Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2003 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 7/2003

Ár 2003, föstudaginn 21. nóvember, var í samgönguráðuneytinu tekin til úrskurðar stjórnsýslukæra í máli nr. 7/2003;

A

vegna ákvörðunar

Flugmálastjórnar Íslands

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

I. Kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 22. apríl 20003, kærði B hrl., f.h A (kærandi), ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands um að neita honum um útgáfu JAR 66 skírteinis flugvéltæknis. Óskað var eftir því að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands og leggi fyrir Flugmálastjórn að gefa út JAR 66 skírteini við viðhaldsvottunar til umbjóðanda hans.

II. Málsatvik

Málsatvik eru þau að kærandi sótti um JAR 66 skírteini til Flugmálastjórnar Íslands á árinu 2002. Þann 13. ágúst 2002 svaraði Flugmálastjórn Íslands kæranda og bað um staðfestingu á þekkingu varðandi hæfniskröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 426/2002 (JAR 66 reglugerðin). Þann 28. ágúst 2002 sendi lögmaður kæranda Flugmálastjórn Íslands erindi þar sem hann kveður kæranda eiga rétt á umbeðnu JAR skírteini og kveður jafnframt að um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun Flugmálastjórnar Íslands hafi verið að ræða með því að neita kæranda um útgáfu skírteinis. Með því hafi kærandi átt rétt á því að andmæla en andmælaréttur hafi ekki verið virtur og því sé ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands ólögmæt. Krafist er rökstuðnings fyrir ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Flugmálastjórn Íslands sendi lögmanni kæranda bréf þann 4. september 2002 þar sem bent er á að beiðni kæranda hafi ekki verið hafnað. Hins vegar hafi verið óskað eftir frekari gögnum til að staðfesta þekkingu hans á ákveðnum þáttum sem krafa er gerð um til handhafa JAR 66 skírteina. Þann 10. september 2002 sendi lögmaður kæranda Flugmálastjórn Íslands erindi með vísan til bréfs Flugmálastjórnar Íslands frá 4. september og ítrekaði kröfu um að Flugmálastjórn Íslands gefi út skírteinið til handa kæranda. Vísað er til d-liðar og g-liðar JAR 66.1 og ítrekuð krafa þess efnis að starfsmenn skuli fá útgefin JAR 66 skírteini flugvéltæknis á grundvelli innlends hæfis án frekari prófa ("grandfathers rights"). Í svari Flugmálastjórnar Íslands til lögmanns kæranda var bent á að ekki hafi borist umbeðin gögn frá kæranda til staðfestingar hæfniskröfum varðandi tiltekna þætti og sendi frekari upplýsingar til kæranda varðandi þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt JAR 66.25. Lögmaður kæranda sendi Flugmálastjórn Íslands svarbréf þann 11. október 2002 og staðhæfir að samkvæmt auglýsingu nr. 426/2002, reglugerð um JAR 66, eigi þeir sem hafi innlend vottunarskírteini líkt og kærandi að fá JAR skírteini með sömu takmörkunum og fylgdu fyrra skírteini. Þá segir lögmaður kæranda að hann líti á beiðni Flugmálastjórnar Íslands um frekari menntunarkröfur kæranda sem neitun á útgáfu JAR skírteinis. Þá óskar lögmaður kæranda eftir afstöðu Flugmálastjórnar Íslands til þess hvort kærandi hafi á grundvelli flugvéltæknisskírteinis síns heimild til að votta vinnu sína við þau kerfi sem skráð eru í skírteini hans líkt og hann hafi gert sl. 22 ár.

Flugmálastjórn Íslands sendi lögmanni kæranda bréf, þann 13. desember 2002, þar sem rakið er efnisinnihald reglna JAR 66 og JAR 145 (augl. 477/1994) um breytingu á kröfum til viðhaldsstöðva sem viðurkenndar eru til viðhalds loftfara og íhluta þeirra og kröfur sem gerðar eru til viðhaldsvotta skv. JAR 66 reglunum. Niðurstaða Flugmálastjórnar Íslands í því bréfi er sú að kærandi uppfylli ekki tilgreind skilyrði fyrir útgáfu JAR 66 skírteinis flugvéltæknis. Kæranda er gefinn kostur á andmælum við bréfi Flugmálastjórnar Íslands. Þann 7. febrúar 2003 sendi lögmaður kæranda Flugmálastjórn Íslands bréf þar sem tilgreint er að kærandi telji afstöðu Flugmálastjórnar Íslands til umsóknar hans um JAR 66 skírteini byggða á misskilningi og rangri túlkun á ákvæðum auglýsingar nr. 426/2002 en auglýsingin hafi að geyma kröfur JAR ríkjanna í íslenskri þýðingu. Þá færir lögmaðurinn rök fyrir því að kærandi eigi rétt á útgáfu JAR skírteinis flugvéltæknis með þeim takmörkunum sem leiða af menntun hans. Skorað er að lokum á Flugmálastjórn Íslands að endurskoða fyrirhugaða ákvörðun sína um að hafna kæranda um útgáfu JAR 66 skírteinis. Þann 3. mars 2003 sendi Flugmálastjórn Íslands lögmanni kæranda bréf og greinir frá því að kærandi uppfylli ekki kröfur um grunnþekkingu skv. auglýsingu um kröfur til viðhaldsvotta JAR 66 og benti á að frekari gögn sem staðfesta hæfniskröfur kæranda hafi ekki borist stofnuninni. Því sé umsókn kæranda hafnað. Þann 22. apríl 2003 sendi lögmaður kæranda samgönguráðuneytinu erindi þar sem ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands er kærð og þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Flugmálastjórn Íslands að gefa út JAR 66 skírteini til viðhaldsvottunar kæranda. Vísað er til frekari röksemda í greinargerð frá 7. febrúar 2003.

Samgönguráðuneytið sendi stjórnsýslukæruna til umsagnar Flugmálastjórnar Íslands þann 28. apríl 2003 og var afrit sent lögmanni kæranda. Flugmálastjórn Íslands óskaði eftir fresti til umsagnar og var hann veittur. Þann 21. maí barst ráðuneytinu umsögn Flugmálastjórnar Íslands þar sem fram kemur rökstuðningur stofnunarinnar fyrir þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki þau skilyrði sem tilgreind eru fyrir útgáfu JAR 66 skírteini flugvéltæknis. Þann 15. júní sendi ráðuneytið lögmanni kæranda umsögn Flugmálastjórnar Íslands og óskaði eftir viðbrögðum hans. Lögmaður kæranda óskaði símleiðis eftir fresti til athugasemda við umsögn Flugmálastjórn Íslands. Hann sendi ráðuneytinu þann 2. júlí 2003 andmæli við umsögn Flugmálastjórnar Íslands og lagði fram rök fyrir því að kærandi eigi rétt á útgáfu JAR 66 skírteini. Ráðuneytið sendi Flugmálastjórn Íslands andmæli lögmanns kæranda þar sem frekari gögn bárust ráðuneytinu til stuðnings kröfu kæranda. Samhliða bréfi ráðuneytisins til Flugmálastjórnar Íslands sendi ráðuneytið lögmanni kæranda bréf þar sem framvinda mála er skýrð og á það bent að ráðuneytinu hafi borist fjögur önnur sambærileg mál sem lögmaður kæranda hefur með höndum. Tilgreint er að ráðuneytið muni skoða öll þessi kærumál samhliða og úrskurða svo fljótt sem verða má. Þann 6. ágúst 2003 barst ráðuneytinu andmæli Flugmálastjórnar Íslands við rökum lögmanns kæranda og viðbótargögnum. Þau andmæli gáfu ekki tilefni til þess að afla andmæla kæranda þar sem ekki var um ný viðbótargögn að ræða sem kæranda hafði ekki þegar kynnt sér. Ráðuneytið hefur sinnt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10 gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að afla frekari upplýsinga hjá Flugmálastjórn Íslands sem og hjá Flugöryggissamtökum Evrópu (þ.e. JAA eða Joint Aviation Authority) til þess að varpa frekara ljósi á skýringar og túlkun reglugerðar nr. 426/2002, JAR 66 sem liggur til grundvallar þessu máli. Ráðuneytinu barst ekki svarbréf JAA fyrr en 3. nóvember sl. Af þeim sökum hefur afgreiðsla kærunnar tafist. Ráðuneytið hefur upplýst lögmann kæranda um stöðu mála á hverju stigi fyrir sig.

III. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi fer fram á að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands og að lagt verði fyrir Flugmálastjórn Íslands að gefa út JAR 66 skírteini til viðhaldsvottunar til kæranda. Fram kemur í kæru lögmanns kæranda að kærandi sé lærður rafeindavirki. Hann hafi frá árinu 1980 unnið hjá Landhelgisgæslu Íslands sem flugvéltæknir. Samkvæmt skírteini útgefnu af FMS hefur kærandi heimild til vottunar á viðhaldi flugleiðsögu- og rafkerfa í flugvélum og þyrlum af tegundunum AS-332, AS-350, F-27, S-76 og SA-356. Kærandi vísar til staðfestingar tæknistjóra Landhelgisgæslu Íslands, dags. 30. janúar 2003 fyrir því að hann hafi vottað þá vinnu sem hann hefur framkvæmt í loftförum þessum frá árinu 1980.

Kærandi sótti um útgáfu JAR 66 skírteinis með vísan til reglugerðar nr. 426/2002, sem innleiðir alþjóðlegar reglur varðandi vottun flugfara. Flugmálastjórn Íslands taldi kæranda ekki uppfylla kröfur sem gerðar eru til handhafa JAR 66 reglna. Þá gerði Flugmálastjórn Íslands athugasemd við að kærandi vottaði þá vinnu sem hann hafði unnið frá árinu 1980. Þessu var mótmælt og minnt á ákvæði stjórnsýslulaga um andmælarétt áður en slík ákvörðun væri tekin. Flugmálastjórn Íslands taldi sig ekki hafa hafnað útgáfu á skírteininu heldur aðeins bent á að upplýsingar um frekari menntun kæranda vantaði. Kærandi sendi Flugmálastjórn Íslands bréf þar sem bent var á tiltekin ákvæði JAR 66 reglugerðarinnar sem styddi rétt kæranda til áframhaldandi óbreyttrar vinnu. Vísað var sérstaklega í ákvæði JAR 66.1 almennt ákvæði og g. lið JAR 66.1. Kærandi byggir kröfu sína fyrst og fremst á því að um svo kölluð "grandfather rights" sé að ræða, þ.e. að starfsmenn sem hafi heimild til að neyta vottunarréttinda í samræmi við gildandi innlendar reglugerðir um flug fyrir gildistöku JAR 66 megi neyta þeirra réttinda áfram.

Þá vísar kærandi til þess að hann hafi vottað flugleiðsögu- og rafkerfi hingað til og eigi rétt til þess að fá útgefið skírteini með þeim takmörkunum sem leiða af JAR 66 reglum. Kærandi segir það felast í reglugerð nr. 426/2002 um JAR 66 að þeir sem hefðu innlend vottunarskírteini ættu að fá útgefin JAR 66 skírteini, enda væri annað brot á atvinnufrelsisákvæðum Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Kærandi bendir á breytta stefnu Flugmálastjórnar Íslands í röksemdafærslu, þ.e. að Flugmálastjórn Íslands minnist í fyrsta sinn í bréfi þann 13. desember 2002 á að rafeindabúnaður falli undir hugtakið íhlutur loftfars, þannig að réttindi kæranda næðu einungis til íhluta en ekki búnaðar loftfars. Kærandi segir að það leiði af eðlilegri málnotkun að rafeindabúnaður og orðin "avionic system" eins og fram komi á skírteini kæranda geti ekki talist varahlutir eða íhlutir eins og Flugmálastjórn Íslands heldur fram.

Í viðbótarrökstuðningi lögmanns kæranda kemur fram að kærandi sé að fara fram á B2 réttindi, réttindi sem takmarkist við rafeindabúnað og rafkerfi.

IV. Málsástæður og rök Flugmálastjórnar

Ráðuneytið óskaði umsagnar Flugmálastjórnar Íslands um erindi kæranda. Vegna viðbótarkærubréfs kæranda bárust ráðuneytinu tvær umsagnir Flugmálastjórnar Íslands, önnur dagsett 21. maí 2003 og hin 6. ágúst s.á. Í fyrri umsögninni kemur fram að auglýsing um kröfur til viðhaldsvotta nr. 426/2002, JAR 66, fjalli um kröfur sem eru gerðar um útgáfu JAR 66 skírteina flugvéltækna. Réttindi sem falli utan gildissviðs framangreindrar reglugerðar sé m.a. réttindi vegna viðgerða íhluta eða léttra loftfara. Þá segir að samkvæmt reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands nr. 419/1999 sé ráðgert að einstaklingar með margs konar bakgrunn geti sótt um skírteini flugvéltæknis. Orðið flugvéltæknir geti því tekið til mjög fjölbreytts hóps einstaklinga með ólíkan bakgrunn og reynslu. Flugvéltæknisskírteini veiti handhafa þess þau réttindi sem á skírteinið er ritað en ekki víðtækari réttindi. Flugmálastjórn Íslands fjallar svo ítarlega um auglýsingu nr. 447/1994 (JAR 145, um viðhaldsstöðvar) og tilgreinir að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir eðli JAR 66 skírteina. Viðhaldsvottar samkvæmt reglugerð JAR-145 merki það starfsfólk sem hefur heimild samþykktrar viðhaldsstöðvar til að gefa út viðhaldsvottorð fyrir loftför eða íhluti loftfara í samræmi við tilteknar starfsreglur. JAR 66 skírteini veitir þannig ekki handhafa þess nein bein réttindi, að undanskilinni þjóðarsíðu þess. Þjóðarsíða skírteinis tiltekur þau réttindi sem handhafi þess hefur öðlast sem falla utan gildissviðs JAR 66. Reglugerð um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands nr. 419/1999 tekur til slíkra réttinda.

Vottunarheimild skv. JAR 66 og JAR 145 er gefin út af samþykktri viðhaldsstöð en ekki flugmálayfirvöldum. Þá segir að óumdeilt sé að kærandi sé ekki flugvirki heldur lærður rafeindavirki og handhafi skírteinis flugvéltæknis skv. skírteinareglugerðinni nr. 419/1999. Kærandi sé með heimild til vottunar rafeindabúnaðar í tilteknum tegundum flugvéla og þyrla, sbr. áritanir í skírteinið hans. Heimild kæranda takmarkast við þann búnað(íhluti) loftfarsins sem skráð er á skírteinið en tekur ekki til vottunar á viðhaldi loftfars í heild sinni. Sú vottunarheimild sem kærandi hafi sóst eftir, vottunarheimild viðhaldsvotts í flokki B2, veiti handhafa leyfi til að gefa út viðhaldsvottorð að loknu leiðarviðhaldi og gildi heimildin fyrir loftfarið í heild sinni. Með vísan til þessa hafi það verið niðurstaða Flugmálastjórnar Íslands að kærandi uppfylli ekki þau skilyrði sem tilgreind eru fyrir útgáfu JAR 66 skírteinis flugvéltæknis. Hvorki hafi kærandi notið þeirra réttinda sem hann gerir tilkall til fyrir 1. júní 2001 á grundvelli "grandfather protected rights", sbr. g-lið JAR 66.1 né hafi hann sýnt fram á að hann uppfylli kröfur fyrir útgáfu JAR 66 skírteinis flugvéltæknis, sbr. b-lið JAR 66.10 og JAR 66.25.

Í seinni umsögn Flugmálastjórnar Íslands eru fyrri röksemdir ítrekaðar. Í henni er áréttað að skírteini flugvéltækna veiti handhafa þess eingöngu þau réttindi sem áritanir þess kveða á um og eru ritaðar á skírteinið sjálft, en ekki víðtækari réttindi. Flugmálastjórn Íslands telur eftirlit með starfsemi Landhelgisgæslunnar ekki eiga undir þessa stjórnsýslukæru. Vísað er til fyrri umsagnar hvað varðar skilin á milli JAR 66 skírteina og þjóðarskírteina flugvéltækna en bent sérstaklega á það að handhafi flugvéltæknisskírteinis með áritunum er snerti rafeindabúnað tiltekinna loftfara munu þrátt fyrir gildistöku JAR 66 geta nýtt sér þær heimildir til vottunar viðhalds og viðgerða. Þetta eigi einnig við um þá flugvéltækna sem kunna að starfa í JAR-145 samþykktum viðhaldsstöðvum, enda hafi slík stöð samþykki til slíkra viðgerða á annað borð. Óumdeilt sé að kærandi hafi heimildir til þess að skrifa út viðhald á íhlut/búnaði, s.s. rafeindabúnaði en ekki lofthæfi loftfarsins í heild sinni. Þá segir að umfjöllun um íhluti samkvæmt JAR 66 og JAR-145 sé vandmeðfarin þar sem íhlutir falli utan gildissviðs JAR 66, sbr. c.lið JAR 66, þar sem hreyflar, aukaaflstöðvar og loftskrúfur eru tilteknar í dæmaskyni.

Að lokum segir í umsögn Flugmálastjórnar Íslands að í JAR 66 reglunum sé kveðið á um kröfur sem gerðar eru um hæfi þeirra starfsmanna sem hafa heimild frá samþykktri JAR-145 viðhaldsstöð til að gefa út viðhaldsvottorð í samræmi við JAR-145. Þess sé krafist að viðkomandi hafi gilt JAR 66 skírteini flugvéltæknis með tegundarréttindi til vitnis um þekkingu og reynslu svo og gilda JAR-145 vottunarheimild sem veiti honum vottunarréttindi.

Kærandi byggir kröfu sína fyrst og fremst á því að um svokölluð "grandfather rights" sé að ræða, þ.e. að starfsmenn sem hafi heimild til að neyta vottunarréttinda í samræmi við gildandi innlendar reglugerðir um flug fyrir gildistöku JAR 66 megi neyta þeirra réttinda áfram. Flugmálastjórn Íslands segir að réttindin séu ekki fyrir hendi þannig að þessi réttur skv. ákvæði JAR 66 reglugerðinni verði ekki virkur.

V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Kæruefnið lýtur fyrst og fremst að því hvort kærandi eigi rétt á útgáfu JAR 66 skírteinis flugvéltæknis á grundvelli reglugerðar nr. 426/2002. Kærandi byggir kröfu sínu um útgáfu slíks skírteinis á réttindum sem tilgreind eru í g. lið JAR 66.1 og þau réttindi kallast "grandfathers rights" og hafa verið útskýrð hér að framan. Málsástæður og rök beggja aðila hafa verið rakin.

Ráðuneytið hefur, að gefnu tilefni, skoðað hvort "avionic system" sem skráð eru á núgildandi skírteini kæranda, falli undir hugtakið íhlutur í skilningi reglugerðar nr. 426/2002 (JAR 66) eða ekki. Ef það telst íhlutur fellur málið hans utan gildissviðs reglugerðarinnar, sbr. ákvæði c.liðar JAR 66.1. Hins vegar horfir málið öðruvísi við ef svo er ekki. Ástæða þess að ráðuneytið hefur þurft að skoða túlkun framangreindra hugtaka sérstaklega er sú að málatilbúnaður Flugmálastjórnar Íslands breyttist á síðari stigum, þ.e. í fyrstu var óskað eftir frekari gögnum um menntun kæranda til þess að sjá hvort og hvernig hann félli undir ákvæði reglugerðarinnar. Hins vegar var á síðari stigum gengið út frá því í ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands að kærandi hafi unnið við vottun íhluta og þar með hafi réttindi hans fallið utan gildissvið reglugerðarinnar með öllu.

Til þess að varpa frekara ljósi á þennan ágreining óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá Flugöryggisstofnun Evrópu (JAA) og í svari stofnunarinnar kemur fram að JAA hafi einnig fengið fyrirspurn frá lögmanni kæranda þann 27. janúar 2003 og sendi ráðuneytinu afrit af svarbréf til hans. Þess skal getið að þau gögn lágu ekki fyrir í máli þessu. Í fyrstu er tilgreint að réttindi sem viðkomandi hefur fyrir gildistíð JAR 66 reglugerðarinnar haldist óbreytt. Hins vegar er á það bent að ef hið íslenska skírteini felur ekki í sér réttindi til þess að votta flugvélar í heild sinni eigi JAR 66 ekki við og að gildissviðið sé takmarkað við vélar yfir 5700 kg að þyngd. Í bréfi JAA kemur fram að ágreiningur standi um, að mati JAA, í fyrsta lagi að kærandi vilji fá útgefið JAR 66 skírteini þar sem hann sé handhafi þjóðarskírteinis sem feli í sér réttindi yfir "avionic system" sem útgefið var af Flugmálastjórn Íslands og í öðru lagi að íslenska flugmálastjórnin hafi hafnað þeirri útgáfu á þeim grundvelli að réttindi kæranda falli utan gildissviðs reglugerðar um JAR 66, þar sem tilgreint sé í ákvæði JAR 66.1 að reglugerðin taki ekki yfir íhluti (components). Þá segir í bréfi JAA að telji íslensk flugmálayfirvöld að þjóðarskírteini kæranda feli í sér réttindi til vottunar íhluta (component) þá sé breyting slíks skírteinis í JAR 66 skírteini útilokuð þar sem ekki séu fyrir hendi JAR 66 skírteini fyrir íhluti enn sem komið er. Ef þjóðarskírteini kæranda með skráninguna "avionic system" er talið jafngilda JAR 66 B2 þá sé ákvörðun um útgáfu slíks skírteinis í höndum íslenskra flugmálayfirvalda. Eftir mat á slíkum skírteinum megi vera að viðbótarþjálfunar sé þörf eða að takmörkun þurfi að vera fyrir hendi. Fram kemur að hafi kærandi ekki réttindi til vottunar loftfarsins í heild sinni (e.CRS:Certificate of Release to Service) verði svokölluð "grandfathers rights" ekki virk. Annars sé í raun verið að veita viðkomandi ríkari réttindi en hann hefur samkvæmt núgildandi skírteini. Að lokum segir að svarið við spurningunum sé að gildissviðsákvæði JAR 66 útiloki íhluti (components) en JAA tekur ekki afstöðu til þess hvort "avionic system" teljist til íhluta eða ekki. Frá sjónarhóli JAR 66 falli vottun slíkra kerfa undir réttindi skv. B2, þannig að það séu ákvæði í JAR 66 um "avionic systems" svo framalega sem viðkomandi uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar. Hugtakið "system" samanstandi af, samkvæmt almennri orðskýringu, nokkrum íhlutum (components) og skilgreiningar og gildissvið fyrir "avionic system" sé nokkuð óljóst, jafnvel samkvæmt JAR 66. Að lokum er áréttað að flugmálayfirvöld þess ríkis sem tekur málið til athugunar ákvarði og túlki þessar almennt viðurkenndu reglur JAA og að ávallt þurfi að hafa til hliðsjónar við slíka túlkun gagnkvæmar viðurkenningar innan aðildarríkja JAA.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu og kröfugerð aðila koma fram málsástæður hjá Flugmálastjórnar Íslands á síðari stigum varðandi skilgreiningu á íhlut og um útlistun að mál kæranda falli utan gildissviðs reglugerðarinnar í heild sinni. Það liggur fyrir í gögnum málsins að skilgreiningar á íhlut og þar af leiðandi á gildissviði reglugerðarinnar er ekki með öllu skýrt, sbr. bréf JAA sem lýst er hér að framan. Í þessu ljósi telur ráðuneytið ekki rétt að úrskurður verði felldur á þeim forsendum hvort reglugerð nr. 426/2002 um JAR 66, eigi við um kæruefnið eður ei. Ráðuneytið hefur því ákveðið að taka efnislega afstöðu til kæru kæranda og niðurstaðan byggir á eftirfarandi málsástæðum og röksemdum.

Fyrir liggur ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands, lofthæfis- og skrásetningardeildar, um að hafna útgáfu JAR 66 skírteinis þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði reglugerðarinnar um JAR 66 og geti því ekki fengið útgefið skírteini á grundvelli hennar. Tilgreint er í ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands að kærandi eigi möguleika á því að öðlast slík réttindi að tilteknum skilyrðum reglugerðarinnar uppfylltum. Ráðuneytinu ber að úrskurða um það hvort ákvörðun Flugmálastjórnar hafi verið lögum samkvæmt. Tæknileg atriði eins og að framan er lýst, hafa komið til skoðunar og ráðuneytið hefur þurft að óska eftir frekari upplýsingum frá þeim aðilum sem starfa við vottun loftfara.

Eftir athugun allra gagna og annarra upplýsinga er ljóst að ráðuneytið þurfti að taka afstöðu til hvort ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands skerði á einhvern hátt atvinnuréttindi kæranda. Í svarbréfi frá Flugöryggissamtökum Evrópu (e. JAA - Joint Aviation Authorities) segir að hafi kærandi ekki réttindi til vottunar loftfarsins í heild (e.CRS:Certificate of Release to Service) verði svokölluð "grandfathers rights" ekki virk. Þannig öðlist kærandi ekki sjálfkrafa rétt til útgáfu JAR 66 skírteinis án nokkurra takmarkana því með því væri verið að veita kæranda ríkari réttindi en hann hefur samkvæmt núgildandi skírteini. Flugmálastjórn Íslands hefur bent á það í sínum svarbréfum að kærandi eigi rétt á útgáfu JAR 66 skírteinis svo fremi sem hann sýni fram á frekari bóklega og verklega þekkingu, eins og krafa er gerð um í ákvæðum reglugerðarinnar. Þá liggur fyrir að kærandi heldur óbreyttum starfsréttindum á grundvelli þess skírteinis sem hann hefur nú undir höndum og grundvallast á reglugerð nr. 419/1999, um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands.

Í reglugerð nr. 426/2002, JAR 66.20 eru taldir upp tilteknir flokkar og vottunarréttindi. Vottunarheimildir viðhaldsvotta í flokki B1 og B2 veita handhafa leyfi til að gefa út viðhaldsvottorð að loknu leiðarviðhaldi. Almenn skilgreining á hugtakinu leiðarviðhald felur í sér að heimildin gildi fyrir loftfarið í heild sinni. Það liggur fyrir og er óumdeilt að kærandi hefur ekki unnið við vottun loftfars í heild sinni og vantar þar með þá grunnþekkingu sem krafa er gerð um í JAR 66.25 og JAR 66.30. Þar af leiðir að ákvæði JAR 66.20 geta ekki átt við um réttindi kæranda. Forsenda þess að heimild sem fram kemur í 2. ml. g. liðar JAR 66.1 til þess að gefa út JAR 66 skírteini flugvéltæknis með tæknilegum takmörkunum er sú að viðkomandi eigi rétt á útgáfu JAR 66 skírteinis skv. 1. ml. g. liðar JAR 66.1. Þannig er mögulegt að kærandi fái útgefið JAR 66 skírteini með þeim takmörkunum sem Flugmálastjórn Íslands telur að leiði af ákvæðum reglugerðarinnar um JAR 66 ef hann á rétt á útgáfu skírteinis á grundvelli "grandfathers rights". Þessi skilningur á g. lið JAR 66.1 er staðfestur í svarbréfi JAA. Kærandi setur fram þá varakröfu í síðari greinargerð sinni vegna málsins að FMS gefi út skírteini með takmörkunum. Það liggur fyrir að kærandi á ekki rétt á útgáfu skírteinis á grundvelli "grandfathers rights", þar sem hann uppfyllir ekki ákvæði reglugerðarinnar um grunnþekkingu og því verða slík réttindi ekki virk. Samkvæmt g. lið JAR 66.1 er ljóst að þeir sem ekki öðlast réttindi á grundvelli "grandfathers rights" geta ekki fengið útgefið skírteini með takmörkunum á grundvelli reglugerðarinnar um JAR 66. Ráðuneytið bendir á að ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands takmarkar ekki á neinn hátt atvinnuréttindi kæranda, þ.e. hann getur eftir sem áður unnið þá vinnu sem hann hefur unnið hingað til. Þá þykir rétt að ítreka það að Flugmálastjórn Íslands hefur bent á stöðupróf sem kæranda er heimilt að þreyta til að uppfylla framangreindar kröfur um grunnþekkingu og öðlast þar með rétt til þess að fá að því loknu útgefið JAR 66 skírteini.

Með vísan til þess sem að framan er ritað getur ráðuneytið ekki fallist á kröfu kæranda um útgáfu JAR 66.1 skírteinis á grundvelli 1. ml. g. liðar JAR 66 um "grandfathers rights. Varakröfu kæranda verður jafnframt að hafna með vísan til framangreindra raka um að 2. ml. g. liðar JAR 66 eigi einungis við um réttindi samkvæmt 1. málslið g. liðar sömu greinar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands, dags. 3. mars 2003, um að synja kæranda

um útgáfu JAR 66 skírteinis flugvéltæknis, er staðfest.

F.h.r.

Unnur Gunnarsdóttir Kristín Helga Markúsdóttir

Afrit sent Flugmálastjórn Íslands



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum