Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2017 Innviðaráðuneytið

Vinnuhópur um endurskoðun fjármálakafla sveitarstjórnarlaga skilar skýrslu

Vinnuhópur sem endurskoðað hefur fjármálakafla sveitarstjórnarlaga sem tóku gildi 2012 hefur skilað skýrslu sinni. Telur hópurinn að krafa um aukinn aga í fjármálum sveitarfélaga sem lögin kveða á um hafi verið í samræmi við væntingar en leggur til nokkrar breytingar litið til skemmri og lengri tíma.

Vinnuhópur sem endurskoðað hefur fjármálakafla sveitarstjórnarlaga sem tóku gildi 2012 hefur skilað skýrslu sinni. Telur hópurinn að krafa um aukinn aga í fjármálum sveitarfélaga sem lögin kveða á um hafi verið í samræmi við væntingar en leggur til nokkrar breytingar litið til skemmri og lengri tíma.

Innanríkisráðherra skipaði á síðasta ári starfshóp í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaganna um endurskoðun á fjármálakafla laganna innan fimm ára frá gildistöku. Í hópnum sátu fulltrúar innanríkisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga og var aðal viðfangsefni endurskoðunarinnar ákvæði 64. gr. laganna um skuldaviðmið og jafnvægisreglu. Skýrsla vinnuhópsins og niðurstöður eru hluti af umfjöllun samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál (SUE) og skilar hópurinn skýrslu sinni til nefndarinnar.

Meðal tillagna vinnuhópsins er að hugað verði að eftirfarandi breytingum á fjármálareglum sveitarfélaga:

1. Jafnvægisregla.

Lagt er til að ákvæðið haldist óbreytt að sinni þar sem tilgangur þess þjónar áfram mikilvægu hlutverki í aðlögunaráætlunum, fjármálastjórn sveitarfélaga og í hagstjórn hins opinbera.

2. Skuldaregla.

Óumdeilt er að skuldaregla 64. gr. hefur verið einn stærsti ávinningurinn af fjármálakafla sveitarstjórnarlaganna. Lagt er til að ákvæðið haldist óbreytt að sinni þar sem tilgangur þess gegnir áfram mikilvægu hlutverki í aðlögunaráætlunum, fjármálastjórn sveitarfélaga og í hagstjórn hins opinbera.

3. Skilið verði á milli A-hluta og B-hluta.

Lagt er til að sérstök fjárhagsleg viðmið verði látin gilda um A-hluta og önnur um B-hluta.

4. Tekið verði á skuldbindingum vegna byggðasamlaga og fyrirtækja í eigu sveitarfélaga.

Lagt er til að unnið verði að tillögum sem taki á skuldbindingum sveitarfélaga vegna byggðasamlaga og fyrirtækja í minnihlutaeigu sveitarfélags svo hægt sé að innifela þessar skuldbindingar í reikningsskilum.

5. Regla um heildarafkomu komi í stað reglu um rekstrarafkomu.

Markmiðið að fá betri samsvörun í lögum um opinber fjármál, auk þess sem stuðlað er að sjálfbærni í rekstri sveitarfélaga til lengri tíma litið.

Samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál hefur fjallað um skýrsluna og hefur hún verið kynnt opinberlega á vettvangi sveitarstjórna. Málefni skýrslunnar eru enn opin til umræðu og hægt er að senda innanríkisráðuneytinu ábendingar um efni skýrslunnar út mars mánuð. Ábendingar skal senda á netfangið [email protected]. Í framhaldinu verður unnið að úrbótum á vettvangi lögbundinnar samstarfsnefndar ríkis og sveitarfélaga, Jónsmessunefndar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum