Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2006 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 4/2006

Þann 27. júní 2006 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í stjórnsýslumáli nr. 4/2006 A gegn sýslumanninum á Húsavík.

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 7. mars 2006, kærði B hdl. f.h A, (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun sýslumannsins á Húsavík, (hér eftir nefndur kærði), að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu :

Nr. 1. Stjórnsýslukæra dags. 7. mars 2006.

Nr. 2. Ákvörðun kærða dags. 24. janúar 2006.

Nr. 3. Bréf ráðuneytisins til kærða dags. 16. mars 2006.

Nr. 4. Bréf kærða til ráðuneytisins dags. 17. mars. 2006.

- Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-308/2002

- Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. S-28/2003

Nr. 5. Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 28. mars. 2006.

Kærandi óskar eftir því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sér verði endurveittur ökuréttur. Kærði krefst þess að ákvörðun sín verði staðfest


II. Málsmeðferð

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


III. Málsatvik

Kærandi var sviptur ökuréttindum með tveimur dómum frá 13. desember 2002 og 31. mars 2003 þar sem hann var staðinn að því að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Í ofangreindum málum lágu fyrir skýlausar viðurkenningar á brotunum en þau varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr umferðarlaga nr. 50/1987 (hér eftir ufl.) með síðari breytingum.

Niðurstaða fyrra málsins var m.a. svipting ökuréttar kæranda í þrjú ár auk sekta en í því máli var um að ræða tvö ölvunarakstursbrot sem framin voru 27. apríl 2002 og 9. maí 2002. Niðurstaða seinna málsins var m.a svipting ökuréttar í 15 mánuði frá 13. desember 2005 að telja en í því máli var um að ræða ölvunarakstursbrot er framið var 10. desember 2001. Í því máli varð dráttur á lögreglurannsókn málsins, sem ekki hefur verið skýrður.

Kærandi sótti um endurveitingu ökuréttar til kærða. Með bréfi kærða dags. 24. janúar 2006, var ósk kæranda um endurveitingu hafnað. Niðurstaðan var rökstudd með vísan til 106.gr. ufl. sem kveður á um að endurveiting komi aðeins til greina að um sviptingu til lengri tíma en til þriggja ára sé að ræða.

Kærandi kærði úrskurðinn til samgönguráðuneytisins þann 7. mars. 2006. Með bréfi, dags. 16. mars, bauð ráðuneytið kærða að koma á framfæri athugasemdum við stjórnsýslukæruna. Með bréfi dags. 17. mars komu frekari athugasemdir kærða fram. Ráðuneytið bauð kæranda að koma á framfæri frekari athugasemdum við efni bréfs kærða frá 17. mars. En kærandi kaus að gera það ekki.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveður bæði brot sín hafa verið framin áður en fyrri dómurinn var upp kveðinn. Þá kveður hann sig hafa átt erfiða æsku, lent í kasti við lög en tekið sig vel á í lífinu og haldið sig frá áfengi í 20 mánuði. Þá kveður kærandi sig vinna eftir tólf spora kerfi AA samtakanna við að hjálpa öðrum.

Kærandi kveður sig jafnframt ekki hafa komist í kast við lögin í langan tíma og er nú að stunda vinnu sem sjómaður á línubátnum C þar sem hann er eigandi að hlut í bátnum.

Í ljósi ofangreinds telur kærandi sérstakar ástæður mæla með endurveitingu ökuréttinda.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði vísar til rökstuðnings síns í bréfi til kæranda, dags. 24. janúar 2006, þar sem hann vísar í 106. gr. ufl. ákvörðun sinni til stuðnings.

Í bréfinu kveður kærandi á um að hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt megi þó ei veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hafi staðið í fimm ár.

Þá vísar kærandi í dóminn frá 31. mars 2003, en samkvæmt honum skal ökuleyfissviptingin, sem þar er ákveðin, taka við þegar þeirri fyrri líkur. Kærði kveður það viðtekna lögskýringu að 106. gr. ufl. verði ekki skýrð á þann veg að heimilt sé að leggja saman sviptingartíma tveggja sviptingarákvarðana og meta þær sem eina heild þannig að unnt sé að fella þannig niður ákvörðun síðari dómsniðurstöðunnar. Vísar kærandi í álit umboðsmanns Alþingis nr. 1896/1996 þessu til stuðnings.

Í ljósi ofangreinds telur kærði að ákvörðun sín skuli standa.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda, sbr. 106. gr. ufl. Lagaákvæðið er svo hljóðandi:

Nú hefur maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár og getur þá ríkislögreglustjóri, þegar svipting hefur staðið í þrjú ár, heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt má þó eigi veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár.


Endurveitingu skal því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því.

Heimilt er að skjóta synjun ríkislögreglustjóra á endurveitingu ökuréttar til ráðherra með kæru. Um málsmeðferðina fer samkvæmt stjórnsýslulögum. Ráðherra getur í reglugerð3) sett nánari reglur um endurveitingu ökuréttar.

Fyrir liggur að kærandi var sviptur ökurétti með tveimur dómum, í desember 2002 og í mars 2003. Samkvæmt fyrri dómnum var hann sviptur réttindunum í þrjú ár en í 15 mánuði í þeim síðari. Séu báðir dómarnir lagðir saman er sviptingin samtals í fjögur ár og þrjá mánuði.

Til þess að unnt sé að veita kæranda ökuréttindi að nýju þarf að athuga hvort svipting ökuréttindanna verði metin sem ein heild svo að 1. mgr. 106. gr. ufl. eigi við þar sem greinin áskilur að svipting þurfi að minnsta kosti hafa verið ákvörðuð í lengri tíma en þrjú ár. Þá er einnig ákvörðunarástæða hvort atvik samkvæmt 2. mgr. eigi við, en ákvæðið kveður á um að endurveitingu skuli því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því.

Tilvitnað lagaákvæði kveður ekki úr um það svo óyggjandi sé hvort leggja megi saman fleiri en einn ökuleyfissviptingardóm til að ná þeirri ívilnandi niðurstöðu sem ákvæðið heimilar. Sú venja hefur skapast að ekki verði lagðar saman tímalengdir tveggja eða fleiri sviptingardóma, enda mundi það almennt gera niðurstöðu dóms að engu. Þessi framkvæmd 106 gr. ufl. hefur verið staðfest af umboðsmanni Alþingis.[1]

Fram hefur komið að í þessu tiltekna máli hafi bæði ölvunarakstursbrot kæranda átt sér stað áður en fyrri dómurinn féll. Í síðari dóminum getur dómari um að dráttur hafi orðið á lögreglurannsókn, en ekki hefur komið fram nánar hvað hafi valdið þeim drætti. Almennt hefði mátt gera ráð fyrir að ákært yrði fyrir bæði brotin í einu. Leiða má líkur á að það hefði leitt til vægari niðurstöðu fyrir kæranda þannig að hann hefði átt rétt á að beiðni um endurveitingu yrði tekin til skoðunar eftir þriggja ára sviptingartíma, sbr. 106. gr. ufl.

Af lögskýringargögnum með umferðarlögunum verður ráðið, að með orðunum ,,sérstakar ástæður” sé aðallega vísað til þess, að viðkomandi hafi sýnt reglusemi og að ekki séu lengur fyrir hendi þær ástæður, sem ökuleyfissviptingin byggðist á. Lögmaður kæranda hefur haldið því fram að hann hafi hætt áfengisneyslu og vinni eftir tólf spora kerfi AA samtakanna. Þetta hefur verið staðfest af sýslumanni.

Samkvæmt meginreglunni og með stoð í tíðkanlegri framkvæmd myndi allajafna endurveiting ekki vera heimiluð. En í því máli sem hér um ræðir varð óskýrður dráttur á lögreglurannsókn á fyrsta ölvunarakstursbroti kæranda er varð til þess að dómur gekk um fyrsta brotið nokkru síðar en um eftirfarandi brot. Því telur ráðuneytið að rétt sé að túlka þennan vafa kæranda í hag þannig að hann verði eins settur og ef samanlögð svipting í jafn langan tíma hefði verið ákveðin í einum og sama dómnum.

Í ljósi þess sem að ofan greinir og þar sem ráðuneytið telur að skilyrði 1. og 2. mgr. 106. gr. séu uppfyllt verður því fallist á með kæranda, að heimilt sé að endurveita ökuréttindi í þessu tiltekna og fyrirliggjandi máli.


Ú r s k u r ð a r o r ð

Heimilt er að endurveita A ökurétt.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum