Hoppa yfir valmynd
27. júlí 1998 Innviðaráðuneytið

Ísafjarðarbær (Flateyri) - Hámark og lágmark holræsagjalda

Lögmenn                                                                 27. júlí 1998                                                       98040049

Hlöðver Kjartansson hdl.                                                                                                                             121

Bæjarhrauni 8

220 Hafnarfirði

            

 

 

 

 

             Þann 27. júlí 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, dagsettu 17. apríl 1998, kærði Hlöðver Kjartanson hdl., fyrir hönd Guðvarðar Kjartansonar, Egilsbraut 30, Þorlákshöfn, ákvarðanir Ísafjarðabæjar þess efnis að hafna kröfum kæranda um breytingu á álagningu fasteignagjalda á fasteignina Hjallaveg 5, Flateyri, Ísafjarðabæ.

 

             Sá hluti kærunnar sem lýtur að álagningu sorphirðugjalds var sendur áfram með bréfi, dagsettu 22. apríl 1998, til umhverfisráðuneytisins, sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

             Ráðuneytið óskaði með bréfi, dagsettu 22. apríl 1998, eftir umsögn bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um þann þátt kærunnar sem lýtur að holræsagjaldinu. Umsögn barst ráðuneytinu þann 20. maí 1998 með bréfi, dagsettu 15. sama mánaðar, frá Andra Árnasyni hrl. fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.

 

I.          Málavextir og málsástæður

 

             Hlöðver Kjartanson hdl. sendi erindi, dagsett 10. febrúar 1998, fyrir hönd Guðvarðar Kjartansonar, til Ísafjarðarbæjar þar sem álagning fasteignagjalda fyrir árið 1998 vegna húseignar Guðvarðar að Hjallavegi 5, Flateyri, Ísafjarðabæ, var kærð. Kæran var í þremur liðum og voru þar færð rök fyrir leiðréttingu á álagningu á holræsagjaldi og sorphirðugjaldi.

 

             Í kærunni var þess meðal annars krafist “að álagt holræsagjald verði lækkað og álagt á húseignina í samræmi við 1. málslið 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 39/1997 um holræsagjald í Ísafjarðarbæ og 2. málslið 87. gr. vatnalaga nr. 15/1923.“ Ennfremur var þess krafist “að álagning sorphirðugjalds verði endurskoðuð.“  Jafnframt var þess krafist að öll álögð gjöld á fasteignina yrðu felld niður vegna yfirlýsinga og ummæla forráðamanna Flateyrarhrepps og Ísafjarðarbæjar um “að lítið vit væri að hafa íbúðarbyggð ofan Tjarnargötu á Flateyri.“ Í því tilliti verði auk þess að líta til þess að samkvæmt nýstaðfestu skipulagi 1996 - 1997 fyrir Flateyri nær deiliskipulag ekki til þess svæðis þar sem íbúð kæranda stendur. Í varakröfu er þess krafist að sveitarsjóður veiti kæranda styrk til greiðslu fasteignagjaldanna að fullu eða að sama marki og gert hefur verið varðandi ótilgreindar húseignir á Flateyri árin 1996 og 1997.

 

             Ísafjarðarbær hafnaði öllum kröfum kæranda með bréfi, dagsettu 10. mars 1998, þar sem færð eru rök fyrir synjuninni.

 

             Eins og áður segir kærði Hlöðver Kjartanson hdl., fyrir hönd Guðvarðar Kjartansonar, ákvörðun Ísafjarðarbæjar frá 10. mars 1998. Verður eingöngu í þessum úrskurði fjallað um þann hluta kærunnar sem viðkemur álagningu holræsagjalds á fasteignina Hjallaveg 5, Flateyri. Sá hluti kærunnar sem lýtur að því að öll álögð gjöld á fasteignina verði felld niður vegna afleiðinga snjóflóðanna á Flateyri þann 26. október 1995 er til umfjöllunar innan ráðuneytisins í öðru máli.

 

             Sömu kröfur um leiðréttingu álagningar holræsagjalds eru hafðar upp í kærunni til ráðuneytisins og voru í kærunni til Ísafjarðarbæjar. Álagning holræsagjalds fyrir árið 1998 var að fjárhæð kr. 7.000 samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar um lágmarksgjald vegna holræsakostnaðar, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um holræsagjald í Ísafjarðabæ nr. 39/1997 með síðari breytingum.

 

             Rök kæranda eru þau að fara skuli eftir 1. málslið 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um holræsagjald í Ísafjarðarbæ og 2. málslið 87. gr. vatnalaga nr. 15/1923, en samkvæmt þeim ákvæðum skuli fjárhæð holræsagjalds vera 0,16% af fasteignamati íbúðarhúsa og lóða. Kemur meðal annars fram í kærunni að “bundið er í lögum hver skuli vera gjaldstofn til útreiknings gjaldsins, sem er ekki ætlað til almennrar tekjuöflunar sveitarfélaga, heldur til þess að bera uppi kostnað við gerð og rekstur holræsa. Lagaheimildin er bundin við að gjaldið skuli reiknast sem hlutfall af stofninum á allar fasteignir. Gjaldstofnin er lögbundinn. Með öðru móti næst ekki jöfnuður milli fasteigna. Það er því jafn ólöglegt að setja hámark á gjöldin eins og lágmark.“ Telur kærandi að reglugerðarákvæðið um hámark og lágmark holræsagjalds hafi þess vegna ekki lagastoð og álagningin sé því ólögmæt.

 

             Jafnframt er tilgreint í kærunni að “fullyrt skal að álagning lágmarksgjaldsins á Hjallaveg 5 leggur margfaldlega meiri kostnað á þá eign en réttmætt og málefnalegt getur talist bæði miðað við stærð þeirrar eignar og mögulegan íbúafjölda miðað við hana og einnig notkun hennar og þá staðreynd að enginn á þar lögheimili eða hefur þar fasta búsetu.“

 

             Í málatilbúnaði Ísafjarðarbæjar kemur fram að í 87. gr. vatnalaga komi einungis fram heimild til að miða holræsagjald við “virðingaverð fasteigna eða við stærð lóða eða hvorttveggja“ en að holræsagjald skuli ákveða í reglugerð skv. 4. mgr. 87. gr. vatnalaga. Af þeim sökum sé heimilt að ákveða holræsagjald eftir öðrum viðmiðum.

 

             Í rökstuðningi Ísafjarðarbæjar fyrir ákvörðun um lágmarksgjald er tekið meðal annars fram að “þau sjónarmið sem að baki lágmarksgjaldi liggja, byggja á því að ákveðinn lágmarkskostnaður sé af tengingu hverrar eignar við holræsakerfi og þar með hverri lóð eða lóðareiningu. Holræsakostnaður sveitarfélaga felur fyrst og fremst í sér viðgerðir og viðhald (hreinsun) stofnlagna, en fasteignareigendur annast sjálfir viðhald eigin lagna að lóðarmörkum.“ Er það því álit kærða að reglugerð nr. 39/1997, sbr. reglugerð nr. 10/1998, hafi lagastoð í 87. gr. vatnalaga og mæli fyrir um eðlilega og sanngjarna dreifingu gjaldanna á fasteignareigendur.

 

             Ennfremur bendir kærði á að holræsagjöld í Ísafjarðarbæ standi einungis undir lágmarkskostnaði en líta verði á holræsakerfið sem “eins konar sameiginlega aðstöðu, þar sem kosnaður við viðhald o.fl. fer ekki nema að litlu leyti eftir notkun.“

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Um holræsi og álagningu holræsagjalda í Ísafjarðarbæ gildir X. kafli vatnalaga nr. 15/1923 og reglugerð um holræsagjald í Ísafjarðarbæ nr. 39/1997, sbr. reglugerð nr. 10/1998.

 

             Sú meginregla gildir að stjórnvöld geta almennt ekki innheimt þjónustugjöld nema þau hafi fengið til þess skýra lagaheimild. Slíkt ákvæði er að finna í 1. mgr. 87. gr. vatnalaga, en þar er sveitarstjórnum veitt heimild til að leggja þjónustugjald á hús og lóðir í sveitarfélaginu vegna kostnaðar af holræsagerð og þar er jafnframt tilgreint við hvað sveitarstjórnir megi miða ákvörðun um fjárhæð gjaldsins, en ákvæðið hljóðar svo: “Bæjarstjórn er rétt að leggja gjald á hús og lóðir í kaupstaðnum til þess að standa straum af holræsakostnaði. Gjald má miða við virðingarverð fasteigna eða við stærð lóða eða við hvorttveggja.“ Að öðru leyti er ekki fjallað um gjaldstofn þjónustugjalds vegna holræsakostnaðar í lögunum. Síðan segir í 4. mgr. 87. gr. laganna að holræsagjald skuli ákveðið í reglugerð. Sérhverju sveitarfélagi er þess vegna skylt að kveða skýrt á um í reglugerð við hvað skuli miðað þegar ákveða skal holræsagjald á fasteignir í sveitarfélaginu.

 

             Af orðalagi 88. gr. vatnalaga má ráða að notkun í þessu tilliti miðist við að húseign sé tengd við holræsakerfi sveitarfélagsins. Eigandi fasteignar sem tengd er við holræsakerfið telst því aðnjótandi þeirrar þjónustu eða starfsemi sem álagt holræsagjald svarar að minnsta kosti hluta af kostnaði við, óháð eiginlegri notkun þess.

 

             Með hliðsjón af ákvæðum X. kafla vatnalaga um heimildir sveitarfélags til að hækka eða lækka holræsagjald eftir nánar tilteknum aðstæðum, sbr. meðal annars 2. mgr. 87. gr., hefur ráðuneytið talið sveitarfélögum heimilt að setja í reglugerð ákvæði um hámark og lágmark holræsagjalds, enda er holræsagjaldið ekki ákveðið eftir mældri notkun hverrar fasteignar. Slík ákvæði eru hins vegar ætíð háð því skilyrði að við álagningu holræsagjalds verði þess gætt að gjaldið sé ekki hærra en sá kostnaður sem almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu.  

 

             Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar setti reglugerð um holræsagjald í Ísafjarðarbæ nr. 39/1997 þar sem kveðið er á um skyldu til greiðslu holræsagjalds og við hvað sé miðað þegar þessi gjöld eru lögð á fasteignir í sveitarfélaginu. Við 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar var bætt málslið með reglugerð nr. 10/1998. Hafa báðar þessar reglugerðir hlotið staðfestingu félagsmálaráðherra og eru þess vegna lögmætar holræsareglugerðir, sbr. 90. gr. vatnalaga.

 

             Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um holræsagjald í Ísafjarðarbæ segir svo: “Upphæð holræsagjaldsins skal vera 0,16% af fasteignamati íbúðarhúsa og lóða, og 0,16% af fasteignamati atvinnuhúsnæðis og lóða samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald. Gjöld samkvæmt grein þessari er bæjarstjórn heimilt að hækka eða lækka allt að 50% án þess að samþykki ráðuneytisins komi til. Bæjarstjórn er einnig heimilt að ákvarða hámark og lágmark holræsagjalds án þess að samþykki ráðuneytisins komi til. Getur hámark holræsagjalds fyrir hvert ár numið allt að kr. 20.000 og lágmarksgjald allt að kr. 8.000.“ Er þess vegna almennt miðað við “virðingarverð“ fasteigna en jafnframt settar fram lágmarks- og hámarksfjárhæðir sem eigendum fasteigna er gert að greiða. Er þannig leitast við að ná að einhverju leyti fram jöfnun á kostnaði gagnvart fasteignareigendum.

 

             Í umsögn Ísafjarðarbæjar vegna breytingar á reglugerð nr. 39/1997 kemur meðal annars fram að fjöldi tenginga við stofnkerfið hafi mikla þýðingu fyrir kostnað við rekstur og viðhald kerfisins. Er þess vegna að mati ráðuneytisins ekki óeðlilegt að ákveðið sé lágmarksgjald sem allir fasteignaeigendur greiði óháð virðingarverði fasteignar til að standa straum af lágmarkskostnaði við rekstur og viðhald holræsakerfa sveitarfélagsins.

 

             Ráðuneytið telur að ákvæði reglugerðarinnar um hámarks- og lágmarksgjald vegna kostnaðar við holræsagerð rúmist innan marka 87. gr. vatnalaga, enda ber sveitarfélaginu að tryggja öllum notendum sama aðgang að holræsakerfinu og þar sem samskonar þjónustu óháð raunverulegri notkun. Verður því við ákvörðun á fjárhæð holræsagjalda að líta til eðlis þeirrar þjónustu sem verið er að greiða fyrir, því eins og áður segir er ekki miðað við eiginlega notkun kerfisins heldur hvort fasteign sé tengd við kerfið og hafi möguleika á notkun.

 

             Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að ákvæði í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um holræsagjöld í Ísafjarðarbæ nr. 39/1997, sbr. reglugerð nr. 10/1998, standist ákvæði vatnalaga nr. 15/1923.

 

             Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu, meðal annars vegna sveitarstjórnarkosninga í maí sl.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Hafnað er kröfu Hlöðvers Kjartanssonar hdl., fyrir hönd Guðvarðar Kjartanssonar, um að ráðuneytið úrskurði að ákvæði í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar um holræsagjöld í Ísafjarðarbæ nr. 39/1997, sbr. reglugerð nr. 10/1998, standist ekki vatnalög nr. 15/1923.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Afrit:  Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum