Hoppa yfir valmynd
19. maí 2000 Innviðaráðuneytið

Búðahreppur - Frestun á álagningu gatnagerðargjalds. Fyrning

Búðahreppur                                                 19. maí 2000                       Tilvísun: FEL00040027/122

Steinþór Pétursson, sveitarstjóri

Hafnargötu 12

750 Fáskrúðsfirði

  

        Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 3. apríl sl., varðandi álagningu gatnagerðargjalds sem hafði verið frestað vegna aldurs gjaldanda. Fram kemur í erindinu að gjaldinu hafi ekki verið þinglýst á húseignina á þeim tíma en haft hafi verið samband við forsjáraðila gjaldandans áður en fyrningarfrestur rann út. Óskað er eftir áliti ráðuneytisins á því hvort krafan standist eða ekki.

 

        Í 14. gr. samþykktar um gatnagerðargjöld í Búðahreppi, Suður-Múlasýslu, nr. 402/1984 segir að sveitarstjórn sé heimilt að fresta álagningu B-gjalds ef um er að ræða íbúðarhúsnæði elli- og örorkulífeyrisþega. Skilyrði fyrir frestun álagningar er að gjaldinu verði þinglýst sem kvöð á viðkomandi eign og falli til álagningar í samræmi við gildandi gjaldskrá á hverjum tíma.

 

        Ráðuneytið telur ljóst að samkvæmt samþykkt nr. 402/1984 hafi sveitarfélaginu verið heimilt að fresta álagningu þess B-gatnagerðargjalds sem hér um ræðir. Hins vegar framfylgdi sveitarfélagið ekki því skilyrði að frestuninni yrði þinglýst sem kvöð á viðkomandi eign. Gilda því almennar fyrningarreglur um innheimtu gjaldsins.

 

        Eins og mál þetta liggur fyrir virðist því deilt um hvort krafan sem nú er á dánarbúið sé fyrnd eða ekki, þ.e. hvort sveitarfélagið hafi náð að rjúfa fyrningarfrest. Um fyrningu gilda lög um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Hefur félagsmálaráðuneytið ekki úrskurðarvald um túlkun þeirra laga heldur dómstólar ef samningar nást ekki milli aðila. Getur ráðuneytið þar með ekki kveðið á um hvort fyrrgreind krafa Búðahrepps standist eða ekki.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum