Hoppa yfir valmynd
4. september 2006 Innviðaráðuneytið

Kópavogsbær - Úthlutun byggingarlóða, jafnræðisregla, góðir stjórnsýsluhættir

A.
4. september 2006
FEL06040008

Hinn 4. september 2006 er kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 21. apríl 2006, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra A. og B., hér eftir nefnd kærendur, á

hendur bæjarstjórn Kópavogsbæjar, hér eftir nefnd kærði. Kærð er ákvörðun sem tekin var á fundi

bæjarráðs Kópavogsbæjar þann 8. desember 2005 um úthlutun þriggja byggingarlóða er kærendur sóttu

um en sú ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogsbæjar þann 23. janúar 2006.

Ráðuneytið óskaði eftir því í símtali þann 25. apríl sama ár að kærendur afhentu frekari gögn í málinu og

bárust þau þann 15. maí 2006 með bréfi, dags. 10. maí sama ár. Erindi kærenda var kynnt Kópavogsbæ

með bréfi, dags. 15. maí 2006. Umsögn bæjarstjórnar, dags. 3. júlí sl., barst ráðuneytinu sama dag ásamt

umbeðnum fylgiskjölum. Með bréfi, dags. 27. júlí 2006, var kærendum gefinn kostur á að koma að frekari

sjónarmiðum en í símtali þann 14. ágúst sl. kom fram að kærendur teldu ekki tilefni til að koma fram með

frekari athugasemdir.

Kærendur krefjast þess að slegið verði föstu að Kópavogsbæ hafi borið að verða við umsókn þeirra um

byggingarlóð, dags. 23. nóvember 2005.

I. Málavextir

 

Samkvæmt gögnum málsins sóttu kærendur aðallega um einbýlishúsalóð við C-götu nr. 2 og til vara við

C-götu nr. 10 og nr. 4, sbr. umsókn dags. 23. nóvember 2005. Eins og áður segir var á fundi bæjarráðs

Kópavogsbæjar þann 8. desember 2005 tekin ákvörðun um úthlutun þeirra lóða er kærendur sóttu um og

kom engin þeirra í hlut kærenda. Sú ákvörðun var svo staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogsbæjar þann

23. janúar 2006. Með bréfi kærenda til kærða, dags. 3. febrúar 2006, var farið fram á rökstuðning fyrir

umræddri ákvörðun. Í bréfinu var sérstaklega óskað svara við eftirtöldum spurningum:

„1. Með hvaða rökum var umsókn okkar flokkuð í þann hóp umsókna sem dregið var úr þar sem það átti

við og hafi verið um að ræða flokkun eftir einhvers konar stigakerfi, hvernig voru stigin þá reiknuð? Hver

er hlutur fatlaðra umsækjenda (reiknuð stig) í þessu sambandi?

2. Ég hef ekkert séð um lóð þá sem sótt var um til vara, en óska sömu skýringa og um nr. 1.

3. Sama skýring óskast líka um þriðja kostinn. Óskast mat umsóknar þeirrar sem hér hefur verið fjallað

um borið saman við sams konar mat sem hlýtur að hafa legið til grundvallar þeirrar úthlutunar.“

 

Þann 20. febrúar 2006 barst kærendum rökstuðningur kærða, dags. 13. febrúar sama ár, og var hann

undirritaður af bæjarlögmanni Kópavogsbæjar. Í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni segir:

„Þrátt fyrir að mikið framboð hafi verið á byggingarlóðum fyrir íbúðarhúsnæði í Kópavogi á

undanförnum árum hefur hvergi nærri tekist að mæta eftirspurn og því ekki verið unnt að verða við

umsóknum allra í bili. Mikill fjöldi umsókna barst vegna úthlutunar á lóðum sem fram fór í greint sinn.

Umsóknir voru metnar með tilliti til þess hvort umsækjendur uppfylltu almenn skilyrði og reglur um

úthlutun á byggingarrétti fyrir íbúðarhúsnæði, sem samþykktar voru í bæjarráði þann 8. september s.l. Þá

voru umsóknir metnar með tilliti til þess hvort umsækjendur uppfylltu almenn skilyrði varðandi möguleika

á fjármögnun framkvæmda og uppfyllti umsókn yðar þau lágmarksviðmið sem sett voru af bæjarráði og

tilgreind voru í auglýsingu um lóðarúthlutunina.

Varðandi C-götu nr. 2 þá var dregið um lóðina og voruð þér í hópi þeirra sem dregið var úr.

Samkvæmt 10. gr. reglna um úthlutun á byggingarétti fyrir íbúðarhúsnæði er heimilt að taka tillit til

sérstakra aðstæðna umsækjenda, svo sem fjölskylduaðstæðna, núverandi húsnæðisaðstöðu, hvort

viðkomandi hafði áður sótt um lóð í bæjarfélaginu og ekki fengið eða annarra fjölskylduaðstæðna er máli

kunna að skipta þegar einstaklingar eiga í hlut.

Umsóknareyðublaðið gerir ráð fyrir að sótt sé um eina lóð og tvær til vara. Margar umsóknir bárust um

þessar lóðir sem þér sóttuð um til vara. Eftir mat á umsóknum þeirra aðila er uppfylltu lágmarksviðmið

varðandi fjármögnun framkvæmda þá varð niðurstaðan sú eftir að litið var til sérstakra aðstæðna

umsækjenda að ekki kæmi til þess að dregið yrði um lóðirnar.

Því miður var því ekki unnt að verða við umsókn yðar að þessu sinni, en rétt er að benda á að á næstu

mánuðum verða auglýstar til úthlutunar fleiri lóðir í Kópavogi.“

 

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2006, fóru kærendur fram á frekari rökstuðning fyrir umræddri ákvörðun þar

sem þeim þóttu svör kærða ekki nægilega skýr. Barst sá rökstuðningur kærendum með bréfi, dags. 9. mars

sama ár. Í rökstuðningnum segir meðal annars:

„Varðandi tölulið 1 þá er ekki um stigagjöf að ræða. Eftir að umsóknir um lóð þá sem þér sóttuð um sem

aðalkost höfðu verið yfirfarnar með tilliti til þess hvort umsækjendur uppfylltu almenn skilyrði varðandi

tekjumöguleika á fjármögnun og síðan með hliðsjón af þeim þáttum sem litið er til við mat á umsóknum,

sbr. 10. gr. úthlutunarreglna, sbr. 12. gr. sömu reglna, var dregið milli þeirra sem taldir voru jafnhæfir.

Ekki er um stigagjöf að ræða en bæjarráð metur umsóknir og aðstæður með hliðsjón af þeim upplýsingum

sem fyrir liggja um þær aðstæður sem líta skal til skv. 10. gr. úthlutunarreglna.

Varðandi töluliði 2 og 3 þá var það mat bæjarráðs eftir yfirferð á umsóknum með hliðsjón af 10. gr.

úthlutunarreglna að ekki kæmi til þess að dregið yrði um þessar lóðir.

Ekki liggja fyrir skrifleg vinnugögn varðandi úrvinnslu bæjarráðs á umsóknum.“

 

II. Málsrök aðila

 

Eins og áður er greint frá er krafa kærenda sú að því verði slegið föstu að Kópavogsbæ hafi borið að verða

við umsókn þeirra um byggingarlóð, dags. 23. nóvember 2005. Hins vegar verður ekki séð af

málatilbúnaði kærenda að þeir krefjist ógildingar ákvörðunar kærða um úthlutun umræddra lóða og verður

því við það miðað í úrskurði þessum að slík krafa sé ekki gerð í málinu heldur sé krafist úrskurðar um

lögmæti hinna kærðu ákvarðana.

Kópavogsbær hafnar því að ekki hafi verið farið eftir úthlutunarreglum bæjarins við úthlutun umræddra

lóða og krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað.

Í bréfi ráðuneytisins til kærða, dags. 15. maí 2006, óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir því að reynt yrði að

varpa ljósi á tiltekin atriði sem ekki komu skýrt fram í gögnum málsins. Sérstaklega óskaði ráðuneytið

upplýsinga um hvort komið hafi til álita af hálfu bæjaryfirvalda að taka sérstakt tillit til sjúkdóms annars

kærenda, sbr. heimild í úthlutunarreglum, og hvort sambærilegar ástæður hafi verið til staðar hjá fleiri

umsækjendum sem tóku þátt í útdrætti um sömu lóð. Jafnframt óskaði ráðuneytið upplýsinga um hvort af

hálfu bæjaryfirvalda hafi verið tekið tillit til varakosta sem tilgreindir eru í umsókn kærenda, en um var að

ræða lóðir við C-götu nr. 10 og C-götu nr. 4, og hvaða sérstöku ástæður hafi leitt til þess að þeir

umsækjendur fengu umræddar lóðir án þess að um þær væri dregið. Einnig var óskað eftir afritum

umsókna þeirra sem hrepptu umræddar lóðir.

Í umsögn kærða, dags. 3. júlí 2006, kemur fram að Kópavogsbær hafnar því að bænum hafi borið að verða

við umsókn kærenda fram yfir aðrar. Margir hafi sótt um umræddar lóðir og varðandi þá sem uppfylltu

lágmarkskröfur úthlutunarreglna Kópavogsbæjar hafi bæjarráð orðið að beita ákveðnu mati til að úthluta

lóðunum eða ákveða á milli hverra skyldi dregið. Að lokum er í umsögn kærða reifað efni 10. gr. og 2.

mgr. 4. gr. úthlutunarreglna Kópavogsbæjar, en greinarnar eru svohljóðandi:

10. Við mat á umsóknum skal taka tillit til eftirfarandi þátta:

-fjölskylduaðstæðna

-núverandi húsnæðisaðstöðu

-hvort viðkomandi hefur áður sótt um lóð í bæjarfélaginu og ekki fengið

-möguleika umsækjanda til að ljúka framkvæmdum á tilsettum tíma.“

4.[...]Þrátt fyrir lágmarksviðmið skv. ofansögðu áskilur bæjarráð sér rétt til þess að meta með hliðsjón

af fjárhagstöðu umsækjenda að öðru leyti hvort ætla megi að aðilar geti lokið framkvæmdum á tilsettum

tíma.“

 

Í umsögninni segir einnig að ákvæði 2. mgr. 4. gr. kunni á stundum að ráða úrslitum þó fyrir liggi

yfirlýsing banka um greiðslugetu þegar eiginfjárstaða umsækjanda er veik og tekjur lágar að mati

bæjarráðs.

Þá er upplýst að dregið hafi verið um lóðir nr. 10 og nr. 2 við C-götu þó láðst hafi að geta þess í

upphaflegum rökstuðningi bæjarlögmanns og að umsókn kærenda hafi verið meðal þeirra sem dregið var

úr vegna lóðar nr. 2. Lóð nr. 4 hafi hins vegar verið úthlutað án þess að draga þyrfti um hana, m.a. þar sem

umsækjendur hafi verið með mannmargt heimili og sterka fjárhagsstöðu. Jafnframt er tekið fram í

umsögninni að umsókn kærenda hafi ekki komist í útdráttinn um lóð nr. 10 en sú hafi verið raunin um alla

þá sem komust í útdráttinn um lóð nr. 2. Vegna gífurlegs fjölda umsókna um auglýstar lóðir hafi bæjarráð

talið eðlilegt að einungis væri dregið úr þeim hópi jafnra umsókna sem sóttu um sama aðalkost og hafi það

verið meginsjónarmiðið sem haft var að leiðarljósi við útdrátt um lóðir nr. 2 og nr. 10.

Í umsögn kærða koma fram skýringar vegna sérstakra óska ráðuneytisins um upplýsingar varðandi það

hvort komið hafi til álita af hálfu bæjaryfirvalda að taka sérstakt tillit til sjúkdóms kæranda og hvort

sambærilegar ástæður hafi verið til staðar hjá fleiri umsækjendum sem lentu í útdrætti um sömu lóð. Um

þetta atriði segir m.a. í umsögninni að aðstæður kæranda hafi komið til skoðunar og hafi umsókn hans

komist í hóp þeirra sem dregið var úr. Ekki hafi verið um sambærilegar aðstæður hjá öðrum

umsækjendum að ræða hvað þetta snerti, en önnur atriði hafi komið til skoðunar, svo sem þörf á

húsnæðisaðstöðu, fjölskyldustærð og nálægð við vinnustað. Þá segir að veikindi kæranda geti ekki

samkvæmt almennum úthlutunarreglum veitt honum sjálfkrafa forgang til lóðar umfram aðra. Hins vegar

hafi bærinn ákveðið að veita hreyfihömluðum forgang við lóðaúthlutun t.a.m. í þeirri úthlutun sem gerð

var eftir þá úthlutun sem kærð er til ráðuneytisins. Í auglýsingu um byggingarrétt í Hnoðraholti,

Smalaholti, Rjúpnahæð og Hvörfum sem auglýst hafi verið til úthlutunar í maí 2006 hafi verið tekið fram

að við úthlutun á byggingarrétti við Örvasali 22, 24, 26 og 28 hefðu hreyfihamlaðir forgang við úthlutun.

Kærendur sóttu hins vegar ekki um byggingarrétt þar.

III. Niðurstaða ráðuneytisins

A. Um rökstuðning Kópavogsbæjar

 

Samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (hér eftir nefnd ssl.) getur aðili máls krafist þess að

stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún

var tilkynnt. Í 1. mgr. 22. gr. ssl. segir síðan um efni rökstuðnings:

„Í rökstuðningi skal vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem

ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við

matið.“

 

Ráðuneytið telur þann rökstuðning sem kærendum var veittur í bréfi, dags. 13. febrúar 2006, ekki uppfylla

þær kröfur sem gerðar eru skv. 22. gr. ssl. um efni rökstuðnings. Um var að ræða matskennda ákvörðun og

var því skylt að greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Það verður ekki talið

fullnægjandi í þessu tilliti að telja upp þau sjónarmið sem 10. gr. úthlutunarreglna Kópavogsbæjar hefur að

geyma, án nánari skýringa á því hvert eða hver þeirra voru ráðandi. Kærendur gátu því ekki áttað sig á því

á grundvelli rökstuðningsins að hvaða leyti þeir voru metnir síðri umsækjendur en þeir sem úthlutað var

lóðunum. Eins og áður segir sóttust kærendur eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun kærða með bréfi,

dags. 22. febrúar 2006, og voru þar ítrekaðar þær spurningar sem settar voru fram í upphaflegri beiðni

þeirra um rökstuðning. Í bréfi bæjarlögmanns Kópavogsbæjar, dags. 9. mars 2006, var kærendum veittur

frekari rökstuðningur fyrir umræddri ákvörðun. Ekki verður heldur séð að í því bréfi hafi ákvörðun kærða

verið skýrð nánar heldur var þar fremur um að ræða endurtekningar á upphaflegum rökstuðningi. Auk

þessa var sá galli bæði á upphaflegum rökstuðningi og þeim síðari að þar segir að ekki hafi verið dregið

um lóðirnar við C-götu nr. 4 og nr. 10. Hins vegar segir í umsögn kærða til ráðuneytisins að dregið hafi

verið um lóð nr. 10 og að umsókn kærenda hafi ekki komist í útdráttinn. Var þetta misræmi til þess fallið

að valda misskilningi hjá kærendum og beinir ráðuneytið því til kærða að vanda framvegis rökstuðning

fyrir stjórnvaldsákvörðunum í samræmi við stjórnsýslulög og góða stjórnsýsluhætti.

Einnig skal bent á að í 4. mgr. 22. gr. ssl. segir að hafi stjórnsýslunefnd ekki fært rök fyrir ákvörðun skuli

formaður færa rök fyrir henni, sbr. 1.–3. mgr. sömu greinar. Rökstuðningur Kópavogsbæjar ber það ekki

með sér að hann komi frá formanni bæjarráðs, en ráðið gegndi meginhlutverki við úthlutun

byggingarréttar í samræmi við úthlutunarreglur Kópavogsbæjar. Þá hefur komið fram af hálfu

Kópavogsbæjar að engin skrifleg minnisblöð eða vinnugögn séu til um úthlutunina. Í ljósi þessa gerir

ráðuneytið athugasemd við að rökstuðningurinn kemur ekki frá formanni bæjarráðs heldur frá

bæjarlögmanni.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að rökstuðningur Kópavogsbæjar hafi í

veigamiklum atriðum farið í bága við 22. gr. ssl.

B. Um málsmeðferð kærða varðandi aðalkost kærenda

 

Eins og áður segir og fram kemur í gögnum málsins komst umsókn kærenda í útdrátt um C-götu nr. 2 sem

var aðalkostur þeirra. Að mati ráðuneytisins verða ekki gerðar frekari kröfur til sveitarfélaga við úthlutun

byggingarlóða en þær að hlutkesti verði látið ráða þegar fleiri en ein umsókn uppfyllir lágmarksskilyrði

úthlutunarreglna. Það er sú framkvæmd sem tryggir best jafnræði milli einstakra umsækjenda og er best

fallin til þess að koma í veg fyrir að ómálefnaleg sjónarmið ráði ferðinni við ákvarðanir um úthlutun lóða.

Ráðuneytið hefur engu að síður viðurkennt að sveitarstjórnir geti ákveðið aðrar aðferðir við úthlutun

byggingarlóða.

Þá stendur eftir að leysa úr því álitaefni hvort veita hefði átt kærendum forgang að umræddri lóð vegna

sjúkdóms annars kærenda sem getið er um í umsókn kærenda. Í umsögn kærða er upplýst að veikindi

kæranda hafi komið til skoðunar og að ekki hafi verið um sambærilegar aðstæður að ræða hjá öðrum

umsækjendum. Fallist er á það með kærða að veikindi kæranda geti ekki samkvæmt almennum reglum

veitt honum forgang til lóðar umfram aðra, sbr. einnig framangreind sjónarmið. Af þessum sökum telur

ráðuneytið að afgreiðsla kærða á umsókninni hafi hvað aðalkost kærenda varðar samrýmst

úthlutunarreglum Kópavogsbæjar og meginreglum stjórnsýsluréttarins.

Í úrskurði ráðuneytisins frá 3. ágúst 2006 er fjallað um málsmeðferð Kópavogsbæjar við úthlutun sömu

lóðar, C-götu nr. 2. Í úrskurðinum segir meðal annars eftirfarandi:

„Að mati ráðuneytisins skortir verulega á að Kópavogsbær hafi í máli þessu upplýst, bæði í rökstuðningi

til kærenda og í umsögn til ráðuneytisins, á hvaða grundvelli samanburður á hæfni og aðstæðum

umsækjenda við úthlutun á byggingarrétti á lóðinni C-götu nr. 2 hafi farið fram. Þannig hefur

Kópavogsbær í engu gert grein fyrir því hvort eða hvernig mat á grundvelli sjónarmiða 10. gr.

úthlutunarreglna Kópavogsbæjar fór fram. Bendir ráðuneytið á að skv. 10. gr. úthlutunarreglnanna var

bæjarráði skylt að láta slíkt mat fara fram á umsóknum. Með vísan til þessa og fyrri umfjöllunar um

meginreglur um rekjanleika stjórnsýsluákvarðana telur ráðuneytið óhjákvæmilegt að leggja

sönnunarbyrði á Kópavogsbæ um að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið niðurstöðu úthlutunarinnar, sbr.

rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem Kópavogsbær hefur ekki sýnt fram á að málefnaleg

sjónarmið hafi ráðið því að aðrir umsækjendur voru teknir fram yfir kærendur í útdrætti um lóðina C-götu

nr. 2, er það niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð kærða hafi að þessu leyti ekki verið í samræmi við

jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og meginreglur stjórnsýsluréttarins um málefnalega stjórnsýslu.“

 

Ekki liggur fyrir í málinu að þeir annmarkar á málsmeðferð Kópavogsbæjar sem lýst er í framangreindum

úrskurði hafi bitnað á kærendum sem voru eins og áður segir valdir til að taka þátt í útdrætti um umrædda

lóð. Niðurstaða ráðuneytisins er því sú að afgreiðsla Kópavogsbæjar á umsókn kærenda um lóð nr. 2 við

C-götu hafi verið lögmæt.

C. Um málsmeðferð kærða varðandi varakosti kærenda

 

Eins og segir í umsögn kærða voru kærendur ekki valdir til að taka þátt í útdrætti um lóð við C-götu nr.

10. Jafnframt er þar upplýst að meginsjónarmiðið við þá ákvörðun hafi verið að fjöldi umsókna hafi verið

mikill og því hafi bæjarráð ákveðið að einungis þeir sem sóttu um lóðina sem aðalkost tækju þátt í útdrætti

um lóðina.

Í úthlutunarreglum Kópavogsbæjar er ekki kveðið sérstaklega á um að umsóknir um lóðir sem varakost

umsækjenda skuli sæta annars konar málsmeðferð en umsókn um sömu lóð sem fyrsta valkost. Í

stjórnsýslurétti gilda engar almennar reglur sem fela í sér að þýðing þess að sótt sé um ákveðinn kost til

vara leiði til þess að umsókn skuli talin síðri en umsókn þeirra sem sækja um sömu lóð sem aðalkost.

Málsmeðferð Kópavogsbæjar við úthlutunina er því ekki byggð á almennum reglum eða venju. Með því

að byggja ákvörðun um lóðaúthlutun á því sjónarmiði að sótt sé um lóð sem fyrsta valkost felst í raun að

sá möguleiki að sækja um lóðir til vara verður þýðingarlaus eða að minnsta kosti þýðingarlítill ef margar

umsóknir eru um hverja lóð.

Með vísan til þessa er það niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun Kópavogsbæjar um úthlutun lóðarinnar

við C-götu nr. 10 hafi verið byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum og verði því að telja hana ólögmæta.

Samanburður á umsókn lóðarhafa á lóð við C-götu nr. 4 og kærenda leiðir í ljós fleiri annmarka á

málsmeðferð kærða en að framan er getið Þannig er því lýst í umsögn kærða að ákvörðun um að lóð við

C-götu nr. 4 skyldi úthlutað án útdráttar hafi meðal annars byggst á því að þeir umsækjendur sem hrepptu

lóðina hafi verið með mannmargt heimili og sterka fjárhagsstöðu. Ráðuneytið hefur farið yfir umrædda

umsókn og borið aðstæður lóðarhafa saman við aðstæður kærenda á grundvelli þeirra sjónarmiða sem

fram koma í 10. gr. úthlutunarreglna Kópavogsbæjar þar sem segir:

„Við mat á umsóknum skal taka tillit til eftirfarandi þátta:

-fjölskylduaðstæðna

-núverandi húsnæðisaðstöðu

-hvort viðkomandi hefur áður sótt um lóð í bæjarfélaginu og ekki fengið

-möguleika umsækjanda til að ljúka framkvæmdum á tilsettum tíma.“

 

Fallist er á það sjónarmið kærða að fjölskylduaðstæður þeirra sem úthlutað var lóð við C-götu nr. 4 hafi

verið lóðarhöfum í hag. Fjöldi einstaklinga á heimili lóðarhafa eru fimm en á heimili kærenda búa þrír

einstaklingar. Engar sérstakar ástæður koma hins vegar fram í gögnum málsins um að þáverandi húsnæði

lóðarhafa hafi á einhvern hátt verið ábótavant eða að sérstök þörf hafi verið fyrir þá að komast í nýtt

húsnæði. Hins vegar segir í umsókn kærenda að líklegt sé að annar kærenda geti ekki til frambúðar búið í

tveggja hæða húsi eins og því er hann býr í nú sökum veikinda og hefur þessari staðhæfingu ekki verið

mótmælt af hálfu kærða. Ráðuneytið telur að sérstök ástæða hafi verið fyrir kærða til að taka tillit til þessa

atriðis við töku hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til 10. gr. reglnanna.

Jafnframt skal bent á að fram kemur í gögnum málsins að kærendur höfðu áður sótt um lóð í Kópavogi og

ekki fengið. Lóðarhafar höfðu einnig sótt um lóð hjá sveitarfélaginu áður og fengið lóð. Samkvæmt

orðalagi 10. gr. úthlutunarreglna Kópavogsbæjar er við ákvörðun um úthlutun lóða skylt að taka tillit til

þeirra viðmiðunarsjónarmiða sem þar koma fram, en kærði hefur hvorki í umsögn sinni né öðrum gögnum

tekið afstöðu til þessa sjónarmiðs eða hvaða vægi það hafði við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Ráðuneytið telur hins vegar ljóst að kærendur stóðu lóðarhöfum framar á grundvelli þessa sjónarmiðs

reglnanna.

Að lokum er rétt að víkja að sjónarmiði 10. gr. um möguleika umsækjanda til að ljúka framkvæmdum á

tilsettum tíma. Eins og kærði tekur fram í umsögn sinni var sterk fjárhagsstaða eitt af þeim sjónarmiðum

sem réði því að lóðarhafar fengu umrædda lóð. Í þessu sambandi er jafnframt rétt að líta til 2. mgr. 4. gr.

úthlutunarreglna Kópavogsbæjar en þar segir:

„Þrátt fyrir lágmarksviðmið skv. ofansögðu áskilur bæjarráð sér rétt til þess að meta með hliðsjón af

fjárhagsstöðu umsækjenda að öðru leyti hvort ætla megi að aðilar geti lokið framkvæmdum á tilsettum

tíma.“

 

Í upphafi ákvæðisins er vísað til þeirra lágmarksviðmiða sem fram koma í 1. mgr. ákvæðisins. Óumdeilt er

að bæði kærendur og lóðarhafar uppfylltu lágmarksviðmið 1. mgr. Af þessum sökum verður að skilja

afstöðu kærða svo að lóðarhafar hafi þótt líklegri til að ljúka framkvæmdum á tilsettum tíma vegna

sterkrar fjárhagsstöðu. Það sem skiptir höfuðmáli í þessu tilliti er hvort að ætla mætti, með hliðsjón af

fjárhagsstöðu kærenda, að þeir gætu lokið framkvæmdum á tilsettum tíma eða ekki. Frekara mat á

fjárhagsstöðu umsækjenda og það að byggja á henni sem sjónarmiði við töku stjórnvaldsákvörðunar,

umfram það sem að ofan greinir, verður að teljast ómálefnalegt og ekki í samræmi við úthlutunarreglur

Kópavogsbæjar. Mismunun á grundvelli efnahags er ómálefnaleg, sbr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins

Íslands, nema þegar málefnaleg sjónarmið búa að baki mismununinni eins og það hvort aðilar geti lokið

framkvæmdum á tilsettum tíma. Ráðuneytið hefur farið yfir þær upplýsingar sem fram koma í umsóknum

aðila um fjárhagsstöðu þeirra. Af þessum upplýsingum að dæma verður ekki annað séð en að kærendur

hafi ekki einungis uppfyllt lágmarksviðmið 1. mgr. 4. gr. úthlutunarreglna Kópavogsbæjar heldur hafi

fjárhagslegt bolmagn þeirra verið slíkt að engin ástæða hafi verið til að ætla að þeir gætu ekki lokið

framkvæmdum á tilsettum tíma. Verður því að telja að það hafi verið ómálefnalegt af kærða að byggja

niðurstöðu úthlutunar á sterkri fjárhagsstöðu lóðarhafa.

Loks er ljóst af gögnum málsins að greiðslumat lóðarhafa var ekki í fullu samræmi við 1. mgr. 4. gr.

úthlutunarreglna Kópavogsbæjar en þar segir:

„Einstaklingar, sem sækja um byggingarrétt, skulu leggja fram skriflega staðfestingu án fyrirvara frá

banka eða lánastofnun um greiðsluhæfi og mögulega lánafyrirgreiðslu umsækjanda vegna fyrirhugaðrar

húsbyggingar.“

 

Af þessum sökum telur ráðuneytið að sú ákvörðun að veita umræddum umsækjendum lóðina og jafnframt

að hafna umsókn kærenda hafi ekki verið í samræmi við úthlutunarreglur bæjarins. Í þessu sambandi er

rétt að vekja athygli á úrskurði félagsmálaráðuneytisins frá 29. júní 2006, sem einnig varðaði lóðaúthlutun

í Kópavogsbæ, en þar var fjallað um fyrirvara á greiðslumati umsækjenda. Í samræmi við niðurstöðu

ráðuneytisins í því máli hefði verið rétt að hafna umsókn þeirra sem fengu lóðina C-götu nr. 4 ef

fullnægjandi greiðslumat án fyrirvara hefði ekki borist eftir að gefinn hefði verið kostur á að bætt yrði úr

umræddum galla. Málsmeðferð kærða samrýmdist því ekki 7. gr. ssl. hvað þennan þátt málsins varðar.

Með vísan til þess sem að framan segir er það niðurstaða ráðuneytisins að jafnræðis hafi ekki verið gætt

við úthlutun á byggingarrétti á lóðinni C-götu nr. 4 þar sem ekki verður annað ráðið af gögnum málsins,

með hliðsjón af 10. gr. úthlutunarreglna Kópavogsbæjar, en að veigameiri sjónarmið hafi legið til

grundvallar þess að kærendum yrði úthlutað lóðinni en þeim aðilum sem hana fengu. Að auki er það mat

ráðuneytisins að ákvörðunin hafi að hluta til verið byggð á ómálefnalegu sjónarmiði og að

leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið nægilega gætt við meðferð umsókna.

D. Niðurstaða

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð og

rökstuðningur Kópavogsbæjar varðandi varakosti kærenda hafi í veigamiklum atriðum brotið gegn

meginreglum stjórnsýsluréttarins og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning fyrir

stjórnvaldsákvörðun, jafnræði umsækjenda og leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 7., 11. og 22. gr.

stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Afgreiðsla Kópavogsbæjar á umsókn kærenda um lóð nr. 2 við C-götu sem fram fór samkvæmt tillögum

bæjarráðs Kópavogsbæjar, dags. 8. desember 2005, og var staðfest af bæjarstjórn þann 23. janúar 2006, er

lögmæt.

Úthlutun byggingarréttar vegna lóðanna C-götu nr. 10 og C-götu nr. 4 á Kópavogstúni, sem fram fór

samkvæmt tillögum bæjarráðs Kópavogsbæjar, dags. 8. desember 2005, og var staðfest af bæjarstjórn

þann 23. janúar 2006, er ólögmæt.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

4. september 2006 - Kópavogsbær - Úthlutun byggingarlóða, jafnræðisregla, góðir stjórnsýsluhættir (PDF)

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum