Hoppa yfir valmynd
19. apríl 1996 Innviðaráðuneytið

Bolungarvíkurkaupstaður - Hæfi skoðunarmanna ársreikninga

Bolungarvíkurkaupstaður                                                                         19. apríl 1996                                 96040032

Ólafur Kristjánsson bæjarstjóri                                                                                                                                1001

Aðalstræti 12

415 Bolungarvík

 

 

 

 

           Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 1. apríl 1996, varðandi hvort makar bæjarfulltrúa séu kjörgengir til starfa skoðunarmanna ársreikninga.

 

            Um kjörgengi skoðunarmanna ársreikninga er fjallað í 2. mgr. 84. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Þar er ekki fjallað um maka sveitarstjórnarmanna. Hins vegar kemur til skoðunar hvaða áhrif 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga hefur á kjörgengi þeirra til slíkra starfa. Í því ákvæði segir m.a. að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.

 

           Sú aðstaða getur komið upp að skoðunarmaður ársreikninga, sem jafnframt er maki sveitarstjórnarmanns, gerir í skýrslu sinni um viðkomandi ársreikning nokkrar eða verulegar athugasemdir við meðferð fjármuna sveitarfélagsins. Í slíku tilviki yrði viðkomandi sveitarstjórnarmaður að víkja sæti í sveitarstjórn þegar skýrsla skoðunarmanna væri tekin til afgreiðslu á grundvelli 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga með vísan til hinna nánu tengsla við skoðunarmanninn. Ennfremur gæti sú aðstaða komið upp að skoðunarmaður treysti sér ekki til að gera athugasemdir við meðferð fjármuna sveitarfélagsins þótt tilefni væri til þess vegna hinna nánu tengsla við sveitarstjórnarmanninn.

 

           Til að fyrirbyggja ofangreint telur ráðuneytið því í ljósi 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga að makar sveitarstjórnarmanna séu ekki kjörgengir til starfa skoðunarmanna ársreikninga.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum