Hoppa yfir valmynd
10. mars 2005 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 24/2004

Ár 2005, 10. mars, er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 24/2004,

A gegn Umferðarstofu

I. Aðild kærumáls og kröfur.

Með stjórnsýslukæru, dags 22. nóvember 2004, kærði B hrl. fyrir A (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Umferðarstofu (hér eftir nefnd kærði) frá 5. júlí 2004 að hjól innflutt af kæranda teljist ekki reiðhjól í skilningi 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, heldur væri um létt bifhjól að ræða.

Kærandi krefst þess að framangreind ákvörðun kærða verði ógilt af samgönguráðuneytinu og lagt fyrir stofnunina að staðfesta að hjól kæranda teljist reiðhjól í skilningi 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Stjórnsýslukæra dags. 22. nóvember 2004.

Nr. 2. Bréf kærða til kæranda dags. 5. júlí 2004.

Nr. 3. Myndir af hjólategundum, "Certification" frá Yongkang Skooda Vehicle Industry, ódagsettar.

Nr. 4. Bréf kæranda til kærða dags. 21. júní 2004.

Nr. 5. Bréf Tollstjórans í Reykjavík til kæranda dags. 15. júlí 2004.

Nr. 6. Bréf kæranda til Tollstjórans í Reykjavík dags. 6. ágúst 2004.

Nr. 7. Úrskurður Tollstjórans í Reykjavík nr. 21/2004, dags. 4. október 2004.

Nr. 8. Umsögn kærða dags. 21. desember 2004.

Nr. 9. Bréf Tollstjórans í Reykjavík til samgönguráðuneytisins dags. 21. desember 2004.

Nr. 10. Bréf lögmanns kæranda til samgönguráðuneytisins dags. 3. janúar 2005.

Nr. 11. Tölvupóstur lögmanns kæranda til samgönguráðuneytisins dags. 3. janúar 2005.

Nr. 12. Bréf Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli dags. 5. janúar 2005.

II. Málsmeðferð.

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu þann 22. nóvember 2004 en hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi kærði þann 5. júlí 2004. Samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) skal kæra borin fram inna þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Kærufrestur var því liðinn er kæra barst ráðuneytinu og þarf því í upphafi að taka afstöðu til þess hvort heimilt er að taka kæru þessa til meðferðar.

Samkvæmt 26. gr. ssl. er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðri stjórnvalds. Því er einnig nauðsynlegt í upphafi að leysa úr því hvort hin kærða ákvörðun er stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga en af málatilbúnaði kærða er ljóst að hann telur svo ekki vera.

III. Málsatvik:

Af fyrirliggjandi gögnum málsins er ljóst að kærandi stóð fyrir innflutningi hjóla í júní 2004. Kærandi fékk heimild tollstjóra til að tollafgreiða átta ökutæki úr framangreindri sendingu gegn því skilyrði að hann afhenti þau kærða til skoðunar.

Með bréfi dags. 21. júní 2004 tilkynnti kærandi kærða að hann hefði hafið innflutning á faratækjum sem eru hönnuð þannig að þau fari ekki yfir 15 km/klst. hraða og eru framleidd skv. lögum nr. 50/1987 sbr. breytingar með lögum 84/2004. Í bréfinu fór kærandi fram á það við kærða að hann "lýsi yfir eða óski eftir að vera umsagnaraðili vegna þessa innflutnings og á hvaða forsendu er (eða) ætluð aðkoma Umferðarstofu verði við framkvæmd á tollun eða öðrum opinberum (stjórnsýslulegum) afskiptum á innflutningi þessum." Í bréfi kæranda kemur jafnframt fram að þetta erindi sé tilkomið vegna óska Tollstjórans í Reykjavík.

Kærandi færði tvö hjól til skoðunar hjá kærða. Kærði skoðaði einnig önnur sex hjól að beiðni tollyfirvalda.

Með bréfi dags. 5. júlí 2004 tilkynnti kærði kæranda að umrædd ökutæki falli undir skilgreiningu á léttu bifhjóli og séu því skráningarskyld. Samskonar tilkynning var send Tollstjóranum í Reykjavík.

Í kjölfarið fór Tollstjórinn í Reykjavík, með bréfi dags. 15. júlí 2004, fram á við kæranda að umrædd ökutæki yrðu endursend innan 15 daga frá dagsetningu bréfsins þar sem skilyrði tollafgreiðslunnar væri ekki fyrir hendi. Einnig að fengjust ökutækin skráð myndi sú skráning lögð fram innan sama tímafrests og myndi þá endursendingarkrafan falla niður. Óskaði Tollstjórinn jafnframt eftir staðfestingu á endursendingu.

Kærandi kærði ákvörðun tollstjóra til Tollstjórans í Reykjavík, sbr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, þann 6. ágúst 2004 og fór fram á endurskoðun ákvörðunarinnar og heimildar til innflutnings á vörum þessum sem reiðhjólum.

Tollstjórinn í Reykjavík kvað upp úrskurð í máli nr. 21/2004 þann 4. október 2004 þar sem hin kærða ákvörðun er staðfest um afturköllun heimildar til tollafgreiðslu tiltekinnar sendingar kæranda. Í úrskurðinum kemur jafnframt eftirfarandi fram:

"Umferðarstofa fer með stjórnsýslu á sviði umferðarmála, einkum varðandi umferðarreglur, ökutæki og fleira, sbr. 111. og 112. gr. umferðarlaga. Umferðarstofa ber ábyrgð á umsjón með skráningu ökutækja og fjallar um tæknileg atriði sem tengjast þeim, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar númer 751/2003 um skráningu ökutækja. Umferðarstofa setur verklagsreglur um skráningu í ökutækjaskrá og útgáfu skráningarskírteinis, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Umferðarsofa hefur mat á því hvaða ökutæki séu skráningarskyld í ökutækjaskrá. Embætti tollstjórans í Reykjavík fer ekki með slíkt mat og ber því að taka mið af sérfræðimati Umferðarstofu sem hliðsetts stjórnvalds við meðferð mála sem þarfnast aðkomu beggja." Auk þess er vakin athygli á kæruheimild til samgönguráðherra, rísi ágreiningur um það til hvaða flokks skv. 2. gr. umferðarlaga ökutæki skuli teljast.

Með kæru dags. 22. nóvember 2004 kærði kærandi ákvörðun Umferðarstofu dags. 5. júlí 2004, að tiltekin hjól teljist ekki reiðhjól í skilningi 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Kæra var send kærða til umsagnar þann 2. desember 2004. Jafnframt var óskað upplýsinga frá Tollstjóranum í Reykjavík sem bárust þann 21. desember 1994. Einnig var óskað upplýsinga frá Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli, þann 3. desember 2004 vegna ummæla í kæru um að embættið hefði heimilað innflutning samskonar hjóla. Málsástæða þessi er ekki höfð uppi í kæru þessari en engu að síður ákveðið að leita skýringa frá embættinu til að upplýsa máli frekar. Bárust skýringar 5. janúar 2005 en þær gefa ekki tilefni til nánar umfjöllunar í úrskurði þessum.

Umsögn kærða barst þann 21. desember 2004. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við sjónarmið kærða með bréfi dags. 28. desember 2004 og bárust athugasemdir 3. janúar 2005.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

III. Málsástæður og rök kæranda.

Kærandi byggir kröfu sína um að kæran verði tekin til meðferðar, þrátt fyrir að lögboðinn kærufrestur sé liðinn, á því að 1. tl. 1. mgr. 28. gr. ssl. eigi við, það sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr. Það stafi af því að kærði hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu skv. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. ssl. um að leiðbeina kæranda um kæruheimildir þegar ákvörðun stofnunarinnar, þann 5. júlí 2004, var kynnt kæranda. Jafnframt er á því byggt að tollstjóri hafi ekki gætt skyldu 2. mgr. 7. gr. ssl. um skyldu til framsendingu erinda sem ekki eigi undir starfssvið viðkomandi stjórnvalds á réttan stað.

Kærandi byggir kröfur sínar um ógildingu ákvörðunar kærða og að lagt verði fyrir hann að staðfesta að hjólin verði talin reiðhjól í skilningi 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingu (umfl.) á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi því að kærði hafi brotið á sér andmælarétt 14. gr. ssl. og leiði það til ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar. Skipti þar þrjú atriði máli:

1. Svið rannsóknar kærða hafi verið víkkað út án þess að kærandi fengi að tjá sig um það og án vitneskju hans.

2. Kærði hafi byggt á gögnum sem kæranda var ókunnugt um.

3. Breytingar hafi verið framkvæmdar á hjólunum af kærða til að auka hraða þeirra án þess að það hafi verið kynnt fyrir kæranda eða honum gefinn kostur á að tjá sig um þær.

Í öðru lagi telur kærandi að ákvörðunin byggi á ómálefnalegum forsendum. Með hjólunum hafi fylgt staðfesting framleiðanda á því að þau hafi verið framleidd með það fyrir augum að uppfylla íslenskar kröfur um hámarkshraða reiðhjóla og þeirri staðfestingu hafi ekki verið hnekkt. Kærði hafi framkvæmt breytingar á hjólunum til að þau næðu hærri hámarkshraða en það sé ófullnægjandi og ómálefnalegt þar sem skoðun hljóti ávallt að byggjast á skoðun á hjólunum eins og þau koma frá framleiðanda. Þótt nýta megi sérkunnáttu til að breyta vélbúnaði sé óviðunandi að miða við það.

Að auki bendir kærandi á að efnislegt mat kærða á hámarkshraða hjólanna sé verulegum annmörkum háð. Til viðbótar við framangreint hafi kærða skort tækjabúnað til hraðamælinga og vélfræðilegra athuganna.

IV. Málsástæður og rök kærða.

Af málatilbúnaði kærða er ljóst að hann telur ákvörðun um til hvaða flokks ökutæki telst skv. 2. gr. umfl. ekki vera stjórnvaldsákvörðun sem er kæranleg og hafi kærði ekkert úrskurðarvald hvað flokkunina varðar.

Þetta byggir kærði á því að reiðhjól sé ekki skráningarskylt ökutæki og falli utan þeirrar stjórnsýslu sem honum sé falin á sviði umferðarmála. Svör kærða við erindum sem berast um flokkun skv. 2. gr. umfl. eigi að líta á sem ráðgefandi upplýsingar en ekki bindandi ákvörðun enda standi lög og reglur ekki til þess. Meðferð slíkra erinda verði enda að vera formlegri en nú er, eigi að skoða álit um þetta sem bindandi ákvörðun. Af því leiði að álit þetta sætir ekki kæru til æðra stjórnvalds.

Innflytjanda skráningarskylds ökutækis beri hins vegar að afhenda kærða gögn um ökutæki þegar það er flutt inn, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 751/2003, vegna forskráningar. Mál er varða innflutning hjóla þurfi því ekki að koma til meðferðar hjá kærða nema í tengslum við forskráninguna.

Í máli kærða kemur jafnframt fram að skoðun hjólanna hafi annars vegar verið vegna beiðni frá innflytjanda og hins vegar beiðni tollyfirvalda, kærði hafi þannig ekki átt frumkvæði að því að skoða hjólin. Skoðun hafi verið framkvæmd af tæknimenntuðum starfsmönnum kærða sem hafi langa reynslu af því að skrá og skoða ökutæki. Þeir hafi einnig skoðað bæklinga sem fylgdu hverju hjóli þar sem fram kom að hjólin væri hönnuð fyrir meiri hámarkshraða en 15 km/klst. en minni hraða en 45 km/klst. Tvö hjól voru prófuð og náðu hvorugt 15 km/klst. Við skoðun hafi komið í ljós að breytingar hafi verið gerðar til að takmarka hámarkshraða með því að skífum hafi verið komið fyrir undir eldsneytisgjöf þannig að ekki var unnt að fá þá orku sem mögulegt var. Auðvelt hafi verið að fjarlægja skífurnar og við prófun á öðru hjólinu eftir það hafi það auðveldlega náð meiri hraða en 15 km/klst. Kærði hafi því talið allt benda til að ökutækin falli undir skilgreiningu á léttu bifhjóli og vera skráningarskyld ökutæki.

V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins.

1. Ákvörðun stjórnvaldsákvörðun

Samkvæmt 26. gr. ssl. er einungis heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir til æðra stjórnvalds. Í upphafi er því nauðsynlegt að leysa úr því álitaefni hvort ákvörðun kærða, að innflutt hjól séu ekki reiðhjól, teljist stjórnvaldsákvörðun í skilningi laganna.

Til að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða, verður ákvörðun að vera tekin í skjóli stjórnsýsluvalds og varðar réttindi eða skyldur manna.

Samkvæmt 111. gr. umfl. annast kærði stjórnsýslu á sviði umferðarmála. Í 112. gr. laganna er hlutverk kærða talið upp og segir þar í a-lið 1. mgr. að kærði annist skráningu ökutækja og aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað.

Um skráningu ökutækja gildir reglugerð nr. 751/2003. Kemur þar fram að kærði haldi ökutækjaskrá og annist aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað. Í 2. gr. umfl. eru ýmsar skilgreiningar, þar á meðal á ýmsum tegundum ökutækja sem ýmist eru skráningarskyld eða ekki, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 751/2003.

Af framangreindu er ljóst að ákveða þarf hverju sinni til hvaða flokks ökutæki telst m.a. í því skyni að kveða á um skráningarskylduna og er kærða með umfl. falið að skera úr um það. Umferðarlögin gera ráð fyrir að ákvörðun sé tekin um flokk skv. 2. gr. umfl. sbr. 1. mgr. 61. gr. umfl. þar sem segir að ráðherra skeri úr um ágreining er þetta varðar. Til að unnt sé að skera úr um ágreining, verður einhver ákvörðun að liggja fyrir og leiðir það af þessu ákvæði, um úrskurðarvald ráðherra, að um ákvörðun stjórnvalds er að ræða.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. ssl. gilda lögin þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Ákvörðun um hvernig ökutæki er skráð getur leitt af sér skyldur þegar ökutæki er skráningarskylt þar sem flokkunin er grundvöllur skyldu til frekari aðgerða af hálfu eiganda. Má þar nefna sjálfa skylduna til skráningar, skattlagningu, meðferð ökutækisins og notkun. Ákvörðun um flokkun ökutækja skv. 2. gr. umfl. hefur því réttaráhrif um skyldur manna.

Það er niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun kærða, um að hjól sem kærandi flutti inn teljist ekki reiðhjól skv. 2. gr. umfl., hafi verið stjórnvaldsákvörðun í skilningi 1. mgr. 2. gr. ssl. Af því leiðir að ákvörðunin er kæranleg, bæði á grundvelli 61. gr. umfl. sem og hinnar almennu kæruheimildar 26. gr. ssl.

2. Kærufrestur.

Samkvæmt 27. gr. ssl. er almennur kærufrestur 3 mánuðir frá því aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Ákvörðun kærða var tekin þann 5. júlí 2004 en kæra barst samgönguráðuneytinu ekki fyrr en þann 22. nóvember 2004 og því ljóst að kærufrestur var liðinn þegar kært var.

Hins vegar, eins og áður er rakið, telur kærandi skilyrði 1. tl. 1. mgr. 28. gr. ssl. um undanþágu frá frávísunarákvæði 1. mgr. 28. gr. ssl. eiga við, þannig að afsakanlegt sé að kæra barst of seint. Vísar kærandi til þess að í ákvörðun kærða hafi ekki verið getið um kæruleiðir og því leiðbeiningarskyldu 2. tl. 2. mgr. 20. gr. ssl. ekki gætt. Jafnframt að tollstjóri hafi ekki gætt ákvæða stjórnsýslulaga um framsendingu erinda, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna.

Í skýringum með 1. tl. 1. mgr. 28. gr. ssl. er sem dæmi tekið um afsakanlega ástæðu fyrir því að ekki er kært innan kærufrests, að stjórnvald hafi vanrækt að veita leiðbeiningar um kæruheimild skv. 20. gr. laganna.

Eins og að framan er rakið telur ráðuneytið hina kærðu ákvörðun vera stjórnvaldsákvörðun og bar því af þeim sökum að geta um kæruheimildir. Þar sem ekki var um slíkt að ræða telur ráðuneytið að undantekning 1. tl. 1. mgr. 28. gr. ssl. eigi við í máli þessu og að heimilt sé að taka kæru kæranda til úrskurðar.

3. Afgreiðsla.

Þar sem ákvörðun kærða um flokkun ökutækja skv. 2. gr. umfl. er, að mati ráðuneytisins, stjórnvaldsákvörðun, gilda um þá ákvörðun ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ber að gæta þeirra við meðferð og afgreiðslu máls þessa.

Í kæru kemur fram að kærandi telur meðferð málsins hjá kærða ekki hafa verið í samræmi við stjórnsýslulög með því að andmælaréttur 14. gr. ssl. hafi verið á sér brotinn, leiðbeiningarskyldu 2. tl. 2. mgr. 20. gr. ekki gætt né framsendingarskyldu skv. 2. mgr. 7. gr. ssl.

Við skoðun á því hvort andmælaréttur hafi verið brotinn á kæranda má einnig líta til rannsóknarreglu 10. gr. ssl. en reglur þessar eru yfirleitt tengdar þannig að oft er mál ekki nægilega upplýst nema aðila hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn málsins og koma að frekari upplýsingum og skýringum.

Kærandi telur andmælarétt hafa verið brotinn með því að:

A. Hjól hafi veri rannsökuð og svið rannsóknarinnar þannig víkkað út, án þess að kærandi fengi að tjá sig um það,

B. kærði hafi byggt á gögnum sem kæranda var ókunnugt um og

C. kærði hafi framkvæmd breytingar á hjólunum án þess að gefa kæranda tækifæri til að tjá sig um þær.

Hér á eftir verður fjallað um hvern lið fyrir sig.

A. Þessar athugasemdir kæranda voru sendar kærða til umsagnar. Í umsögn hans kemur fram að skoðuð hafi verið tvö hjól að ósk kæranda og sex hjól að ósk tollyfirvalda. Tvö hjól hafi verið prófuð og ekki náð 15 km/klst. en við skoðun hafi komið í ljós að breytingar hafi verið gerðar sem auðvelt var að fjarlægja og við það náðu hjólin auðveldlega meiri hraða.

Ekki kemur fram í umsögn kærða að önnur hjól hafi verið hraðaprófuð né hvort kærandi var viðstaddur prófunina og skoðun hjólanna eða hvort honum var boðið það. Ekkert kemur heldur fram um þetta í síðari athugasemdum kæranda.

Í gögnum málsins er að finna úrskurð Tollstjórans í Reykjavík dags. 4. október 2004, mál nr. 21/2004. Þar kemur fram að kærandi hafi fengið heimild til að tollafgreiða átta ökutæki gegn því skilyrði að hann afhenti þau til kærða til skoðunar. Kærandi hafi hins vegar einungis farið með tvö þeirra til skoðunar þrátt fyrir að forsenda úttektar af sendingu hafi verið að öll ökutækin yrðu færð til kærða til skoðunar. Því hafi tollstjóri óskað eftir að kærði skoðaði hin sex hjólin.

Engar nánari upplýsingar eru í gögnum málsins um þetta né hefur því verið mótmælt af hálfu kæranda að þetta skilyrði um skoðun allra hjólanna hafi verið sett af hálfu tollstjóra. Verður því lagt til grundvallar hér að tollstjóri hafi sett framangreint skilyrði fyrir tollafgreiðslu, þ.e. um að öll hjólin yrðu skoðuð af kærða. Engar skýringar hafa hins vegar verið gefnar af hálfu kæranda á því af hverju einungis tvö hjól voru færð til skoðunar.

Kærandi gerir í kæru athugasemdir við að kærði hafi skoðað fleiri hjól en hann hafi komið með, án frumkvæðis kæranda. Í gögnum málsins er bréf kæranda til Tollstjórans í Reykjavík, dags. 6. ágúst 2004. Í því bréfi gerir kærandi athugasemdir við það hvernig skoðun og prófun hjólanna fór fram og má einnig ráða af bréfinu að kærandi hafi að einhverju leyti tekið þátt í prófun með því að aka öðru hjólinu. Kemur jafnframt fram hjá kæranda að 4 hjólum hafi verið ekið í hans viðurvist .

Af framangreindu verður ekki annað ráðið en kærandi hafi verið viðstaddur skoðun einhverra af þeim átta hjólum sem hann fékk heimild til innflutnings á og hann hafi einnig verið viðstaddur prófun á hjólunum sem voru hraðaprófuð.

B. Kærandi byggir málatilbúnað sinn einnig á því að við skoðun hafi verið byggt á gögnum sem kæranda var ókunnugt um og er þar vísað til bæklinga sem kærði vitnar til en kærandi kveðst aldrei hafa séð.

Í umsögn kærða kemur fram að starfsmenn hans sem skoðuðu hjólin hafi einnig skoðað bæklinga sem fylgdu hverju hjóli. Ekki er nánar fjallað um efni og innihald þessara bæklinga í gögnum málsins, nema í umsögn kærða kemur fram að í bæklingum komi fram að hjólin eru hönnuð fyrir meiri hraða en 15 km/klst. en minni hraða en 45 km/klst. Í síðari athugasemdum kæranda er ítrekað að honum sé ókunnugt um tilvist þessara bæklinga.

Í gögnum kemur fram að bæklingar þeir sem kærði skoðaði, hafi fylgt hjólunum þegar þau voru færð til skoðunar. Þar sem bæklingar þessir voru afhentir með hjólunum verður að líta svo á, að kærða hafi verið rétt að álykta að bæklingarnir hafi verið hluti af því sem var afhent til skoðunar, til nánari skýringa og kæranda jafnvel skylt, að skoða, til að viðhafa vönduð vinnubrögð til að afla þeirra upplýsinga um hjólin sem stofnunin taldi nauðsynleg, til að framkvæma umbeðna skoðun.

C. Kærandi bendir jafnframt á að kærði hafi gert breytingar á hjólunum, án þess að honum hafi verið kunnugt um þær eða gefinn kostur á að tjá sig um þær. Eins og áður er rakið kom í ljóst við skoðun hjá kærða að skífur höfðu verið settar undir eldsneytisgjöf á tveimur hjólum til að takmarka hámarkshraða þeirra. Auðvelt hafi verið að fjarlægja skífurnar og þannig ná meiri hraða. Ekki er getið um að átt hafi verið við hjólin að öðru leyti af hálfu starfsmanna kærða.

Eins og framan er rakið verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en kærandi hafi verið viðstaddur skoðun einhverra af þeim átta hjólum sem hann fékk heimild til innflutnings á og hann hafi einnig verið viðstaddur prófun á þeim hjólum sem voru hraðaprófuð. Því verður að líta svo á að hann átt möguleika á því að koma að athugasemdum og ábendingum við þá framkvæmd, á því stigi. Á sama hátt má líta svo á að kærandi hafi átt þess kost að fylgjast með þegar hraðatakmarkandi skífur voru fjarlægðar og hjólin prófuð aftur, hafi það átt sér stað á sama tíma.

Af öllu því sem að framan er rakið verður ekki séð að andmælaréttur stjórnsýslulaga hafi að öllu leyti verið brotinn á kæranda.

4. Niðurstaða.

2. gr. umfl. hefur að geyma ýmsar skilgreiningar á hugtökum laganna, þar á meðal hvað telst til reiðhjóla. Sú skilgreiningar var sett með lögum nr. 84/2004 og var þar nýmæli að einnig lítil vél- eða rafknúin farartæki geta nú fallið undir þessa skilgreiningu. Í c-lið skilgreiningarinnar er sett það skilyrði fyrir því að slík hjól falli þar undir að þau sé hönnuð til aksturs á hraða frá 8-15 km/klst. Í athugasemdum með frumvarpinu er þessu lýst nánar þannig að tæki sem þessi séu of veigalítil til að vera í almennri umferð og skapi það almenna slysahættu. Því sé eðlilegt að skilgreina þau sem reiðhjól og með því sé heimilt að nota þau á gangstéttum, göngu- og hjólreiðastígum. Er áherslan á á því að hjólin séu ekki hönnuð fyrir meiri hraða en 15 km/klst.

Samkvæmt þessu ræðst það að öllu leyti af því hvernig hjólin eru hönnuð og hvaða hraða þau ná miðað við það, hvort þau teljast reiðhjól í skilningi umferðarlaganna. Í skýru orðalagi ákvæðisins felst að hjólin mega ekki vera hönnuð fyrir meiri hraða en í ákvæðinu segir og á þetta því ekki við um hjól sem eru hönnuð fyrir meiri hraða en er breytt þannig að þau eru innan hraðamarka. Skoðun og prófun á hraða hjólanna í þessu tilliti er því veigamikið atriði við ákvörðun um flokkun.

Í gögnum málsins kemur fram að kærði hraðaprófaði tvö hjól að beiðni kæranda. Þau hafi bæði verið með breytingum sem takmörkuðu hraða. Eftir að hraðatakmörkun var fjarlægð hafi annað hjólið verið prófað og það náð meiri hraða en 15 km/klst. Í bréfi frá kæranda kemur fram að hann hafi verið viðstaddur prófun á 4 hjólum og ekkert þeirra hafi náð meiri en 15 km/klst. Nokkuð misræmi er því í frásögnum aðila um fjölda hjóla sem voru skoðuð og hraðaprófuð en engar frekari upplýsingar eru í málinu um prófum á hjólunum, hönnun þeirra eða breytingar.

Þar sem hraðamörk hjóla eru ákvarðandi þáttur í því hvort þau flokkast sem reiðhjól telur ráðuneytið að framangreind skoðun kærða hafi ekki verið fullnægjandi til úrlausnar um það hvort allar hjólategundirnar sem færðar voru til skoðunar flokkuðust sem reiðhjól.

Af gögnum málsins er ljóst að kærði leitaði ekki eftir skýringum og athugasemdum frá kæranda, eftir að skoðun á hjólunum hafði fari fram. Í bréfi kærða til kæranda þann 5. júlí 2004, þar sem tilkynnt er um niðurstöðu kærða af skoðun, er kæranda ekki gefinn kostur á að gera athugasemdir við niðurstöðuna eða gefa skýringar að öðru leyti. Ekki er heldur að sjá að kærði hafi leitað nánari upplýsinga hjá kæranda um tilurð og tilgang hraðatakmarkandi búnaðar eða gefið kæranda færi á að færa rök fyrir því að hjólin teldust reiðhjól í skilningi 2. gr. umfl.

Þar sem það er mat ráðuneytisins, að ákvörðun um flokkun ökutækja skv. 2. gr. umfl. sé stjórnvaldsákvörðun, telur ráðuneytið að ekki hafi að öllu leyti verið gætt andmælareglu stjórnsýslulaga eða rannsóknarreglu laganna, við ákvörðunartöku kærða um flokkun hjólanna skv. 2. gr. umfl. Jafnframt liggur fyrir að ekki var gætt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. laganna um tilkynningu um kæruheimildir sbr. það sem áður er rakið.

Ráðuneytið telur að ekki hafa farið fram fullnægjandi rannsókn og prófum á þeim hjólum er máli þetta varðar, til að unnt sé að taka ákvörðun um hvort þau teljast reiðhjól í skilningi c-liðar 2. gr. umfl. Er því lagt fyrir kærða að framkvæma á ný rannsókn og prófun á hjólunum, komi fram beiðni þess efnis frá kæranda og gæta við þá skoðun andmælaréttar kæranda, sbr. þau sjónarmið sem fram koma í úrskurði þessum.

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir Umferðarstofu að framkvæma á ný skoðun og hraðaprófum á hjólum sem hér um ræðir, innfluttum af A og taka ákvörðun um flokkun þeirra, komi fram beiðni þess efnis.

Ragnhildur Hjaltadóttir Unnur Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum