Hoppa yfir valmynd
17. desember 1996 Innviðaráðuneytið

Austur-Eyjafjallahreppur - Heimildir til að úthluta fé úr sveitarsjóði

Gunnar Sigurðsson                                                                                   17. desember 1996                                96090026

Eyvindarhólum, A-Eyjafjallahreppi                                                                                                                                  1001

861 Hvolsvöllur

 

 

           Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 30. ágúst 1996, varðandi heimild til að úthluta fé úr hreppssjóði og varðandi rétt á fresti til að kanna lögmæti máls.

 

1.        Er meirihluta hreppsnefndar, oddvita eða starfsmanni hreppsskrifstofu heimilt, að úthluta fé úr hreppssjóði, (m.a. styrkveitingar til ýmissa aðila), sem ekki hafa verið ákveðnar í fjárhagsáætlun, án þess að bera það undir samþykki hreppsnefndar, jafnvel þó upphæðir fari ekki fram úr samþykktri fjárhagsáætlun?

 

           Um fjármál sveitarfélaga er fjallað í VIII. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

 

           Í 75. gr. laganna segir svo m.a.:

           “Fyrir lok janúarmánaðar skal sveitarstjórn gera fjárhagsáætlun sveitarsjóðs, stofnana og fyrirtækja sveitarfélagsins fyrir yfirstandandi ár. ... Í fjárhagsáætlun skal koma fram rekstrar- og framkvæmdaáætlun, enn fremur áætlaðar fjármagnshreyfingar. ... Fjárhagsáætlun skv. þessari grein skal vera meginregla um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn sveitarfélagsins á reikningsárinu.”

 

           Síðan segir svo í 80. gr. laganna:

           “Til útgjalda, sem ekki eru lögbundin, samningsbundin eða leiðir af fyrri samþykkt sveitarstjórnar, má ekki stofna nema til komi samþykki sveitarstjórnar. Samþykki sveitarstjórn fjárveitingu utan fjárhagsáætlunar skal hún jafnframt kveða á um hvernig útgjöldunum skuli mætt.”

 

           Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum er ljóst að ef útgjöld eru ekki ákveðin í fjárhagsáætlun, ber að taka ákvörðun um þau í sveitarstjórn. Jafnframt skal tekið fram að ef starfsmönnum sveitarfélags er ætlað að ákveða skiptingu einhverra liða í fjárhagsáætlun verður að liggja fyrir um það skýr samþykkt sveitarstjórnar.

 

2.        Er oddvita hreppsnefndar heimilt, að neita minnihluta um frest til að kanna lögmæti máls á hlutlausan hátt, sem minnihluti telur vafa leika á að sé löglegt?

 

           Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga fer sveitarstjórn með stjórn sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum þeirra laga og annarra laga. Sveitarstjórn tekur því ákvarðanir sínar þegar meirihluti sveitarstjórnarmanna telur sig vera tilbúinn til þess. Ef meirihluti sveitarstjórnarmanna er tilbúinn til að taka ákvörðun er ekki skylt að fresta afgreiðslu máls ef óskað er eftir fresti af hálfu minnihluta sveitarstjórnarmanna, en slíkt er þó heimilt, nema sveitarstjórn beri að afgreiða mál fyrir lok lögboðins frests.

 

           Að lokum er í framhaldi af þessum lið vakin athygli á þeim kæruleiðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

           Afgreiðsla erindis yðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum