Hoppa yfir valmynd
24. maí 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aukin samskipti Íslands og Japan

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Toshizo Watanabe. - mynd
Ötull hvatamaður að auknum samskiptum og nemendaskiptum milli Íslands og Japan er Toshizo Watanabe sem árið 2008 kom á laggirnar styrktarsjóði við Háskóla Íslands sem miðar að því að styrkja tengsl landanna. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fundaði með Watanabe í dag og ræddu þau þá reynslu sem komin er á styrkveitingarnar og framtíðarsýn sjóðsins. Sjóðurinn veitir íslenskum stúdentum og vísindamönnum tækifæri til að nema og starfa í japönsku samfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn, sem eiga þess kost að koma hingað.

Watanabe hlaut styrk til náms í Bandaríkjunum á sínum tíma, en hann lærði við Brandeis-háskólann í Massachusettes og var þar samtíða Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra og núverandi sendiherra Íslands í Washington. Með stofnun sjóðs sem styrkir ungt fólk til náms í öðru landi vildi Watanabe endurgjalda þá aðstoð sem hann hlaut sjálfur.

„Íslendingar, og þá sér í lagi ungt fólk, er einkar áhugasamt um Japan og japanska menningu. Það er ánægjulegt hversu mikil ásókn er í námsleið í japönsku við Háskóla Íslands sem um þessar mundir er eitt vinsælasta erlenda tungumálið við skólann. Dæmin sanna að skiptinám verður oft kveikja að mun dýpri og lengri samskiptum og það byggir brýr milli fólks og landa sem annars hefðu aldrei orðið til. Við sem þjóð búum að slíkum tengslum því með þeim ferðast þekking, skilningur og saga sem hvetur til frekari samskipta,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Metfjöldi styrkhafa er þetta árið en á dögunum var tilkynnt um að fjórtán nemendur og vísindamenn við Háskóla Íslands haldi til Japans til náms og rannsókna og að von sé á tíu nemendum og vísindamönnum frá japönskum háskólum hingað til lands í sömu erindagjörðum fyrir tilstilli Watanabe-styrktarsjóðsins.

Vilji er til þess að efla tengsl Íslands og Japans á sviði mennta- og vísindamála og mennta- og menningarmálaráðherra ræddi það meðal annars við samstarfsráðherra sinn í Japan, Masahiko Shibayama, í heimsókn til Tókýó á dögunum að hefja vinnu við rammasamkomulags um rannsóknarsamstarf íslenskra og japanskra háskóla. Á þeim fundi ræddu ráðherrarnir einnig fyrirhugaðan fund vísindamálaráðherra sem Ísland og Japan standa sameiginlega að á næsta ári og fram fer í Tókýó.

Hér má fræðast nánar um Watanabe-styrktarsjóðinn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum