Hoppa yfir valmynd
16. júlí 1996 Innviðaráðuneytið

Árneshreppur - Ýmsir þættir í stjórnsýslu hreppsins

Ásbjörn Þorgilsson                                                                                    16. júlí 1996                          96030071

Hótel Djúpavík                                                                                                                                          16-4901

522 Kjörvogur

 

 

 

 

           Vísað er til bréfaskrifa yðar varðandi stjórnsýslu í Árneshreppi, m.a. frá 21. og 30. apríl 1996.

 

           Í tilefni af erindunum og jafnframt bréfaskrifum frá oddvita og hreppsnefnd Árneshrepps telur ráðuneytið rétt að taka eftirfarandi fram:

 

Um ábyrgðaveitingar sveitarfélaga.

 

           Í 4. og 5. mgr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 eru svohljóðandi ákvæði:

           “Eigi má binda sveitarsjóð við sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins.

           Sveitarstjórn getur veitt einfalda ábyrgð til annarra aðila gegn tryggingum sem hún metur gildar.”

 

           Ákvæði þessi eru ófrávíkjanleg og því getur hreppsnefnd Árneshrepps einungis veitt fiskverkunarfyrirtæki eða öðrum aðilum í sveitarfélaginu einfalda ábyrgð en ekki sjálfskuldarábyrgð og þá gegn tryggingum sem hún metur gildar.

 

           Ef þessum skilyrðum 4. og 5. mgr. 89. gr. laganna er ekki fylgt er ábyrgð sveitarfélagsins ekki gild, sbr. m.a. hæstaréttardóm 1993:76.

 

Um kosningu oddvita.

 

           Samkvæmt gögnum málsins var oddviti hreppsnefndar Árneshrepps kjörinn með tveimur atkvæðum en þrjú atkvæði voru auð. Varaoddviti var ennfremur kosinn með tveimur atkvæðum, annar hreppsnefndarmaður fékk eitt atkvæði og tvö atkvæði voru auð.

 

           Um oddvitakjör er fjallað í 2. og 3. mgr. 46. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og segir þar svo:

           “Á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar kýs sveitarstjórn oddvita og einn eða fleiri varaoddvita. Kjörtímabil oddvita og varaoddvita er eitt ár, en heimilt er þó sveitarstjórn að ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að kjörtímabilið skuli vera hið sama og sveitarstjórnar. Sá er rétt kjörinn oddviti eða varaoddviti sem hefur fengið atkvæði meiri hluta þeirra sem sæti eiga í sveitarstjórn.

           Verði þeim atkvæðafjölda eigi náð skal kjósa að nýju og skal þá kjósa um þá tvo er flest fengu atkvæðin. Ef þrír eða fleiri, sem um skyldi kjósa, hafa fengið jafnmörg atkvæði skal varpa hlutkesti um hverja tvo skuli kjósa. Verður þá sá rétt kjörinn sem fleiri atkvæði fær þó að hann fái ekki helming atkvæða. Verði atkvæði jöfn ræður hlutkesti.”

 

           Í ákvæði þessu eru skýr fyrirmæli um með hvaða hætti oddviti og varaoddviti eru kosnir. Ljóst er af gögnum málsins að þessum fyrirmælum hefur ekki verið fylgt af hreppsnefnd Árneshrepps. Ráðuneytið mun því skora á hreppsnefnd að taka kjör oddvita og varaoddvita á ný á dagskrá hreppsnefndarfundar og fylgja ofangreindum ákvæðum við það kjör.

 

Um aðgang hreppsnefndarmanna að gögnum sveitarfélagsins.

 

           Fjallað er um skyldur og réttindi sveitarstjórnarmanna í IV. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Þar segir m.a. svo í 1. mgr. 41. gr.:

           “Sveitarstjórnarmenn hafa málfrelsi á fundum sveitarstjórna og nefnda eftir því sem nánar er ákveðið í fundarsköpum. Þeir hafa tillögurétt, atkvæðisrétt, kjörgengi í nefndir og aðgang að bókum og skjölum sveitarfélagsins og óhindraðan aðgang að stofnunum þess og starfsemi.” (Undirstrikun ráðuneytisins.)

 

           Réttur sveitarstjórnarmanna er því skýr að þessu leyti og oddvita eða öðrum aðilum er ekki heimilt að takmarka þann rétt, nema sérstök lagaákvæði heimili slíkt.

 

Um ritun fundargerða.

 

           Ákvæði um ritun fundargerða o.fl. er að finna í 53. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Þar segir svo orðrétt:

           “Oddviti stjórnar umræðum á fundum sveitarstjórnar. Hann sér um að fundargerðir séu skipulega færðar í gerðabók sveitarstjórnar og að allar ályktanir og samþykktir séu rétt og nákvæmlega bókaðar.

           Rétt er sveitarstjórn að ráða sér fundarritara.

           Allir fulltrúar, sem mættir eru, skulu undirrita fundargerðir sveitarstjórnar nema sveitarstjórn ákveði annað í einstökum tilvikum.”

 

           Nánari ákvæði um ritun fundargerða eru ennfremur í 35. gr. fyrirmyndar að samþykkt um stjórn og fundarsköp N.N.hrepps, sbr. auglýsingu nr. 106/1987, en hún gildir fyrir hreppsnefnd Árneshrepps, sbr. 49. gr. sveitarstjórnarlaga, þar sem hreppsnefndin hefur ekki sett sér sérstök fundarsköp. Þar segir m.a. svo í 1.-5. mgr.:

           “Hreppsnefnd getur ráðið sérstakan fundarritara utan hreppsnefndar til að annast ritun fundargerða í gerðabók hreppsnefndar. Í fundargerð skal getið, hvar og hvenær fundur er haldinn og hverjir sitji fundinn. Skrá skal þau mál, sem tekin eru fyrir, dagsetningu þeirra, aðila máls og meginefni og hvaða afgreiðslu þau fá. Sé mál ekki afgreitt samhljóða, skal greina í fundargerð, hvernig atkvæði hafa skipst. Þegar lagðar eru fram fundargerðir nefnda, nægir að skrá í fundargerð hreppsnefndar, um hvaða nefndir er að ræða, dagsetningu fundargerða og fjölda töluliða.

           Mál, sem tekin eru fyrir á lokuðum fundi sbr. 3. mgr. 20. gr. samþykktar þessarar skal skrá sem trúnaðarmál.

           Hreppsnefndarmaður á rétt á að fá bókaða stutta athugasemd um afstöðu sína til máls, sem til meðferðar er í hreppsnefnd. Oddviti skal hafa eftirlit með því, að fundargerðir séu skipulega og rétt færðar.   

           Í lok fundar skal fundargerð lesin upp og skulu allir viðstaddir hreppsnefndarmenn undirrita hana nema hreppsnefnd ákveði annað.

           Hreppsnefndarmaður, sem gera vill athugasemd við eitthvert atriði í fundargerð, getur undirritað fundargerðina með fyrirvara um það atriði.”

 

           Samkvæmt ofangreindum ákvæðum telur ráðuneytið æskilegt að fundargerð sé afgreidd og undirrituð í lok viðkomandi fundar, en hreppsnefnd er hins vegar heimilt að ákveða annað. Þannig er ekki í ákvæðunum að finna bann gegn því að fundargerð sé hreinrituð af oddvita í fundargerðarbók eftir á, en þá kemur hún til afgreiðslu og undirritunar á næsta fundi hreppsnefndar. Hreppsnefndarmenn hafa þá heimild til að gera athugasemdir við fundargerðina eða undirrita hana með fyrirvara, sbr. framangreind ákvæði.

 

Um rekstur oddvita á fiskverkun í sveitarfélaginu.

 

           Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 er það sveitarstjórn sem fer með fjárhagslega stjórn sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 7. gr. og 9. gr. Oddviti sveitarstjórnar hefur hins vegar það hlutverk m.a. að annast framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnarinnar og daglega stjórn hreppsins, sbr. 67. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og 64. gr. (VI. kafla B) fyrirmyndar að samþykkt um stjórn og fundarsköp N.N.hrepps, sbr. auglýsingu nr. 106/1987.

 

           Ráðuneytið telur að í framangreindu hlutverki oddvita hreppsnefndar felist, að hann skuli gæta hagsmuna hreppsins í hvívetna og að hreppurinn verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni að ósekju og meðal annars hefur oddviti með höndum innheimtu skulda fyrir hönd hreppssjóðs.

 

           Um hæfi sveitarstjórnarmanna til að fjalla um einstök mál í hreppsnefnd eru ákvæði í 45. gr. sveitarstjórnarlaga, en í 1. mgr. 45. gr. segir m.a. svo: “Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.”

 

           Í Árneshreppi er Gunnsteinn Gíslason í þeirri aðstöðu, að hann er oddviti hreppsnefndar Árneshrepps, sem veitt hefur fiskverkunarfyrirtæki hans “hreppsábyrgð” og jafnframt er fiskvinnslufyrirtækið rekið í húsnæði sem er í eigu sveitarfélagsins. Þar sem hagsmunir þessara tveggja aðila (sveitarfélagsins og fiskverkunarinnar) geta augljóslega skarast, er ljóst að Gunnsteini Gíslasyni er ekki unnt að gæta hagsmuna bæði Árneshrepps og fiskverkunar sinnar í sömu andrá. Hætta er á að við meðferð og afgreiðslu mála hjá Árneshreppi er varða fiskverkunina mótist viljaafstaða hans a.m.k. að einhverju leyti af tengslum hans við fyrirtækið. Hann var og er því vanhæfur til að afgreiða í hreppsnefnd og á vegum sveitarfélagsins að öðru leyti mál sem snerta hagsmuni fiskverkunar hans, sbr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Afrit:  Hreppsnefnd Árneshrepps.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum