Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2017 Dómsmálaráðuneytið

Heimsótti embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara

Dómsmálaaráðherra ræddi við sérsveitarmenn og kynnti sér búnað þeirra. - mynd

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra heimsótti bæði embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara í gær. Þar átti hún samtal við bæði forráðamenn og starfsmenn embættanna um verkefnin, áskoranir og það sem vel gengur.

Ráðherra og fylgdarlið byrjuðu hjá ríkislögreglustjóra þar sem Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, tók á móti hópnum.

Til umræðu var meðal annars almennur viðbúnaður lögreglunnar í ljósi hryðjuverkaógnar en hann er stöðugt til skoðunar hjá embætti ríkislögreglustjóra og uppfærður ef tilefni er til. Ráðherra spjallaði einnig við starfsmenn greiningardeildar og sérsveitar ásamt því að skoða aðstöðu þeirra og búnað.

Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, tók svo á móti ráðherra og fylgdarliði síðdegis. Umræður voru gagnlegar, meðal annars um starfssvið embættisins sem sætt hefur breytingum en frá og með 1. janúar 2016 fara ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar, að undanskildum ríkislögreglustjóra, með ákæruvaldið í landinu.

„Í þessum heimsóknum fæ ég góða innsýn inn í starfsemi og stöðu embættanna,“ segir Sigríður en hún lagði jafnframt áherslu á að dyr sínar stæðu ávallt opnar forstöðumönnum embættanna. „Það er mikilvægt að ræða saman, skiptast á skoðunum, fá frá fyrstu hendi ef skórinn kreppir á einhverjum sviðum og kanna hvernig má betur vinna saman að þróun embættanna,“ segir ráðherra að lokum.

Á myndinni eru frá vinstri: Sigríður Á. Andersen, Þórunn J. Hafstein, Sigríður J. Friðjónsdóttir og Helgi Magnús Gunnnarsson.

Á myndinni eru frá vinstri: Sigríður Á. Andersen, Þórunn J. Hafstein, Sigríður J. Friðjónsdóttir og Helgi Magnús Gunnnarsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum