Hoppa yfir valmynd
10. maí 2019

Embætti þjóðleikhússtjóra

 
Embætti þjóðleikhússtjóra laust til umsóknar

Þjóðleikhúsið
Þjóðleikhúsið er ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra, stofnað árið 1950. Í Þjóðleikhúsinu skal iðka leiklist og þær listgreinar aðrar sem leiksviði eru tengdar. Þjóðleikhúsið skal í starfsemi sinni leitast við að glæða áhuga landsmanna á þessum listgreinum og stuðla að þróun þeirra. Aðalverkefni Þjóðleikhússins er flutningur íslenskra og erlendra sjónleikja. Fastráðið starfsfólk Þjóðleikhússins eru að jafnaði um 100. 
Nánari upplýsingar um stofnunina er að finna á vefsíðu hennar; leikhusid.is

Hæfnikröfur
Leitað er eftir einstaklingi með umfangsmikla stjórnunarreynslu, leiðtoga- og samskiptahæfni, reynslu af stefnumótunarvinnu og hæfileika til nýsköpunar. Þekking og reynsla af stjórnsýslu, fjármálum og rekstri er einnig mikilvæg sem og góð kunnátta í íslensku, ensku og einu Norðurlandamáli.

Menntunarkröfur
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga leiklistarlaga, nr. 138/1998, skal skipaður í embætti þjóðleikhússtjóra einstaklingur með menntun á sviði lista og staðgóða þekkingu á starfi leikhúsa. 

Starfssvið og helstu verkefni
Þjóðleikhússtjóri stjórnar og ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Hann markar listræna stefnu leikhússins í samráði við þjóðleikhúsráð, stýrir stofnuninni samkvæmt samþykktri starfs- og fjárhagsáætlun og ber ábyrgð á rekstri þess, bæði listrænum og fjárhagslegum. Mikilvægt er að umsækjendur hafi skýra framtíðarsýn hvað þetta varðar. Þjóðleikhússtjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar og er í fyrirsvari fyrir hana. 
Um frekara hlutverk og starfsemi leikhússins vísast til ákvæða leiklistarlaga nr. 138/1998.

Persónulegir eiginleikar
Leitað er eftir einstaklingi sem sýnir frumkvæði og framsýni. Sjálfstæð, skipulögð og lausnamiðuð vinnubrögð eru einnig mikilvæg sem og skipulagshæfni og þjónustulund. Jafnframt er leitað að metnaðarfullum og faglegum einstaklingi með brennandi áhuga á sviði leiklistar.  Umsækjandi þarf að geta unnið undir álagi. 

Ráðning og kjör
Mennta- og menningarmálaráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs skv.1. mgr. 6. gr. leiklistarlaga, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Ráðið er í starfið frá 1. janúar 2020.

Um laun þjóðleikhússtjóra fer eftir 39. gr. a í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Umsóknir
Umsóknir með greinargerð umsækjenda um framtíðarsýn fyrir Þjóðleikhúsið (út frá faglegum og rekstrarlegum áherslum) með upplýsingum um núverandi starfsheiti umsækjenda ásamt ítarlegum upplýsingum um menntun og fyrri störf skulu hafa borist mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík eða á netfangið [email protected], fyrir dagslok mánudaginn 1. júlí 2019. 

Nöfn allra umsækjenda verða birt á vef ráðuneytisins að loknum umsóknarfresti og verða umsóknir þar sem óskað er nafnleyndar ekki teknar til greina. Nánari upplýsingar um starfið veitir Anna María Urbancic rekstrarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Umsóknarfrestur er til og með 1. júlí 2019.


Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 10. maí 2019.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum