Hoppa yfir valmynd
8. janúar 1996 Innviðaráðuneytið

Vesturbyggð - Hafnað kröfu um að álit ráðuneytisins um afgreiðslu ársreiknings Patrekshrepps 1993 verði afturkallað

Haraldur Blöndal hrl.                                                                                  8. janúar 1996                             95050087

Ingólfsstræti 5, Pósthólf 36                                                                                                                                    1001

121 Reykjavík

 

 

 

 

            Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðherra f.h. Ólafs Arnfjörð Guðmundssonar, dagsett 7. desember 1995.

 

            Í erindinu er þess krafist að ráðherra afturkalli álit ráðuneytisins frá 9. nóvember 1995 varðandi afgreiðslu ársreiknings Patrekshrepps fyrir árið 1993, að því er varðar Ólaf Arnfjörð Guðmundsson. Krafan er byggð á því að ekki hafi verið gætt andmælaréttar gagnvart honum áður en álit ráðuneytisins var afgreitt.

 

            Um upplýsingarétt er fjallað í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tilgangur 13. gr. stjórnsýslulaga er að tryggja að aðila máls sé kunnugt um að mál er hann varðar sé til meðferðar í stjórnsýslunni svo honum gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun en tekin. Umbjóðandi yðar var aðili að beiðni til ráðuneytisins um rannsókn málsins sem bæjarstjórnarmaður og undirritaði jafnframt erindi þess efnis til ráðuneytisins. Vakin er athygli á að í bókun bæjarstjórnar um málið er tilgreint að “athugasemdum skoðunarmanna og löggilts endurskoðanda ásamt málefnum þeim tengdum [verði] vísað til félagsmálaráðuneytisins til rannsóknar”. Þau gögn sem ráðuneytið studdist við við meðferð málsins voru eingöngu gögn sem umbjóðandi yðar hafði þegar undir höndum þegar erindið var sent ráðuneytinu eða hafði aðgang að. Umbjóðanda yðar var því fullkunnugt um að málið var til meðferðar í ráðuneytinu og á hvaða forsendum og átti hann alla möguleika á að koma persónulegum sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðuneytið hefði hann talið ástæðu til þess. Nefna má sem dæmi að hann lét alfarið ómótmælt athugasemdum skoðunarmanna ársreikninga varðandi svör hans við 14 spurningum þeirra.

 

            Í erindi yðar kemur fram að þér teljið að ekki verði séð að vanhæfisreglur stjórnsýslulaga valdi því að sá, er mál varðar, megi ekki senda erindi. Í tilefni af þessu vill ráðuneytið undirstrika að það taldi þennan hátt umbjóðanda yðar vera “mjög óviðeigandi” en ekki var neitt tekið fram um að þetta hefði verið brot á stjórnsýslulögum.

 

            Hvað varðar stöðu á viðskiptareikningi umbjóðanda yðar hjá Vesturbyggð skal tekið fram að ráðuneytið tók á engan hátt afstöðu til réttmætis einstakra færslna á viðskiptareikningnum. Uppgjör á viðskiptareikningnum er algjörlega mál umbjóðanda yðar og bæjarstjórnar Vesturbyggðar.

 

            Með hliðsjón af öllu framangreindu telur ráðuneytið ekki forsendur vera til að taka málið upp á ný að því er varðar umbjóðanda yðar.

 

Páll Pétursson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum