Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2005 Innviðaráðuneytið

Mál nr 3/2004

Ár 2005, 28. Febrúar var í samgönguráðuneytinu tekið til afgreiðslu B hdl., Lögmönnum Skólavörðustíg 12, Reykjavík, fyrir hönd A ehf., frá 4. janúar 2005. Í erindinu er krafist endurupptöku á úrskurði samgönguráðuneytisins frá 24. maí 2004 og endurskoðunar á ákvörðun ráðuneytisins.

Af þessu tilefni er kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli númer 3/2004

I. Aðild kærumáls og kröfur.

Með bréfi dags. 4. janúar 2004 setti B hdl. fram þá kröfu við samgönguráðuneytið, að það endurupptæki úrskurð sinn frá 24. maí 2004 og endurskoðaði staðfestingu ráðuneytisins á ákvörðun Siglingastofnunar að synja skráningu skipsins C á nýjan eiganda. Jafnframt er þess krafist að umskráning miðist við 14. janúar 2002 en það er sá dagur sem upphaflega var krafist umskráningar.

Beiðni sína um endurupptöku byggir kærandi á áliti Umboðsmanns Alþingis nr. 4176/2004 frá 30. desember 2004 og með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í nefndu áliti komst Umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að úrskurður samgönguráðuneytisins hafi ekki verið í samræmi við lög enda stæðist ekki að miða við að annar aðili en sá sem er eigandi að lögum væri skráður eigandi í skipaskrá.

II. Málsatvik.

Málsatvik eru þau að lögmaður kæranda krafðist þess, með bréfi til Siglingastofnunar í júlí 2003, að eigendaskráning skipsins í aðalskipaskrá yrði leiðrétt í samræmi við þinglýsan kaupsamning. Siglingastofnun hafnaði kröfu kæranda, með bréfi dags. 26. febrúar 2004 með eftirfarandi rökum:

"Siglingastofnun hefur það hlutverk samkvæmt 4. gr. laga nr. 115/1995, um skráningu skipa að halda aðalskipaskrá yfir öll skip sem skráð eru samkvæmt lögum.

Tólfta grein laganna fjallar um eigendaskipti á skipum, Samkvæmt henni skráir Siglingastofnun nýjan eiganda í skipaskrá þegar stofnunin hefur fengið þinglýsta eignarheimild og skráningarbeiðni. Siglingastofnun hefur í fjölda ára notað afsöl og einungis afsöl sem eignarheimild í þessu samhengi, enda er afsal einhliða skrifleg yfirlýsing þess efnis að eignarrétti sé afsalað frá útgefanda skjalsins til annars aðila. Kaupsamningur er hins vegar gerningur þar sem stefnt er að því að yfirfæra eignarrétt frá seljanda til kaupanda gegn greiðslu.

Siglingastofnun getur ekki fallist á erindið og umskráð skipið Storm SH-333 í skipaskrá fyrr en fullnægjandi eignarheimild berst, þ.e. afsal."

Þessa niðurstöðu kærði lögmaður kæranda til samgönguráðuneytisins þann 3. mars 2004. Ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn þann 24. maí 2004 og var niðurstaðan að skilningur Siglingastofnunar á orðinu eignarheimild í skilningi 12. gr. laga nr. 115/1985 væri réttur. Synjun Siglingastofnunar var því staðfest.

Lögmaður kæranda leitaði til Umboðsmanns Alþingis þann 5. ágúst 2004 með kvörtun vegna úrskurðar samgönguráðuneytisins þar sem á því var byggt að niðurstaða Siglingastofnunar og ráðuneytisins væri efnislega röng.

Með áliti sínu þann 30. desember 2004 komst Umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að afstaða Siglingastofnunar og eftir atvikum samgönguráðuneytisins um að afsal verði að hafa verið gefið út áður en umskráning geti átt sér stað, ekki byggða á réttum lagagrundvelli.

III. Málsástæður.

Kærandi krefst endurupptöku málsins með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 27/1993 og þeirrar niðurstöðu í áliti Umboðsmanns að úrskurður samgönguráðuneytisins hafi ekki verið í samræmi við lög enda stæðist ekki að miða við að annar aðili en sá sem er eigandi að lögum væri skráður eigandi í skipaskrá.

Umboðsmaður dregur þá ályktun um tilgang núgildandi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 um skráningu skipa að með ákvæðinu hafi verið stefnt að því að gæta fulls samræmis á milli þess hver er skráður eigandi skips í skipaskrá og hver hefur yfir að ráða þinglýstri eignarheimild aðlögum. Samkvæmt þinglýsingarlögum nr. 39/1978 fari um þinglýsingu skrásettra skipa stærri en 5 rúmlestir eftir sömu reglum og gilda um fasteignir, sbr. 1. mgr. 40. gr., eftir því sem við verður komið. Það sé hins vegar afstaða ráðuneytisins að það beri að meta sjálfstætt hvort eignarheimild sem framvísað er ásamt skráningarbeiðni sé nægjanleg til að breyting á eignarhaldi skips sé skráð í aðalskipaskrá og verði í því efni að gera kröfu um að afsali hafi verið þingslýst.

Það er niðurstaða umboðsmanns að kaupandi sem hefur þinglýst kaupsamningi, hafi þar með formlega eignarheimild að henni í skilningi 1. mgr. 25. gr. þinglýsingarlaga. Yfirfærsla eignarréttar ráðist því ekki bara af heiti skjala heldur efni þeirra. Að áliti umboðsmanns standa því engin rök til þess að niðurstaða um gildi kaupsamnings um skip eigi samkvæmt þinglýsingarreglum að vera önnur en sú sem nú er talin gilda um kaupsamninga.

Umboðsmaður lýsir þeirri niðurstöðu sinni að skýra verði ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 þannig að úrlausn þess hvort nýr eigandi hafi fullnægjandi eignarheimild til að skilyrði skráningar í skipaskrá séu til staðar, ráðist af því hvort um sé að ræða þinglýsta eignarheimild í skilningi þinglýsingarlaga. Tekur umboðsmaður fram að þegar löggjafinn mæli fyrir um að fleiri en eitt stjórnvald gegni hlutverki við ákvarðanatöku í stjórnsýslu, leiði það af aðgreiningarreglu stjórnsýsluréttar að hvert þeirra geti aðeins fjallað um það réttaratriði sem því er sérstaklega falið með lögum. Samkvæmt þinglýsingarlögum er ákveðnu stjórnvaldi í hverju umdæmi falið að leggja mat á hvort eignarskilríki séu tæk til þinglýsingar. Telji Siglingastofnun þá þinglesnu eignarheimild sem send er stofnuninni með skráningarbeiðni, ekki bera nægjanlega með sér að hún feli í sér yfirfærslu eignarréttar, er stofnuninni rétt að óska eftir vottorði frá þinglýsingarstjóra um það.

Umboðsmaður rekur einnig í úrskurði sínum þá hagsmuni sem fólgnir eru í því að skip sé réttilega skráð í aðalskipaskrá hvað eignaraðild varðar s.s. vegna lögskráningar skipshafnar og ábyrgð á ýmsum gjöldum.

Í áliti umboðsmanns segir orðrétt í niðurstöðu:

"Með vísan til þessa og að virtu orðalagi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 og lögskýringargögnum er það niðurstaða mín að Siglingastofnun og eftir atvikum samgönguráðuneytið beri við úrlausn þess hvort umskrá beri skip á grundvelli fyrirliggjandi eignarheimildar að taka mið af því hvort um sé að ræða þinglýsta eignarheimild í skilningi þinglýsingarlaga. Það er því niðurstaða mín að sú afstaða samgönguráðuneytisins og Siglingastofnunar að skýra beri ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 á þá leið að afsal verði að hafa verið gefið út áður en umskráning geti átt sér stað sé ekki byggð á réttum lagagrundvelli. Úrskurður ráðuneytisins í þessu máli var því ekki í samræmi við lög."

Kærandi krefst þess að úrskurður samgönguráðuneytisins verði endurupptekin og endurskoðuð höfnun ráðuneytisins á því að ógilda ákvörðun Siglingastofnunar um að hafna skráningu skipsins C á réttan eiganda.

IV. Niðurstaða.

Með vísan til forsendna álits Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4176/2004 er úrskurður ráðuneytisins frá 24. maí 2004 í kærumáli A ehf. gegn Siglingastofnun þar sem staðfest er ákvörðun Siglingastofnunar Íslands frá 26. febrúar 2004 um synjun á umskráningu skipsins C, felldur úr gildi.

Málinu er vísað aftur til Siglingastofnunar til löglegrar meðferðar í samræmi við álit umboðsmanns, um að við úrlausn þess, hvort umskrá beri skip á grundvelli fyrirliggjandi eignarheimilda, beri að taka mið af því hvort um þinglýsta eignarheimild í skilningi þinglýsingarlaga er að ræða.

ú r s k u r ð a r o r ð:

Úrskurður ráðuneytisins frá 24. maí 2004 í kærumáli A ehf. gegn Siglingastofnun þar sem staðfest er ákvörðun Siglingastofnunar Íslands frá 26. febrúar 2004 um synjun á umskráningu skipsins C, felldur úr gildi. Málinu er vísað til Siglingastofnunar til löglegrar meðferðar.

Ragnhildur Hjaltadóttir Unnur Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum