Hoppa yfir valmynd
14. júlí 1997 Innviðaráðuneytið

Vesturbyggð - Heimild bæjarráðs til að víkja skoðunarmanni ársreikninga frá störfum

Sigurður Viggósson                                             14. júlí 1997                                                       97070007

Sigtúni 5                                                                                                                                                       1001

450 Patreksfjörður

            

 

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 30. júní 1997, þar sem óskað er eftir að ráðuneytið úrskurði um heimild bæjarráðs Vesturbyggðar til að víkja yður úr starfi sem skoðunarmaður ársreikninga, sbr. ákvörðun bæjarráðs frá 26. júní 1997. Ennfremur er óskað eftir að úrskurðað verði hvort formanni bæjarráðs hafi verið heimilt að hafna beini yðar um aðgang að gögnum sveitarfélagsins til að vinna “venjulega endurskoðunarvinnu á bókhaldi sveitarfélagsins”, sbr. bréf yðar dagsett 27. júní 1997 og svarbréf formannsins dagsett sama dag.

 

             Ráðuneytið óskaði með símbréfi, dagsettu 10. júlí 1997, eftir að fá senda fundargerð framangreinds bæjarráðsfundar. Fundargerðin barst ráðuneytinu sama dag.

 

Málavextir og málsástæður:

 

             Á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar þann 10. júní 1997 voru m.a. kjörnir skoðunarmenn ársreikninga og voruð þér kjörinn annar þeirra, sbr. bréf bæjarritara til yðar, dagsett 12. sama mánaðar.

 

             Á fundi bæjarráðs Vesturbyggðar þann 26. júní 1997 var hins vegar samþykkt samhljóða svohljóðandi tillaga tveggja bæjarráðsmanna:

             “Við undirritaðir bæjarráðsfulltrúar gerum tillögu um að Sigurður Viggósson, annar af skoðunarmönnum ársreikninga Vesturbyggðar, verði leystur frá þeim skyldum og að varamaður hans, Ari Hafliðason, taki við.

             Við undirritaðir sjáum okkur ekki annað fært eftir þá alvarlegu niðurstöðu lögmanns, þar sem hann sér ekki aðra leið en að óska eftir opinberri rannsókn á svokölluðu Látravíkurmáli.”

 

             Einn bæjarráðsmanna vék sæti við umræður og afgreiðslu málsins vegna vanhæfis.

 

             Var yður tilkynnt um þessa ákvörðun með bréfi bæjarstjóra, dagsettu sama dag.

 

             Í erindi yðar teljið þér að bæjarráð Vesturbyggðar hafi með framangreindri samþykkt og aðgerðum brotið “alvarlega” á yður og ástæða sé til að óska eftir úrskurði ráðuneytisins um lagaheimildir bæjarráðs í þessu tilviki. Spurning sé hvort til staðar hafi verið “nægileg ástæða til brottvikningar úr opinberu starfi, eins og starf skoðunarmanna ársreikninga ótvírætt er.” Einungis tveir bæjarráðsmenn af þremur hafi óskað eftir opinberri rannsókn á umræddu máli.

 

Niðurstaða ráðuneytisins:

 

             Um hlutverk bæjarráðs er að finna ákvæði í 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og einnig í 52. gr. samþykktar um stjórn Vesturbyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 615/1996.

 

             Framangreind 52. gr. samþykktarinnar hljóðar svo:

             “Bæjarráð fer ásamt bæjarstjóra með framkvæmdastjórn bæjarins og fjármálastjórn að því leyti sem slík stjórn er ekki öðrum falin. Bæjarráð hefur umsjón með stjórnsýslu bæjarins, undirbúningi árlegrar fjárhagsáætlunar, semur drög að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og bæjarfyrirtækja að fengnum tillögum hlutaðeigandi stjórna og leggur þau fyrir bæjarstjórn í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Þá sér bæjarráð um að ársreikningar bæjarsjóðs séu samdir og þeir ásamt ársreikningum bæjarstofnana lagðir fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu eins og sveitarstjórnarlög mæla fyrir um.

             Bæjarráð gerir tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála, sem það fær til meðferðar. Bæjarráði er heimil fullnaðarafgreiðsla mála, sem ekki varða verulega fjárhag bæjarsjóðs eða stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur milli bæjarráðsmanna eða við bæjarstjóra um slíka afgreiðslu. Bæjarstjórn setur reglur ár hvert til handa bæjarráði um hámark þeirra fjárhæða er teljast á fjárhagslegu valdsviði bæjarráðs. Bæjarráð ákveður skiptingu og ráðstöfun fjár, sem ætlað er til einstakra málaflokka samkvæmt fjárhagsáætlun, svo sem til gatnagerðar, nýbygginga og óvissra útgjalda.”

 

             Í 2. mgr. 84. gr. sveitarstjórnarlaga segir m.a. að á fyrsta eða öðrum fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar skuli hún kjósa tvo skoðunarmenn til eins árs í senn og jafnmarga til vara. Jafnframt segir í 1. tölulið 6. gr. samþykktarinnar að meðal verkefna bæjarstjórnar Vesturbyggðar sé að kjósa skoðunarmenn til að annast endurskoðun ársreikninga bæjarins samkvæmt VIII. kafla sveitarstjórnarlaga.

 

             Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum sveitarstjórnarlaga og samþykktar um stjórn Vesturbyggðar og fundarsköp bæjarstjórnar telur ráðuneytið ljóst að kosning skoðunarmanna ársreikninga er í verkahring bæjarstjórnar. Sama gildir um ákvörðun um að leysa skoðunarmann frá störfum, þ.e. sama stjórnvald verður að taka ákvörðunina svo hún teljist bindandi. Verður því að líta á samþykkt bæjarráðs frá 26. júní sl. um að víkja yður úr starfi skoðunarmanns sem tillögu bæjarráðs til bæjarstjórnar um málið.

 

             Ennfremur verður að telja að heimildir bæjarráðs til fullnaðarafgreiðslu mála í sumarleyfi bæjarstjórnar nái ekki til þess að víkja kjörnum skoðunarmanni frá störfum. Ber því bæjarstjórn Vesturbyggðar að taka endanlega afstöðu til tillögu um hvort víkja beri kjörnum skoðunarmanni frá störfum.

 

             Rétt er að taka skýrt fram að ráðuneytið tekur á engan hátt afstöðu til efnislegra ástæðna sem liggja að baki framangreindri samþykkt bæjarráðs.

 

             Hvað varðar höfnun á beiðni yðar um aðgang að bókhaldsgögnum sveitarfélagsins, sem fram kom eftir að bæjarráð gerði samþykkt sína, vill ráðuneytið taka fram að það telur ekki óeðlilegt að fresta vinnu skoðunarmanna ársreikninga meðan það ástand varir að bæjarstjórn hefur ekki tekið afstöðu til framangreindrar samþykktar bæjarráðs.

 

             Að lokum vill ráðuneytið ítreka fyrri ábendingu um álit ráðuneytisins frá 19. apríl 1996 varðandi það atriði hvort makar bæjarfulltrúa séu kjörgengir til starfa skoðunarmanna ársreikninga.

 

F. h. r.

 

Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

Ljósrit:  Vesturbyggð.

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum