Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2004 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 21/2003

Ár 2004, föstudagurinn 20. febrúar er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 21/2003,

A ehf. gegn mönnunarnefnd

  1. Aðild kærumáls og kröfur.

Með stjórnsýslukæru, dags. 22. desember 2003, kærði B ehf., f.h. A ehf., (hér eftir nefndur kærandi) úrskurð mönnunarnefndar, (hér eftir nefnd kærða), dags. 17. desember 2003 þar sem hafnað er umsókn kæranda um að hafa tvo skipstjórnarmenn um borði í Skipinu C, í stað þriggja.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

  1. Stjórnsýslukæra dags. 22. desember 2003.
  2. Úrskurður mönnunarnefndar, mál nr. Ms 10/2003, dags. 17. desember 2003.
  3. Umsókn kæranda til mönnunarnefndar dags. 11. nóvember 2003.
  4. Yfirlýsing starfandi skipstjórnarmanna á skipinu C, dags. 19. desember 2003.
  5. Yfirlýsing mönnunarnefndar með tölvupósti dags. 15. janúar 2004.
  6. Bréf samgönguráðuneytis til kæranda dags. 2. febrúar 2004.
  7. Bréf kæranda með tölvupósti dags. 3. febrúar 2004.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsatvik.

Þann 11. nóvember 2003 barst kærðu umsókn um undanþágu frá fjölda skipstjórnarmanna á fiskiskipi, sbr. b-lið 4. gr. laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum með síðari breytingum. Sótt var um að hafa aðeins tvo skipstjórnarmenn um borð í fiskiskipinu C, en samkvæmt nefndum lögum eiga þeir að vera þrír. Áður hafði kærða heimilað undanþágu til bráðabirgða til að sigla skipinu frá Akureyri, þar sem skipið hafði verið í slipp, til Stykkishólms.

Kærða tók umsóknina til úrskurðar 17. desember 2003 og hafnaði beiðni kæranda. Kærandi vísaði úrskurði kærðu til samgönguráðuneytisins með stjórnsýslukæru dags. 22. desember 2003.

III. Málsástæður og rök kæranda.

Máli sínu til stuðnings bendir kærandi á að aðeins þurfi að hafa einn skipstjórnarmann með skipstjóra á fjölda línuveiðiskipa sem eru allt að 300 brl. að stærð og að skipið C sé einungis 24 brl. stærri en stærðarmörk laganna í þessu tilliti mæla fyrir um. Telur kærandi að verkefni um borð í skipinu krefjist ekki þriggja skipstjórnarmanna. Hann bendir á að skipið sé sambærilegrar gerðar, stundi sambærilegar veiðar og sé eins útbúið og mörg skip sem hafi aðeins tvo skipstjórnarmenn, hann telur raunar að verkefni þriðja skipstjórnarmannsins munu felast í vinnu á dekki en ekki skipstjórn.

Kærandi tiltekur að allur tæknibúnaður skipsins sé mjög góður, til að mynda fyrirkomulag á framdrifsbúnaði og neyðarstýri, auk þess sem eldskynjunar- og viðvörunarkerfi ásamt slökkvibúnaði sé mjög fullkominn. Að lokum bendir kærandi á að settar hafi verið upp fjórar eftirlitsmyndavélar sem senda myndir upp í brú sem auki öryggið mikið.

Að lokum ítrekar kærandi vægi yfirlýsingar þeirra tveggja skipstjórnarmanna sem gáfu umsögn sína um undanþágubeiðnina og bendir á að þeir hafi yfir 40 ára skipstjórnarreynslu. Um er að ræða yfirlýsingu þeirra skipstjóra sem vinna um borð í skipinu og telja þeir enga þörf á þriðja skipstjórnarmanninum.

IV. Málsástæður og rök kærðu.

Kærða vísaði til rökstuðnings í úrskurði sínum þegar henni var gefinn kostur á að tjá sig um efni stjórnsýslukærunnar og taldi hann nægja.

Í honum er vísað til þess að skrifleg umsögn Siglingastofnunar liggi ekki fyrir en að fulltrúar hennar hafi mætt á fund nefndarinnar. Fram kemur að stofnunin lagðist ekki gegn erindinu með þeim rökum að skipið væri 448 brúttótonn og þar með undir 500 brúttótonnum og yrði því ekki um fordæmi að ræða nema gagnvart skipum að þeirri brúttótonnastærð. Jafnframt kemur fram að Siglingastofnun hafi ekki fundið gögn um það, að heimilað hafi verið hafa tvo skipstjórnarmenn á skipinu.

Í niðurstöðu kærðu kemur fram að bráðabirgðaleyfi hafi á sínum tíma verið veitt til þess að sigla mætti skipinu með tvo skipstjórnarmenn frá Akureyri, þar sem skipið hafði verið í slipp, til Stykkishólms. Að lokum er í niðurstöðu kærðu rakið hvernig atkvæði féllu þegar úrskurðurinn var kveðinn upp og með hvaða rökum, þar segir: ?Fulltrúi skipstjórnarmanna í nefndinni er andvígur því, að leyfa undanþágu til frambúðar og bendir á, að með því myndi skapast fordæmi fyrir öll skip sem stærri eru en 300 brl. en fulltrúi útgerðarmanna er fylgjandi undanþágunni til línuveiða, og telur að þær veiðar sem sótt er um og stærð skipsins krefjist ekki fleiri skipstjórnarmanna en tveggja. Formaður styður sjónarmið fulltrúa skipstjórnarmanna og telur, að þar sem skýrt sé í lögum að hafa skuli þrjá skipstjórnarmenn á skipum,sem eru 301 brl. og stærri og hvorki tegund veiða, sóknarsvæði eða sóknartími eru frábrugðin því, sem almennt gerist um útgerð skipa af þessari stærð, séu ekki efni til að heimila undanþáguna."

V. Álit og niðurstaða ráðuneytis.

Ráðuneytið lítur svo á að kærandi hafi með stjórnsýslukæru sinni kært synjun kærðu á umsókn um heimild til að víkja frá b-lið 4. gr. laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna skv. 26. gr. l. nr. 37/1993 og að kæran hafi borist ráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. sömu laga.

Mál þetta fjallar um það, hvort veita beri undanþágu frá b-lið 4. gr. l. nr. 112/1984 sem kveður á um að í áhöfn fiskiskips sem er stærra en 301 rúmlest skulu vera tveir stýrimenn auk skipstjóra.

Helstu rök kæranda máli sínu til stuðnings eru þau að ;

  1. stærðarmunurinn sem steiti á sé einungis 24 brl.,
  2. tæknibúnaður skipsins sé mjög góður,
  3. samkvæmt yfirlýsingu starfandi skipstjóra telji þeir enga þörf á þriðja skipstjórnarmanninum í áhöfn skipsins.

Að beiðni ráðuneytisins útbjó kærandi lista yfir fjölda þeirra skipa sem stunda línuveiðar við Ísland um þessar mundir og stærð þeirra. Þar kemur fram að fjöldi skipa sem nú stunda línuveiðar hér við land eru 22 og eru þau allt frá 151 brl. að stærð til 446 brl. Af þessu má ráða að stærð þeirra skipa sem stunda línuveiðar er afar mismunandi sem leiðir til þess að þörf og kröfur fyrir fjölda í áhöfn eru ólíkar. Skip kæranda er fjórða stærsta skipið í flotanum og má ætla að þrátt fyrir góðan tæknibúnað, kalli stærð skipsins á ákveðinn fjölda í áhöfn.

Í lögum nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum er skýrt kveðið á um að á fiskiskipum sem eru 301 brl. og stærri skulu vera skipstjóri og tveir stýrimenn í áhöfn. Ákvæði þetta kom fyrst í lög um atvinnu við siglingar nr. 40 frá 1922. Í 18. gr. þeirra laga segir : ? Ekkert íslenskt skip, sem stærra er en 30 rúmlesta, má afgreiða frá nokkurri höfn hjer á landi, til ferða milli Íslands og annarra landa, eða í innanlandssiglingar, nema því aðeins, að á því sje til starfa að minnsta kosti einn stýrimaður auk skipstjóra, og sje um verslunargufuskip að ræða, sem er meira en 300 rúmlesta, skulu stýrimenn vera minnst tveir. " Lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og lágmarksfjölda í áhöfn hafa oft verið tekin til endurskoðunar frá því að framangreind regla var sett í lög. Þetta ákvæði laganna hefur haldist óbreytt sbr. b-lið 21. gr. laga 52/1968, b-lið 21. gr. laga nr. 69/1973, b-lið 4. gr. laga nr. 112/1984 sem er óbreytt þrátt fyrir að greininni hafi að öðru leyti verið breytt með lögum 62/1995. Af lögskýringargögnum með nefndum lögum verður ekki ráðið hvaða ástæður liggja að baki þessum stærðarmörkum. Það er a. m. k. augljós vilji löggjafans til mjög langs tíma, að miða fjölda stýrimanna í áhöfn fiskiskips við 300 brl. Taka má undir það sjónarmið kærðu að um fordæmi gagnvart skipum yfir þessum stærðarmörkum yrði að ræða ef umbeðin undanþága yrði heimiluð.

Kærandi bendir á máli sínu til stuðnings að tæknibúnaður skipsins sé óvenju góður. Ráðuneytið fær ekki séð að kærandi hafi sýnt fram á, hvorki í stjórnsýslukæru sinni né í öðrum gögnum, að tæknibúnaður skipsins sé betri og meiri en almennar kröfur í lögum og reglugerðum gera ráð fyrir. Þar af leiðir að sú röksemd kæranda getur ekki orðið forsenda undanþágu frá nefndri lagagrein.

Starfandi skipstjórnarmenn undirrita yfirlýsingu þess efnis að þriðji skipstjórnarmaðurinn sé óþarfur í áhöfn skipsins. Ráðuneytið telur að þó skoðun áhafnar skipti vissulega máli, geti hún ekki ráðið úrslitum veitingu undanþágu frá ótvíræðu lagaákvæði, eins hér um ræðir.

Að öllu þessu virtu er það álit ráðuneytisins, að þrátt fyrir bættan tæknibúnað skipa, sé með tilliti til þess hve ótvíræð lagareglan er, ekki hægt að verða við kröfu kæranda um undanþágu að óbreyttum lögum.

ú r s k u r ð a r o r ð:

Úrskurður mönnunarnefndar nr. Ms/ 10/2003 skal standa óbreyttur.

f.h.r.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum