Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2017 Dómsmálaráðuneytið

Drög að reglugerð um útlendingamál til umsagnar

Drög að reglugerð um útlendingamál sem sett er á grundvelli nýrra laga um útlendinga sem tóku gildi 1. janúar síðastliðinn eru nú til umsagnar á vef ráðuneytisins. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 19. febrúar næstkomandi og skulu þær sendar á netfangið [email protected].

Auk þessarar reglugerðar um útlendinga er verið að uppfæra tvær reglugerðir sem snerta útlendingamál, þ.e. reglugerð um vegabréfsáritanir og reglugerð um för yfir landamæri.

Vinna við skrif reglugerða hófst þegar lög um útlendinga, nr. 80/2016, voru samþykkt á Alþingi í júní á síðasta ári að viðhöfðu samráði við fagaðila. Meðal þeirra sem komu að gerð reglugerðanna auk starfsmanna innanríkisráðuneytisins voru starfsmenn Útlendingastofnunar, velferðarráðuneytis, samráðshópur um mennta- og menningarmál barna í hælismeðferð, sérstakur fjármálahópur sem skipaður var vegna vinnu við reglugerðirnar og fleiri. Litið var til reynslu annarra Evrópuþjóða og þá helst Norðurlandanna. Þá var einnig stuðst við skýrslur alþjóðastofnana og alþjóðasamtaka á sviði útlendingamála.

Reglugerðardrögin um útlendinga fela í sér heildarendurskoðun á eldra reglugerðarumhverfi en með lögum nr. 80/2016 hafa eldri ákvæði laga og reglugerða ýmist fallið brott, þeim verið breytt eða þau færð úr reglugerðum í lög.

Meðal helstu breytinga/nýmæla í reglugerð um útlendinga eru:

  • Nánari útfærsla á veitingu og skilyrðum langtímavegabréfsáritana.
  • Skýrar er kveðið á um hvaða gögnum umsækjanda um dvalarleyfi ber að skila með umsókn. Þá er jafnframt kveðið skýrar á um hvaða gögnum Útlendingstofnun er heimilt að óska eftir við úrvinnslu dvalarleyfisumsókna og undantekningar frá gagnakröfum.
  • Ákvæði um greiningar- og móttökumiðstöðvar sem Útlendingastofnun starfrækir og önnur samningsbundin þjónustuúrræði sveitarfélaga.
  • Ákvæði um heilbrigðisþjónustu er umsækjendur um alþjóðlega vernd skulu eiga kost á.
  • Ákvæði um lágmarksviðmið um fræðslu og menntun barna í móttökuúrræðum.
  • Ákvæði um fæði, húsnæði, lágmarksframfærslu og vasapeninga umsækjenda um alþjóðlega vernd.
  • Ákvæði um skilyrðingu framfærslu ef viðkomandi gerir ekki grein fyrir sér eða mætir ekki í viðtöl og birtingar.

Ítrekað er að senda má umsögn um reglugerðardrögin til og með 19. febrúar næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum