Hoppa yfir valmynd
8. júní 2012 Dómsmálaráðuneytið

Samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali tók gildi á Íslandi 1. júní 2012

Samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali tók gildi á Íslandi 1. júní 2012. Samningurinn var samþykktur og lagður fram til undirritunar á þriðja leiðtogafundi ráðsins í Varsjá 16. maí 2005. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem undirrituðu samninginn sama dag.

Samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali tók gildi á Íslandi 1. júní 2012. Samningurinn var samþykktur og lagður fram til undirritunar á þriðja leiðtogafundi ráðsins í Varsjá 16. maí 2005. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem undirrituðu samninginn sama dag.

Samningurinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd 23. febrúar sl. en nokkurra lagabreytinga var þörf svo fullgilda mætti samninginn. Var lögum um útlendinga nr. 96/2002 breytt með lögum nr. 116/2010 um dvalarleyfi fórnarlamba mansals, og almennum hegningarlögum nr. 19/1940 með lögum nr. 149/2009. Þá breytti heilbrigðisráðuneytið reglugerð um læknisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir.

Samningurinn tekur einkum til verndar fórnarlamba mansals og er markmið hans að tryggja mannréttindi þeirra jafnframt því sem gerendur verði saksóttir. Í samanburði við Palermó-bókunina og aðra alþjóðasamninga sem fjalla um mansal, gengur samningur Evrópuráðsins lengra hvað varðar vernd fórnarlamba. Samningnum er ekki ætlað að leysa af hólmi aðra alþjóðasamninga á þessu sviði heldur auka og þróa þá vernd sem þeir veita fórnarlömbum mansals. 

Vægi og nýbreytni samnings Evrópuráðsins felst í fyrsta lagi í staðfestingu þess að mansal er brot á mannréttindum og ógn við mannlega reisn og að aukinnar lagalegrar verndar sé þörf fyrir fórnarlömb mansals. Í öðru lagi nær samningurinn til mansals innan lands og milli landa, hvort sem það tengist skipulagðri glæpastarfsemi eða ekki, og tekur til hvers konar misnotkunar, svo sem kynlífsþrælkunar, nauðungarvinnu o.s.frv. Í þriðja lagi er með samningnum komið á fót eftirlitskerfi til að tryggja að aðilar samningsins framfylgi ákvæðum hans á skilvirkan hátt. Í fjórða lagi er í samningnum lögð áhersla á að jafnrétti kynjanna sé ætíð í forgrunni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum