Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2007 Innviðaráðuneytið

Mál nr. 9/2007

Ár 2007, 4. júlí er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 9/2007,

A

gegn

Vegagerðinni

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 9. mars 2007 kærði A (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Vegagerðarinnar, (hér eftir nefnd kærði), frá 9. mars 2007 að hafna umsókn kæranda um starfsleyfi til reksturs leigubifreiðastöðvar.

Er sú krafa gerð af hálfu kæranda að samgönguráðherra geri kærða að gefa út starfsleyfi það sem sótt var um.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

nr.

1.

Stjórnsýslukæra dags. 9. mars 2007.

nr.

2.

Umsókn um starfsleyfi til reksturs leigubifreiðastöðvar dags. 28. febrúar 2007.

nr.

3.

Tölvupóstsamskipti kæranda og starfsmanns kærða 5. og 9. mars 2007.

nr.

4.

Bréf samgönguráðuneytis dags. 12. mars 2007 til kærða.

nr.

5.

Bréf samgönguráðuneytisins dags. 12. mars 2007 til kæranda.

nr.

6.

Umsögn kærða dags. 13. apríl 2007.

nr.

7.

Bréf samgönguráðuneytis til kæranda dags. 14. apríl 2007.

nr.

8.

Bréf kæranda til samgönguráðuneytisins dags. 25. maí 2007 ásamt eftirfarandi gögnum:

a.

Bréf kærða til kæranda dags. 14. mars 2007.

b.

Umsókn kæranda um starfsleyfi til reksturs leigubifreiðastöðvar dags. 28. febr. 2007.

c.

Fylgiseðill kærða dags. 9. mars 2007.

d.

Tölvupóstsamskipti kæranda og kærða, 5. og 9. mars. 2007.

e.

Bréf kæranda til kærða dags. 27. febrúar 2007.

f.

Bréf kæranda til Bifreiðastjórafélagsins Faxa dags. 7. janúar 2006.

g.

Ljósrit af póststimpli 9. mars 2007.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málmeðferð

Framangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Með umsókn dags. 28. febrúar 2007 sótti kærandi um starfsleyfi til reksturs leigubifreiðastöðvar í Árborg.

Með tölvupósti þann 5. mars 2007 til kæranda óskaði kærði eftir að fá staðfestingar frá þeim leigubílstjórnum sem yrðu með afgreiðslu á stöðinni. Því var svarað með tölvupósti sama dag af hálfu kæranda með því að einungis væri um staðfestingu að ræða frá honum sjálfum.

Með tölvupósti þann 9. mars 2007 tilkynnti kærði kæranda að umsókn hans væri hafnað þar sem ekki hefði verið lagður fram listi yfir þá leigubílstjóra sem myndu verða í viðskiptum við leigubifreiðastöðina.

Þessari ákvörðun var mótmælt af hálfu kæranda með tölvupósti til kærða þann 9. mars 2007 þar sem slíkt skilyrði fyrir starfsleyfi byggði ekki á lögum eða reglugerð.

Höfnun kærða var í kjölfarið kærð til samgönguráðuneytisins með tölvupósti þann 9. mars 2007.

Með bréfi dags. 12. mars 2007 var kærða gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 13. apríl 2007.

Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við sjónarmið kærða með bréf dags. 14. apríl 2007 og bárust þær 25. maí 2007.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi telur synjun kærða ekki byggða á lögmætum sjónarmiðum. Hvergi sé þess krafist í lögum eða reglugerð að leggja skuli fram yfirlýsingar leigubifreiðastjóra um afgreiðslu á væntanlegri leigubifreiðastöð. Vísar kærandi til þess að á takmörkunarsvæðinu Árborg sé hámarksfjöldi leigubifreiða 8 og rúmlega þriðjungur þeirra hafi ekki lýst yfir ósk um afgreiðslu á stöð sem kærði hyggist veita starfsleyfi. Ríflega 12% hafi lýst yfir vilja til að vera á stöð þeirri sem var hafnað og sé það hærra hlutfall en hjá sumum stöðvum á höfðuborgarsvæðinu.

Kærandi vísar til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 22. gr. þeirra um rökstuðning fyrir stjórnvaldsákvörðun. Einnig bendir kærandi á samkeppnishamlandi áhrif synjunar kærða þar sem það leiði til að leigubifreiðastjórum á svæðinu er ekki gefinn kostur á að velja um stöð og ekkert stuðli að aðhaldi í stöðvargjöldum eða hvetji til samkeppni.

Þá bendir kærandi á að kærða megi vera fulljóst að farið var fram á beitingu undanþáguákvæðis b-liðar 23. gr. reglugerðar nr. 397/2003 um umsókn kæranda. Þar sé kveðið á um heimild til að víkja frá kröfu um lágmarksfjölda ef íbúar eru færri en 10.000 enda hafi orðalag er það varðar verið undirstrikað af kæranda í umsókninni. Kærða hafi verið ljóst að leyfi í Árborg eru 8 og því augljóst að farið var fram á að undanþágunni yrði beitt.

Kærandi kveðst hafa staðfest við kærða að hann sjálfur, sem atvinnuleyfishafi nr. átta í Árborg, yrði í afgreiðslu á væntanlegri stöð. Þar með falli sú fullyrðing kærða um sjálfa sig að ekki hafi verið lagðar fram fullnægjandi upplýsingar er þetta varða.

Kærandi telur það rangt sem fram kemur í umsögn kærða að honum hafi verið tilkynnt um að það yrði að hafna umsókn ef ekki kæmu fram upplýsingar um atvinnuleyfishafa sem myndu hafa afgreiðslu á stöðinni. Hið rétta sé að kæranda hafi verið tilkynnt með tölvupósti þann 9. mars. 2007 að umsókninni væri hafnað.

Þá bendir kærandi á að hvergi sé að finna í lögum eða reglugerð neitt sem bannar að leigubifreiðastjórar hafi afgreiðslu á fleiri en einni stöð.

Kærandi gerir einnig athugasemdir við þá ástæðu kærða fyrir synjun að aðrar upplýsingar hafi vantað en þær forsendur hafi ekki komið fram áður, eftir að höfnunin var kærð. Slíkt teljist varla góðir og gildir stjórnsýsluhættir ? að réttlæta stjórnvaldsákvörðun rúmum mánuði eftir að hún er tekin, með allt öðrum rökum en upphaflega voru gefin. Þá bendir kærandi á að starfsleyfi til annarrar bifreiðastöðvar hafi verið gefið út án þess að fyrir lægju slíkar upplýsingar.

Kærandi telur forsendur synjunar kærða ekki hafa átt sér neina lagalega stoð og síðar tilkomnar forsendur einungis tilraun kærða til yfirklórs yfir gerræðislega og ólögmæta afgreiðslu málsins.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði vísar til þess að í 4. mgr. 3. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001 sé ráðherra heimilt að setja reglugerð sem kveður nánar á um skilyrði starfsleyfis. Þau sé að finna í 23. gr. reglugerðar nr. 397/2003 um leigubifreiðar og komi þar fram að víkja megi frá skilyrði um 10 leyfishafa á stöð ef íbúar á svæðinu eru færri en 10.000.

Vísað er til tölvupóstsamskipta milli kæranda og kærða um stofnun leigubifreiðastöðvar á takmörkunarsvæðinu Árborg og að m.a. hafi verið leitað upplýsinga um hvaða atvinnuleyfishafar yrðu á viðkomandi stöð. Kæranda hafi síðan verið tilkynnt með tölvupósti þann 9. mars s.l. að umsókn yrði hafnað ef ekki lægi fyrir hverjir þeir væru.

Kærði telur ljóst að heimilt sé að fara fram á að með umsókn um starfsleyfi fylgi gögn og upplýsingar sem kærði telur nauðsynleg til að ganga megi úr skugga um hvort skilyrði leyfis skv. 23. gr. reglugerðarinnar séu uppfyllt. Þar sem kærandi hafi ekki lagt fram slíkar upplýsingar hafi ekki legið fyrir fullgild umsókn. Ekki hafi heldur legið fyrir með afdráttarlausum hætti að kærandi færi fram á að beitt yrði undanþáguákvæði um fjölda leyfishafa með afgreiðslu á stöð. Jafnframt hafi átt að fylgja umsókn önnur gögn s.s. um fjarskiptabúnað og tölvubúnað vegna gagnagrunns.

Kærði telur að heimilt hafi verið að hafna umsókninni þar sem ekki lágu fyrir fullnægjandi gögn með henni. Kærði tekur þó fram að hugsanlega hafi mátt leiðbeina kæranda nánar um þau gögn sem fylgja þurftu og gefa honum kost á að bæta úr því sem talið var ábótavant, áður en umsókninni var hafnað. Leiðbeiningar hafi verið gefnar sama dag og kært var og hefði kærandi því átt þess kost að bæta úr í stað þess að leggja fram kæru.

Kærði telur því kæruna ótímabæra og að eðlilegt framhald málsins sé að kærði árétti leiðbeiningar um nauðsynleg gögn og gefi kæranda hæfilegan frest til að uppfylla kröfur þar að lútandi til að unnt verði að kanna hvort uppfyllt séu skilyrði 23. gr. reglugerðarinnar um starfsleyfi til rekstur leigubifreiðastöðvar.

Í 8. gr. laganna er fjallað um heimild ráðherra til að setja reglur um takmörkun á fjölda leigubifreiða á ákveðnum svæðum. Þær reglur er að finna í 4. gr. reglugerðar nr. 397/2003 og er Árborg meðal takmörkunarsvæða með 8 leyfi. Umsókn kæranda var um rekstur leigubifreiðastöðvar í Árborg.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Álitaefnið sem hér er til úrlausnar er hvort við synjun kærða á umsókn kæranda um starfsleyfi fyrir rekstri leigubifreiðastöðvar hafi verið beitt lögmætum sjónarmiðum.

Af gögnum málsins er ljóst að kærði hafnaði umsókn kæranda um starfsleyfi á þeim grundvelli að ekki voru lagðar fram upplýsingar um þá leigubifreiðastjóra sem hafa myndi afgreiðslu á stöðinni. Var það gert með vísan til að skilyrði fyrir starfsleyfi skv. reglugerð nr. 397/2003 voru ekki uppfyllt.

Í lögum um leigubifreiðar nr. 134/2001 er í 1. mgr. 3. gr. kveðið á um skyldu leigubifreiða að takmörkunarsvæðum skv. 8. gr. til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð sem hefur fengið starfsleyfi kærða. Setja skal nánari ákvæði um slíkar stöðvar og skilyrði starfsleyfis í reglugerð sbr. 4. mgr. 3. gr. Þær reglur er að finna í IV. kafla reglugerðar nr. 397/2003 þar sem fjallað er um skilyrði starfsleyfis bifreiðstöðva í 23. gr. en þau eru nánar eftirfarandi:

a.

Forráðamaður skal hafa fullnægjandi starfshæfni.

b.

Lágmarksfjöldi atvinnuleyfishafa skal vera 10, með heimild til frávika vegna íbúafjölda.

c.

Tiltekinn lágmarksopnunartími afgreiðslu með símaþjónustu.

d.

Fullnægjandi fjarskiptakerfi skal vera til staðar.

e.

Tölvubúnaður vegna aðgangs að gagnagrunni skal vera til staðar.

Kærða er gert að gefa út starfsleyfi til reksturs bifreiðastöðva og ber ábyrgð á því að skilyrði þessi séu uppfyllt. Ljóst er af framangreindu að flest þessara skilyrða eru þess efnis að ekki er hægt að ganga úr skugga um hvort þau eru uppfyllt nema framvísað sé gögnum því til staðfestingar. Af því leiðir að gera verður þær kröfur til umsækjenda að þeir leggi fram nauðsynleg gögn og upplýsingar enda eru skilyrðin þess eðlis að þau eru nauðsynleg fyrir rekstur slíkrar stöðvar.

Ráðuneytið tekur því undir það með kærða að heimilt hafi verið að óska eftir því við kæranda að framvísað yrði gögnum um þá atvinnuleyfishafa sem hafa myndu afgreiðslu á stöðinni og að sú heimild grundvallist á 23. gr. reglugerðar nr. 397/2003 sem á sér stoð í lögum nr. 134/2001 um leigubifreiðar.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi staðfesti við kærða að einungis hann sjálfur myndi hafa afgreiðslu á stöðinni. Ráðuneytið fellst því ekki á það með kærða að skort hafi upplýsingar frá kæranda um fjölda leyfishafa sem myndi hafa afgreiðslu á stöðinni.

Í b-lið 23. gr. er kveðið á um að lágmarksfjöldi leyfishafa skuli vera 10, með heimild til fráviks á svæðum þar sem færri búa en 10.000. Ekki kemur fram í umsókn kæranda hvort farið er fram á beitingu undanþágunnar og þá hver er íbúafjöldi á svæðinu. Ráðuneytið telur þó að með því að umsókn varðaði starfsleyfi fyrir stöð í Árborg og orðin ?? íbúar eru færri en 10.000.? eru undirstrikuð í umsókninni, verði að telja að nægilega sé gefið í skyn af hálfu kæranda að sú hafi verið ætlunin. Í það minnsta hafi það gefi kærða ástæðu til að kanna það nánar, bæði hvort undanþágan ætti við vegna íbúafjölda og fá skýra afstöðu kæranda til þess.

Í 23. gr. reglugerðarinnar eru ekki sett takmörk fyrir því hver geti veri lágmarksfjöldi atvinnuleyfishafa með afgreiðslu á stöð þegar undanþágan á við. Af því leiðir að ekki er hægt að líta svo á að eitthvað sé því til fyrirstöðu að einungis einn slíkur starfi hjá stöð, svo framarlega sem önnur skilyrði eru uppfyllt.

Ráðuneytið telur því kæranda hafa upplýst kærða nægilega um þá atvinnuleyfishafa sem ætlunin var að hefðu afgreiðslu á stöðinni en á því er ekki byggt af hálfu kærða að kærandi hafi ekki fullnægjandi atvinnuleyfi til leiguaksturs.

Af tölvupósti kærða til kæranda dags. 9. mars s.l., er ljóst að kærði tilkynnt kæranda um að umsókn hans væri hafnað þar sem hann hafði ekki lagt fram lista yfir leyfishafa og var það eftir að kærandi hafði tilkynnt kærða um að einungis væri um að ræða starfestingu frá honum sjálfum. Ekki er þar getið um að önnur gögn hafi vantað og verður því ekki séð að höfnunin hafi jafnframt grundvallast á slíkri vöntun eins og skilja má af málatilbúnað kærða í umsögn hans.

Það er því álit ráðuneytisins, í ljósi alls framangreinds, að höfnun kærða á umsókn kæranda hafi ekki byggst á lögmætum sjónarmiðum að þessu leyti.

Ágreiningur er með aðilum um hvort leiðbeiningarskyldu kærða um hverju var ábótavant við umsókn hafi verið fullnægt en ljóst er að kærandi kærði höfnunina sama dag og hún barst honum.

Ráðuneytið telur því ekki liggja fyrir á þessu stigi hvort umsókn kæranda var fullnægjandi að öðru leyti, þ.e. að önnur nauðsynleg gögn hafi verið lögð fram til staðfestingar á skilyrðum fyrir starfsleyfi. Af málatilbúnaði kærða megi hins vegar ráða að svo var ekki. Engum gögnum hefur verið framvísað af hálfu kæranda um hið gagnstæða.

Ráðuneytið beinir því þeim tilmælum til kærða að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný komi fram ósk frá kæranda þar um og gæta við þá meðferð að leiðbeiningarskyldu um það sem talið er ábótavant, annað en varðar fjölda atvinnuleyfishafa, og veita hæfilega fresti til úrbóta.

Úrskurðarorð

Höfnun Vegagerðarinnar á umsókn A um starfsleyfi til reksturs leigubifreiðastöðvar er felld úr gildi og lagt fyrir Vegagerðina að taka umsóknina aftur til afgreiðslu, komi fram ósk þar um.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum