðuneytinu í október 2000 en var þá vísað frá ráðuneytinu þar sem ekki lá fyrir hvort hreppsnefnd Áshrepps hefði með skýrum hætti tekið afstöðu til þess hvort Hvammsjarðirnar nytu slíkrar sérstöðu að réttlætti að verða við kröfum ábúenda þar um fjölgun staura. Formleg afstaða hreppsnefndar til þessa atriðis lá ekki fyrir fyrr en í fundi hreppsnefndar 28. desember 2000, þar sem fyrri samþykkt var áréttuð og tekið fram að einungis yrði greitt fyrir uppsetningu fjögurra staura að Hvammi I og II.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

Í máli þessu er deilt um hvort brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gagnvart ábúendum að Hvammi I og II. Óumdeilt er í málinu að til að gæta jafnræðis íbúa hreppsins bar hreppsnefnd skylda til að meta þörf fyrir lýsingu út frá þeim aðstæðum sem voru fyrir hendi í hverju tilviki fyrir sig.  Aðila greinir hins vegar á um við hvaða mælikvarða hreppsnefnd hafi borið að miða þegar ákvörðun var tekin um fjölda staura á hverju lögbýli. Ráðuneytið telur að við úrlausn þess álitaefnis verði því fyrst og fremst að grafast fyrir um tilgang þeirrar ákvörðunar hreppsnefndar Áshrepps sem deilt er um í málinu.

 

 Kærandi heldur því fram að þar sem að Hvammi séu tvö lögbýli og heimreiðin sé nógu löng til að bera átta staura hafi ábúendur þar átt rétt á þeim fjölda. Sé þessi skilningur í samræmi við bókun hreppsnefndar frá 16. júní 2000, þar sem segir að hámarksfjöldi sé fjórir staurar á hvert lögbýli í fastri ábúð. Í málflutningi hreppsnefndar Áshrepps kemur á hinn bóginn fram að hreppsnefndin telur sér einungis hafa verið skylt að lýsa upp nánasta umhverfi í kringum íbúðarhús þar sem búið er allt árið, óháð því hvort fleiri en eitt lögbýli nýtti sömu heimreiðina.

 

Ráðuneytið telur að bæði sjónarmið eigi sér nokkra stoð í gögnum málsins. Þannig styður bókun hreppsnefndar frá 16. júní 2000 það sjónarmið kæranda að lengd heimreiðar hafi þýðingu varðandi fjölda staura við hvern bæ. Á hinn bóginn er þess að gæta að strax í upphafi var gert ráð fyrir því í kostnaðaráætlun að á heimreiðina að Hvammi yrðu settir fjórir ljósastaurar. Einnig telur ráðuneytið nauðsynlegt að hafa í huga að í ákvörðun hreppsnefndar er talað um hámarksfjölda, sem gefur hreppsnefnd svigrúm til að meta þörf fyrir lýsingu í hverju tilviki fyrir sig. Verður því að gera ráð fyrir að endanleg ákvörðun um fjölda ljósastaura á heimreiðina að Hvammi I og II hafi að verulegu leyti byggst á frjálsu mati hreppsnefndar. Enn fremur telur ráðuneytið rétt að benda á að ákvarðanir hreppsnefndar um ráðstöfun fjármuna sveitarsjóðs til þjónustu við íbúa eiga eingöngu að ákvarðast af þjónustuþörf einstakra íbúa, en ekki því hve mikil gjöld íbúar greiða til sveitarsjóðs.

 

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á það í málinu að hin kærða ákvörðun hreppsnefndar Áshrepps hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum né að með henni hafi ábúendur að Hvammi I og II ekki notið jafnræðis við aðra íbúa hreppsins. Liggur fyrir í málinu að hvergi hafi Áshreppur greitt fyrir fleiri en fjóra staura á heimreið og í einhverjum tilvikum var um færri staura að ræða. Telur ráðuneytið því að ábúendur að Hvammi I og II séu ekki verr settir en aðrir íbúar hreppsins að því er varðar lýsingu heimreiðar og nánasta umhverfis við íbúðarhús, enda er einungis eitt íbúðarhús og ein heimreið að Hvammi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Hafnað er kröfu Þuríðar Guðmundsdóttur um að fella úr gildi ákvörðun hreppsnefndar Áshrepps um að greiða fyrir kostnað og uppsetningu á alls átta ljósastaurum á heimreið að Hvammi I og II í Áshreppi.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum