Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2004 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 8/2004

Ár 2004, 7. júlí er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 8/2004,

A gegn Sýslumanninum á Selfossi.

I. Aðild kærumáls og kröfur:

Með stjórnsýslukæru, dags 24. janúar 2004, kærði A (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun embættis sýslumannsins á Selfossi (hér eftir nefnd kærði), frá 19. janúar 2004 um afturköllun á bráðabirgðaakstursheimild.

Kærandi krefst þess að framangreind afturköllun verði felld úr gildi.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Stjórnsýslukæra dags. 24. janúar 2004.

Nr. 2. Umsókn um ökuskírteini dags. 15. janúar 2004.

Nr. 3. Afrit heilbrigðisyfirlýsingar ? vottunar prófdómara.

Nr. 4. Afrit kennispjalds ökuskírteinis dags. 15. janúar 2004.

Nr. 5. Afrit bráðabirgðaakstursheimildar dags. 15. janúar 2004.

Nr. 6. Sakavottorð dags. 15. janúar 2004.

Nr. 7. Yfirlit yfir feril ökuréttinda dags. 19. janúar 2004.

Nr. 8. Afrit ákvörðunar sýslumannsins á Selfossi dags. 19. janúar 2004.

Nr. 9. Bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis dags. 24. apríl 2004.

Nr. 10. Bréf samgönguráðuneytisins dags. 27. apríl 2004.

Nr. 11. Bréf samgönguráðuneytisins dags. 28. apríl 2004.

Nr. 12. Bréf sýslumannsins á Selfossi dags. 17. maí 2004 ásamt dómi

héraðsdóms Norðurlands vestra 28. janúar 2003 í máli nr. S-501/2002.

Nr. 13. Bréf samgönguráðuneytisins dags. 24. maí 2004.

Nr. 14. Bréf kæranda dags. 5. júní 2004.

II. Málsmeðferð:

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og uppfyllir skilyrði 26. gr. sömu laga um stjórnvaldsákvörðun sem tæk er til kæru til æðra stjórnvalds.

III. Málsatvik:

Með umsókn dags. 15. janúar 2004 sótti kærandi um endurnýjun ökuskírteinis til sýslumannsins á Selfossi. Var gefin út bráðabirgðaakstursheimild til handa kæranda þann 15. janúar 2004, vegna ökuprófs, á meðan beðið var eftir nýju ökuskírteini. Jafnframt var skilað inn heilbrigðisyfirlýsingu og vottun prófdómara um að umsækjandi hafi staðist ökupróf fyrir tilgreindan réttindaflokk. Þann 19. janúar 2004 var kæranda birt ákvörðun sýslumannsins á Selfossi um að afturkalla bráðabirgðaakstursheimildina þar sem hann hafði verið sviptur ökurétti ævilangt með dómi þann 28. janúar 2003, frá 7. febrúar 2003 að telja.

Kærandi kærði afturköllun bráðabirgðaökuréttindanna með kæru dags. 24. janúar 2004 til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Kæran var framsend samgönguráðuneytinu ásamt fylgigögnum með bréfi dags. 24. apríl 2004 og var kæranda tilkynnt um það með bréfi samgönguráðuneytisins dags. 27. apríl 2004.

Með bréfi dags. 28. apríl 2004 var kærða gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 17. maí 2004. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við sjónarmið kæranda með bréfi dags. 24. maí 2004 og bárust athugasemdir frá honum þann 6. júní 2004.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

III. Málsástæður og rök kæranda:

Af kæru verður ráðið að kærandi byggi kröfu sína, um að afturköllun bráðabirgðaakstursleyfis verði felld úr gildi, á því að hann hafi verið í góðri trú um að honum væri heimilt að endurnýja ökuréttindi sín og að dómur sá, sem svipti hann ökuréttindum ævilangt, hefði einhverra hluta vegna fallið niður. Hafi verið um að ræða mistök af hálfu sýslumannsembættisins sé það alfarið ábyrgð embættisins enda hafi hann verið í góðri trú um rétt sinn. Því sé um ólögmæta sviptingu á réttindum að ræða.

IV. Málsástæður og rök kærða:

Kærði byggir kröfur sínar á því að þegar kæranda var veitt bráðabirgðaakstursheimild vegna ökuprófs, skv. umsókn um endurnýjun ökuskírteinis, hafi ekki legið fyrir upplýsingar um ævilanga sviptingu ökuréttinda í ökuskírteinaskrá á landsvísu. Útgáfa bráðabirgðaökuréttinda hafi því verið byggð á röngum forsendum. Auk þess er vísað til þess að hefði heimildin ekki verið afturkölluð hefði hún sjálfkrafa fallið úr gildi tæpum mánuði eftir afturköllunina. Ekki hefði komið til endurnýjunar heimildarinnar af hálfu embættisins né útgáfu ökuskírteinis til handa kæranda vegna þeirra upplýsinga sem þá voru fram komnar um ævilanga ökuréttarsviptingu.

V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins:

Í umferðarlögum nr. 50/1987 og reglugerð nr. 501/1997 eru ákvæði sem fjalla um hvenær aðila er heimilt að sækja um endurveitingu ökuréttinda eftir sviptingu og hvernig staðið skuli að slíku.

Samkvæmt 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er ekki heimilt að veita ökurétt að nýju, hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt, fyrr en sviptingin hefur staðið í fimm ár. Sækja skal um slíka heimild til samgönguráðuneytisins og er endurveiting aðeins heimil að sérstakar ástæður mæli með því en áður skal leita umsagnar viðkomandi lögreglustjóra, sbr. 2. mgr. greinarinnar.

Í 2. mgr. 64. gr. reglugerðar nr. 501/1997 segir síðan að sé endurveiting sviptra réttinda háð leyfi ráðherra skuli slík heimild fylgja umsókn um endurveitingu en af 1. mgr. ákvæðisins leiðir að umsókn má afhenda lögreglugstjóra óháð búsetu umsækjanda.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi var sviptur ökuréttindum ævilangt frá 7. febrúar 2003, með dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra þann 28. janúar 2003. Þeim dómi hefur ekki verið hnekkt.

Jafnframt er ljóst af gögnum að kærandi sótti um endurnýjun ökuskírteinis með umsókn dags. 15. janúar 2004 til sýslumannsins á Selfossi og fékk útgefna bráðabirgðaakstursheimild sama dag vegna ökuprófs, á meðan beðið var nýs ökuskírteinis.

Samkvæmt framangreindu var því ekki um umsókn kæranda um endurveitingu sviptra réttinda að ræða, enda ekki gætt þeirra aðferða sem lögin mæla fyrir um að viðhafa eigi við slíka umsókn, heldur sótti kærandi um endurnýjun ökurskírteinis.

Af tilvitnuðum ákvæðum umferðarlaga og reglugerðar um ökuskírteini og þess sem að framan greinir, er ljóst að kæranda var ekki heimilt að sækja um endurnýjun ökuskírteinis né var heimild fyrir því að veita honum bráðabirgðaakstursheimild þá sem um ræðir en svipting ökuréttar felur jafnframt í sér sviptingu réttar til að öðlast ökuskírteini, sbr. 4. mgr. 101. gr. umferðarlaga.

Geta hugsanleg mistök af hálfu embættis sýslumannsins á Selfossi við útgáfu nefnds bráðabirgðaleyfis ekki breytt skýrum ákvæðum laganna hvað þetta varðar. Af því leiðir að ekki eru efni til að fallast á kröfu kæranda um afturköllun bráðabirgðaakstursheimildar þann 19. janúar 2004.

Fær það jafnframt stoð í því að umrædd bráðabirgðaakstursheimild, sem kæranda var veitt, hafði stuttan afmarkaðan gildistíma eða einn mánuð. Ljóst er að hefði heimildin ekki verið afturkölluð, hefði hún fallið niður að gildistíma loknum en ekki fengist framlengd eða nýtt ökuskírteini gefið út, sbr. það sem að framan er rakið.

Úrskurðarorð.

Ákvörðun sýslumannsins á Selfossi frá 19. janúar 2004 um að afturkalla bráðabirgðaakstursheimild kæranda er staðfest.

Ragnhildur Hjaltadóttir Unnur Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum